Í dag, fimmtudag 4.nóvember hefur fjöldi grunnskólabarna í Reykjavík lagt leið sína í Þjónustumiðstöð KFUM og KFUK að Holtavegi 28 til að leggja verkefninu Jól í skókassa lið, með góðum gjöfum í skemmtilega innpökkuðum skókössum.
Börn úr Langholtsskóla og Ísaksskóla eru meðal þeirra sem hafa útbúið fallega skókassa af mikilli vandvirkni og kostgæfni, til að gefa til verkefnisins.
Á meðfylgjandi mynd má sjá börn úr Ísaksskóla sem komu færandi hendi í dag.
Jól í skókassa (
www.skokassar.net) , sem er alþjóðlegt verkefni og hóf göngu sína á Íslandi árið 2004 fyrir frumkvæði ungs fólks innan KFUM og KFUK , felst í því að fá börn jafnt sem fullorðna til þess að gleðja börn sem lifa við fátækt, sjúkdóma og erfiðleika með því að gefa þeim jólagjafir. Skókössunum sem safnast í ár verður meðal annars dreift á heimili fyrir munaðarlausa, barnaspítala og til barna einstæðra foreldra í Úkraínu.
Nú eru aðeins 2 dagar í lokaskiladag verkefnisins Jól í skókassa í Reykjavík, sem er 6.nóvember. Allar upplýsingar um frágang kassanna, og tilhögun (auk almennra upplýsinga um verkefnið) er að finna á heimasíðu verkefnisins:
http://skokassar.net . Jól í skókassa er á Facebook. Einnig er velkomið að hafa samband við Þjónustumiðstöð KFUM og KFUK í síma 588-8899 ef fyrirspurnir vakna.
Hægt er að koma með skókassa í Þjónustumiðstöð KFUM og KFUK virka daga í vikunni, þar sem opnunartími er frá kl.9 til 17. Lokaskiladagur verkefnisins á höfuðborgarsvæðinu er laugardagurinn 6. nóvember, í húsi KFUM og KFUK á Holtavegi 28, 104 Reykjavík (gegnt Langholtsskóla), frá kl. 11:00 til kl. 16:00 og verða léttar veitingar í boði, auk þess sem boðið verður upp á myndasýningu frá afhendingu skókassa frá síðustu jólum í Úkraínu.