Þá er komið að veisludegi hér í Vatnaskógi og í kvöld koma drengirnir heim. Rúturnar leggja af stað héðan úr Vatnaskógi kl. 20:00 og verða því komnar til Reykjavíkur á Holtaveg 28 um 21:00. Þeir foreldrar sem ætla að sækja drengina hingað í Vatnaskóg eru beðnir um að koma ekki seinna en 20:00. Það er ánægjuleg vika sem nú er á enda og við starfsfólkið Vatnaskógi þökkum drengjunum öllum fyrir ánægjulega samveru.
Í gær var hins vegar veðurblíða hér á staðnum og flestir úti við að leika sér. Meðal annars var sett upp þrautabraut, farið á báta, í gönguferðir, knattspyrnuforinginn var með fótboltaæfingu sem margir tóku þátt í og einnig var keppt í hástökki.
Um kvöldið öttu foringjarnir svo kappi við úrvalslið drengja í knattspyrnu og höfðu allir gaman af eins og venjulega. Skemmst er frá því að segja að foringjarnir höfðu betur, 4-1, að þessu sinni en oft stóð tæpt og áttu drengirnir nokkur dauðafæri.
Á kvöldvökunni fóru fram úrslit biblíuspurningakeppninar og fór 1. borð með sigur af hólmi. Drengirnir voru sofnaðir um 22:45.
Kveðja úr Vatnaskógi
Þráinn Haraldsson, forstöðumaður.