Niðurstöður rannsókna erlendis frá sýna að þegar efnahagsþrengingar ganga yfir er aldurshópurinn 16-25 ára í hvað mestri hættu. Ef ekkert er að gert til að tryggja þátttöku þessa aldurshóps í samfélaginu er hætta á að þessi kynslóð týnist í framtíðinni. Einnig er hætt við að langvarandi atvinnuleysi og geðræn vandamál fari vaxandi meðal þessa hóps. Í því ljósi er afar mikilvægt að stjórnvöld grípi til aðgerða og setji málefni ungs fólks í forgang svo að koma megi í veg fyrir alvarlegar afleiðingar.
Að þessu tilefni efna Landssamband æskulýðsfélaga og Æskulýðsvettvangurinn til stefnumóts ungs fólks og stjórnmálamanna, mánudaginn 23. nóvember n.k. kl 16:00 – 18:00 í Gyllta sal Hótel Borgar. Á stefnumótinu munu þeir Þórólfur Þórlindsson prófessor við Háskóla Íslands og Hreiðar Már Árnason framkvæmdastjóri Sambands íslenskra framhaldsskólanema halda stutt erindi. Menntamálaráðherra ávarpar fundinn og tekur þátt í umræðum að erindum loknum.
Á stefnumótinu gefst ungu fólki tækifæri á að koma skoðunum og málefnum sínum á framfæri við Menntamálaráðherra og aðra stjórnmálamenn. Auk þess fá stjórnmálamenn tækifæri til að tjá sig um málefni ungs fólks. Til stefnumótsins er æskulýðsfélögum, Æskulýðsráði, ráðherrum, þingmönnum og öllu ungu fólki boðið, sem og öllum áhugasömum um málefni ungs fólks.
Nánari upplýsingar veita:
Sindri Snær Einarsson, varaformaður Landssambands æskulýðsfélaga í síma 847 3378
Hildur Tryggvadóttir Flóvenz, framkvæmdastjóri Landssambands æskulýðsfélaga í síma 863 8924.