Nú þegar tekið er að hausta er Jól í skókassa-verkefnið farið af stað af fullum krafti, í sjöunda skipti. Jól í skókassa er alþjóðlegt verkefni sem felst í því að fá börn jafnt sem fullorðna til þess að gleðja börn sem lifa við fátækt, sjúkdóma og erfiðleika með því að gefa þeim jólagjafir. Allar upplýsingar fyrir þá sem vilja taka þátt í verkefninu, m.a. um það hvaða gjafir skal setja í skókassana og hvernig skal útbúa þá, er að finna á heimasíðunni
http://skokassar.net/spurningar/ .
Skókössunum sem safnast í ár verður meðal annars dreift á heimili fyrir munaðarlausa, barnaspítala og til barna einstæðra foreldra, en þeir verða sendir til Úkraínu í janúar.
Síðastliðinn föstudag voru fyrstu skókassarnir afhentir í Þjónustumiðstöð KFUM og KFUK að Holtavegi 28, en gefendurnir höfðu pakkað þeim inn í fallegar jólaumbúðir,og fyllt þá góðum gjöfum.
Söfnun á skókössum heldur nú áfram, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu geta komið með skókassa í Þjónustumiðstöð KFUM og KFUK alla virka daga, þar sem opnunartími er frá kl.9 til 17. Lokaskiladagur verkefnisins á höfuðborgarsvæðinu er laugardagurinn 6. nóvember, í húsi KFUM og KFUK á Holtavegi 28, 104 Reykjavík (gegnt Langholtsskóla), frá kl. 11:00 til kl. 16:00 og verða léttar veitingar í boði, auk þess sem boðið verður upp á myndasýningu frá afhendingu skókassa frá síðustu jólum í Úkraínu. Á landsbyggðinni eru skilastaðir víða, og skiladagur þar almennt 31.október (með nokkrum undantekningum), en upplýsingar um þá má finna hér:
http://skokassar.net/hvar-get-eg-skila%C3%B0-kossum/ .
Biblíuleshópurinn Bleikjan, sem samanstendur af ungu fólki innan KFUM og KFUK, byrjaði með Jól í skókassa-verkefnið, og sér einnig um það í ár.
Allar aðrar almennar upplýsingar um verkefnið má sjá á heimasíðunni
www.skokassar.net , en einnig er hægt að hafa samband við Þjónustumiðstöð KFUM og KFUK í síma 588-8899 ef fyrirspurnir vakna.