Mánudagurinn í Vindáshlíð var blíðviðrisdagur. Þema dagsins var Skinku & skvísudagur svo stelpurnar máttu klæða sig upp eins og þeim sýndist undir yfirskriftinni. Eftir biblíulestur morgunsins voru brennó- og íþróttakeppnirnar þar sem allt snýst um að verða íþróttadrottning eða íþróttaherbergi, nú eða brennómeistarar Vindáshlíðar. Eftir hádegi buðum við upp á tískusýningu. Þá fengu stelpurnar að velja sér módel herbergisins, eitt eða fleiri og hanna á þær kjól úr ruslapoka. Ótrúlega margar skemmtilegar hannanir og hugmyndir komu út úr sýningu stelpnanna og má sjá myndir af þeim
hér.
Í kvöldmatinn fengu stúlkurnar pulsupasta og svo var boðið upp á óhefðbundna kvöldvöku. Á kvöldvökunni höfðum við Harry Potter leik. Stelpunum var skipt upp í fjögur herbergi í Hogward skólans; Gryffindor, Ravenclav, Hufflepuff og Slytherin og þurftu innan herbergis síns að leysa ýmsar þrautir, hittu fyrir Harry Potter, Ron, Hermione og fleiri og koma nokkrum álagamunum í réttar hendur án þess að mæta illmennum Harry Potter bókanna á leiðinni. Foringjarnir voru í hlutverkum hinna ýmsu persóna og allir skemmtu sér hið mesta.
Biblíulestur kvöldsins fjallaði um bænina og hvernig Guð er alltaf til staðar fyrir okkur en bænasvörin geta verið mismunandi, eins og umferðarljós, stundum nei, stundum bíddu og stundum já. Um kvöldið afhentu stelpurnar okkur öll úr og klukkur því á þriðjudaginn er rugldagur, þá verður ekkert eins og vanalega, meira um það síðar. 🙂