Undirbúningur fyrir verkefnið „Jól í skókassa“ er nú kominn á fullt skrið. Þetta er í sjöunda skiptið sem það er framkvæmt. Jól í skókassa er alþjóðlegt verkefni sem felst í því að fá börn jafnt sem fullorðna til þess að gleðja börn sem lifa við fátækt, sjúkdóma og erfiðleika með því að gefa þeim jólagjafir. Með slíkum gjöfum er þeim sýndur kærleikur Guðs í verki. Það var biblíuleshópurinn „Bleikjan“ sem byrjaði með þetta verkefni, en hann samanstendur af þréttan ungum einstaklingum innan KFUM og KFUK. Verkefnið er unnið í samstarfi við KFUM og KFUK á Íslandi og fór fyrsta söfnunin fram haustið 2004. Síðan þá hefur rúmlega 21.000 gjöfum verið safnað.
Jól í skókassa hefur sent allar sínar gjafir til Úkraínu og svo verður einnig í ár en verkefnið er unnið í samstarfi við KFUM þar í landi og er okkar helsti tengiliður við verkefnið faðir Evheniy Zhabkovskiy sem er prestur í úkraínsku rétttrúnaðarkirkjunni. Skókössunum sem safnast í ár verður meðal annars dreift á heimili fyrir munaðarlausa, barnaspítala og til barna einstæðra foreldra. Það er von okkar í hópnum að þessar gjafir verði börnunum góður vitnisburður um kærleika Krists, einmitt þegar fæðingu hans er fagnað með jólahátíðinni.
Þeir sem taka þátt í verkefninu verða sér úti um skókassa og fóðra kassann og lokið að utan með jólapappír og svo eru settar ýmsar vörur í kassann við hæfi í samræmi við aldur og kyn barnsins. Nánari upplýsingar um frágang kassanna, og tilhögun (auk almennra upplýsinga um verkefnið) er að finna á heimasíðu verkefnisins:
http://skokassar.net . Einnig er Jól í skókassa á Facebook.
Lokaskiladagur verkefnisins er laugardagurinn 6. nóvember, í húsi KFUM og KFUK á Holtavegi 28, 104 Reykjavík (gegnt Langholtsskóla), frá kl. 11:00 til kl. 16:00 og verða léttar veitingar í boði, auk þess sem boðið verður upp á myndasýningu frá afhendingu skókassa frá síðustu jólum í Úkraínu.
Fyrir hönd Bleikjunnar,
Salvar Geir Guðgeirsson