Veisludagurinn er liðinn og þar með síðasta kvöld stelpnanna hér í Kaldárseli að þessu sinni. Dagurinn byrjaði fremur rólega, þar sem það hefur verið rigning í allan dag ákváðum við að gera það besta úr því sem við höfum og hafa huggulegan dag hérna. Við höfum haldið okkur mest inni frá rigningunni og spilað og gert nælur, leikið og hoppað í hoppukastala. Morgunmaturinn var að sjálfsögðu snæddur og morgunstundin var á sínum stað. Við höfðum fyrirkomulagið á fánahyllingunni þannig að stelpurnar stóðu inn í matsal og sungu fánasönginn meðan óheppin foringi fór út í rokið og barðist við að skella fánanum upp á sinn stað. Svo var kennsla í vinabandagerð, innileikir, fótboltaspil og spilað á spil og svo margt fleira. Eftir hádegismat hættum við vanalega göngu og horfðum þess í stað á huggulega mynd undir sæng og með kodda upp í kvöldvökusal. Við komum fyrir dýnum á gólfinu og skyggðum gluggana og horfðum svo á Enchanted á stórum skjá. Svo vildi svo skemmtilega til að ráðskonan var akkúrat búin að poppa þessi reiðinnar býsn af poppi og því fengu stelpurnar að gæða sér á því. Í dag var að sjálfsögðu blásinn upp hoppukastali eins og er við hæfi á góðum dögum og í allan dag hafa stelpurnar hoppað og skoppað á þessu fyrirbæri og fá að því er virðist aldrei leið á því. Það er skemmtilegt að sjá hvað það þarf oft lítið til að gleðja lítil hjörtu. Sökum veðráttu blésum við hann bara upp inn í íþróttasal. Eftir kaffi var hoppukastalinn áfram opinn, en við buðum líka uppá barmmerkjagerð. Við búum nefnilega svo vel hér í Kaldárseli að eiga sérstaka vél til þess ætlaða og því atvinnumannsleg barmmerki sem stelpurnar klæðast nú. Þau eru að sjálfsögðu skreytt af stelpunum sjálfum og þau geta verið ansi skrautleg og skemmtileg. Í kvöldmatnum var boðið uppá pizzu og við skreyttum salinn eins og venjan er og stelpurnar skelltu sér í sparifötin og það var skemmtileg veislustemning í salnum þetta kvöld. Eftir kvöldmat var veislukvöldvakan. Bæði börn jafnt sem foringjar hlakka til þeirrar kvöldvöku því þar sjá foringjarnir um skemmtiatriðin. Það er oft erfitt að segja til um hverjir skemmta sér betur, stelpurnar eða eldra fólkið. Síðasta leikritið er svokallað ísleikrit sem endar á því að íspinnum rignir yfir stelpurnar og það er kvöldkaffið seinasta kvöldið. Meðan á ísáti stóð var lesin kvöldsaga. Svo voru allir drifnir niður að hátta og bursta tennur. Þetta er búinn að vera frábær dagur og allir skemmtu sér konunglega. Svo er auðvitað eftirvænting eftir morgundeginum því þótt að það sé gott að vera í Kaldárseli er alltaf ótrúlega gaman að komast aftur heim til mömmu og pabba.
Myndir frá deginum í dag koma inn á morgun með þeim myndum sem nást á seinasta degi á myndasíðu Kaldársels www.kfum.is
Við minnum foreldra á að engin rúta fer frá Kaldárseli niður í Lækjarskóla á morgun. Foreldrar þurfa að sækja börnin upp í Kaldársel á milli 4 og 5.
Kveðjur úr Kaldárseli!