Dagurinn hefur verið yndislegur frá morgni til kvölds. Við vöknuðum um hálf níu, borðuðum hafragraut og fleira hollt áður en fánahyllingin og tiltekt á herbergjum fór fram. Stúlkurnar voru mjög skemmtilegar og frjóar á Biblíulestri, en eftir hann var úrslitakeppnin í brennóbolta. Í hádegismat fengum við grænmetisbuff, kartöflumús og ferskt grænmeti. Það var sannkallaður sumarmatur.
Eftir hádegi var ratleikur um alla landareignina, þar sem reyndi á samvinnu hópanna, eftirtekt þeirra og ratvísi um svæðið. Í kaffinu var boðið upp á heimagerðar skonsur með smjöri og osti og einnig upp á gulrótarköku. Hvoru tveggja var mjög vinsælt. Í íþróttakeppni dagsins var keppt í jötunfötu og því að ganga í kringum húsið á dósastultum. Það tók verulega á, auk þess sem dósaglamrið var heilmikið fyrir okkur sem ekki tókum þátt.
Sólin hefur skinið allan daginn og finnst það vel á lundarfari stúlknanna, sem hafa notið dagsins til hins ítrasta. Þó voru sumar alveg búnar að fá nóg af hitanum og fóru í smástund og perluðu í svalanum inni í húsi. Heiti potturinn var ekkert mjög heitur í dag, en mjög vinsæll í hitanum. Þær sem ekki fóru í pottinn, fóru í sturtu. Einnig notuðu stelpurnar góðan tíma í að æfa sig og semja atriði fyrir hæfileikakeppnina sem búið var að boða að yrði á kvöldvökunni. Í kvöldmat fengum við grjónagraut og heimabakað rúgbrauð með osti. Atriðin á hæfileikakeppninni voru hvert öðru flottara, en þar var mikið um söng-, dans- og fimleikaatriði að þessu sinni. Í hugleiðingu kvöldsins var talað um mikilvægi þess að treysta því að Jesús væri alltaf með okkur, hverjar sem aðstæður okkar væru. Ávextirnir voru vinsælir og síðan höfðu stúlkurnar sig til fyrir svefninn. Á morgun er heimfarar- og veisludagur og þá verður mikið um dýrðir í Ölveri.
Rútan leggur af stað klukkan 20:30 héðan úr Ölveri og komum við á Holtaveginn undir klukkan hálf tíu.
Með fögrum sólseturskveðjum héðan úr Ölverinu okkar,
Ása Björk forstöðukona.