Hingað á þennan yndislega stað komu í dag 38 stúlkur sem sannarlega eru verðug vitni Guðs góðu sköpunar í öllum sínum fjölbreytileika. Þær tóku hraustlega til matar síns í hádeginu. Eftir matinn arkaði allur hópurinn upp að lóðarmörkum í hlíðinni og síðan var svæðið skoðað. Það er ljóst að hér eru hraustar og dugmiklar stúlkur á ferð og fjörið er mikið.
Eftir kaffi var leikið áfram og einnig hófst íþróttakeppnin margrómaða. Í dag var keppt í jötunfötu og sippi. Veðrið leikur við okkur og sólin er ekki alveg laus við þrjósku þegar hún brýtur sér leið í gegnum skýjaþykknið af og til, en lofthitinn er ákjósanlegur. Mikið var hlegið á kvöldvökunni eftir góða máltíð. Stúlkurnar eru ófeimnar við að taka þátt í öllum þeim leikjum sem upp á er boðið og söngurinn ómaði um allt svæðið. Þær hlustuðu af athygli á Biblíusögu kvöldsins og útleggingu.
Það voru þreyttar stúlkur sem loks fóru í rúmið eftir ávaxtabita, en spennan enn mikil og því átti ein og ein erfitt með að loka augunum. Ró komst á og hlakka ég mikið til annars dags með þessum fjöruga og jákvæða hópi.
Með kveðju úr Ölversparadís,
Ása Björk forstöðukona