Gauraflokkur dagur 3.
Dagurinn í gær var stór fínn í alla staði. Veðrið lék við okkur sól og logn. Helst voru það mýflugurnar sem í miljónatali reyndu að éta upp drengjaskarann. Var því reddað með flugnanetum og flugnafælum. Ætla má þó að ófáar flugur hafi legðið í valnum að loknum degi.
Af dagskráliðum dagsins má nefna biblíustund, smíðaverkstæði, listasmiðju, báta gusl, veiðimennsku, fótbolta, billjard, Gaurahreysti, heita potta sull og kvöldvöku. Óhætt er að segja að útivera hafi verið ráðandi í dag. Voru því flestir vel dasaðir undir lok dags vegna súrefniseitrunar og mikillrar snertingu við sólarljós.
Sem heild er hópurinn í ár mjög vel saman settur. Jafnvægi er á meðal strákanna og náum við að koma vel til móts við þá þar sem skóinn kreppir. Drengirnir eru glaðir og njóta sín í að gaurast hér á milli dagskrátilboða og starfsfólkið grípur þá ef þeir fara út af sporinu og leiðbeinir þeim í rétta átt. Það er virkilega gaman og gefandi að sjá alla styrkleikana í drengjunum og sjá þá njóta sín hér við hin ýmsu verk. Þar sem flokkurinn er rúmlega hálfnaður eru drengirnir orðnir öruggir á staðnum. Þeir eru kunnugir öllum dagskrátilboðum og átta sig á þeim kröfum sem gerðar eru til þeirra hér. Það er greininlegt að mikill samstarfsvilji er hjá drengjunum og eru þeir ákveðnir í að standa sig vel og njóta dvalarinnar.
Gott er að minna á að það eru tvær nætur eftir. En von er á drengjunum til Reykjavíkur um klukkan 16:30 á sunnudaginn. Von er á nýjum myndum úr flokknum í kvöld.