Hæ hó jibbí jey og jibbí jey jey, það er kominn sautjándi júní.
Þetta hljómaði ósjaldan í dag frá mjög svo lífsglöðum drengjum. Mikið var stússað í dag í tilefni dagsins. Strax eftir hádegismat söfnuðumst við saman á hlaðinu. Þaðan gengum við fylgtu liði inn í Lindarrjóðrið og fjölmenntum við styttuna af Sr. Friðrik. Þar fórum við stuttlega yfir ástæðu 17. júní. Allir virtust nú samt vera með þetta á hreinu, þ.e. að þetta væri dagurinn sem við fengum sjálfstæði frá Danakonungi. Fjallkonan kom svo og flutti okkur ættjarðarljóð og voru drengirnir hreint út sagt dolfallnir.
Niður við vatnið var búið að útbúa einskonar jakahlaupabraut, nema að í stað ísjaka voru notaðar plastpallettur. Einnig buðum við þeim sem vildu, að láta draga sig á gúmmíbanana aftan í mótórbát. Þessi iðja er alltaf vinsæl og ég held að flest allir hafi tekið eina bunu.
Fyrir framan íþróttahúsið var svo búið að koma fyrir Vatnaskógarhreystis braut. Þar gátu drengirnir látið reyna á þol og styrk ásamt smá útsjónasemi. Erfitt að lýsa þessu í stuttu máli en myndirnar tala sínu máli. Þessi dagskrá entist alveg fram að kvöldmat, með kaffihléi þó.
Veðrið hélst nú ekki eins gott í allan dag. Það byrjaði að rigna um leið og hátíðarhöldin byrjuðu og það ringdi fram yfir kaffi. Hinsvegar var milt veður og algjört logn, þannig að við getum nú varla kvartað mikið. Það er hinsvegar ljóst að flestir hér á svæðinu blotnuðu vel í dag. Var það nú samt mest þrautabrautinni og vatnasportinu að kenna.
Strákunum finnst alveg ótrúlega gaman að busla og leika sér í vatninu og setja það lítið fyrir sér þó að hitastigið sé nú ekki verulega hátt.
Eftir kvöldmat buðum við þeim sem vildu að fara í heitu pottanana. Það voru einungis 3 sem þáðu boðið sem segir sitt hversu margir voru búnir að fá nóg af vatni í dag.
Kvöldvakan var með nokkuð hefðbundnu sniði. Heldur meira fjör ef eitthvað var.
Í lok dagsins fengu þeir svo ávexti og í blálokinn ís í tilefni dagsins.
Ró var komin á upp úr kl. 23:00
Búið er að setja inn fleiri myndir frá því í dag
Kveð að sinni,
Árni Geir