Fimmti dagur vikunnar hefur verið alveg sérlega góður. Við ákváðum að hafa messudag í dag. Stúlkurnar völdu sér hóp til að undirbúa messuna og var vel unnið. Valið stóð um leiklistarhóp, sönghóp, bænahóp og skreytihóp. Eftir hádegi var síðan messan sem tók nokkuð langan tíma, enda margt skemmtilegt og frambærilegt í gangi. Þegar hér var komið sögu, var veðrið orðið alveg dásamlegt, sól og hlýtt, og við ákváðum að hafa frjálsan útitíma. Farið var í brennó, leikið á ýmiss konar stultum, sippað og margt fleira. Við blésum upp hoppukastala og það var heilmikið fjör.
Eftir kvöldmat var kvöldvakan og voru stúlkurnar í Fuglaveri með skemmtiatriðin. Síðan þegar stúlkurnar komu niður í matsal til þesss að fá kvöldávextina fyrir svefninn, beið þeirra uppsett kaffihús og var hrifningin mikil! Búið var að dekka upp borðin, setja kertaljós á hvert þeirra og stóð hlaðborð með alls kyns kræsingum í miðjum salnum. Það er margt sem gleður í lífinu.
Glaðar stúlkur ganga til náða í Ölverinu góða og gleðikveðjur dagsins koma héðan.
Áas Björk forstöðukona.