Í gær var margt um að vera, hápunktar dagsins voru gönguferðirnar sem í boði voru. Stelpurnar máttu velja milli þess að klífa Sandfell eða ganga upp að Pokafossi og Brúarslæðu og vaða þar. Göngugarparnir skemmtu sér vel þó veðrið léki ekki við okkur. Vindáshlíðarbíllinn átti líka 20 ára afmæli þennan dag og fékk afmælissöng og var að sjálfsögðu skreyttur með borðum. Í matinn var m.a. sænskar kjötbollur með kartöflumús, afmæliskökur í kaffinu og ávaxtasúrmjólk og brauð um kvöldið. Kvöldvakan, biblíulestrar og söngvar voru á sínum stað og gekk allt stórvel.
Í dag er veisludagur, lokadagur flokksins og þá er dagskráin hvað mest spennandi og skemmtileg. Fyrir hádegi er úrslitakeppnin í brennó og aðeins tvö herbergi sem slást um sigurinn. Eftir hádegi verður brennókeppni milli foringja og vinningsliðs flokksins. Á dagskrá eru líka hárgreiðslukeppni, veislukvöldverður, verðlaunaafhendingar fyrir snyrtipinnaherbergiskeppnir, íþróttir, brennó, hárgreiðslu og fleira. Svo verður hin æsispennandi kvöldvaka foringjanna einnig í kvöld svo nóg verður um að vera. 🙂