Í gær var mikið um að vera í Vatnaskógi og léku drengirnir við hvern sinn fingur. Veðrið var mjög gott léttskýjað, hægur vindur og hiti á bilinu 13 – 15°C. Eftir morgunmat var fánahylling, en það er gömul hefð í Vatnaskógi að hylla íslenska fánan og um leið að þakka fyrir allt það góða sem við höfum hér á Íslandi. Eftir fánahyllingu var morgunstund þar sem rætt var um sköpun Guðs. Í hádeginu fengu drengirnir góðan fiskirétt, í kaffinu var kanillengja og jógúrtkaka og í kvöldmat var ávaxtasúrmjólk að hætti Skógarmanna.
Dagskráin í gær var þétt og áttu allir að finna eitthvað við sitt hæfi. Aflraunakeppnin Vatnaskógarvíkingurinn var á sínum stað og tóku fjölmargir drengir þátt. Boðið var upp á koddaslag út í Eyrarvatni og tóku mjög margir þátt eins og sjá má á myndunum. Í frjálsum íþróttum fengu drengirnir að kasta spjóti, spreyta sér á 60m hlaupi og langstökki. Mikill áhugi er á bátum í flokknum og eru margir veiðmenn í hópnum. Nokkrir fiskar hafa veiðst og talsvert verið nartað á hjá hinum þolinmóðari veiðmönnum flokksins. Knattspyrnan var vinsæl í gær að venju og voru spilaðir 6 leikir í Svínadalsdeildinni. Í íþróttahúsinu var þythokkímót og voru um 40 þátttakendur í mótinu. Þeir sem ekki vildu vera á bátum eða ærslast í öðru geta haft það náðugt í leikherbergi íþróttahúsins en þar er hægt að fá lánaðar bækur, skákborð, kúluspil, skriffæri og spil.
Í Vatnaskógi er keppt í öllu og meira segja er keppt í hegðun en á milli borða er svokölluð hegðunarkeppni. Foringjar hvers borðs gefa drengjum sínum stig fyrir eftirfarandi atriði: Svefn og vakningu, umgengni í svefnsölum, umgengni í matsal, almenna hegðun og hegðun á morgunstund og biblíulestri. Fyrir hvern lið er mest hægt að fá 1 stig og fullt hús stiga eru því 5 stig, stigagjöf fer fram í kvöldkaffi kl. 22. Í ævintýraflokkum eru aukaverðlaun fyrir góða hegðun, en það borð sem fær flest stig á kvöldi fær óvæntan glaðning í hádegismat næsta dags.
Í gærkvöldi var boðið uppá sérstakan viðburð, drengirnir voru svæfðir með hefbundum hætti, en 30 mínutum síðar vaktir aftur og kallaðir út úr skálum til þess að fara í miðnæturhermannaleik. Leikurinn stóð yfir til að verða 01.30 og þykir hafa tekist vel upp. Það var því ekki kominn svefnró á staðnum fyrr en klukkan 2.00. Í dag fengu drengirnir að sofa örlítið lengur eða til kl. 9.00. Veðurútlitið fyrir daginn er gott það er sól, hægur vindur og hlýtt.
Myndir frá deginum má finna hér: http://www.kfum.is/nc/myndir/?g2_itemId=112854