Fyrr í vikunni var birt frétt, eða viðtal, sem tekið var við Jóhann Þorsteinsson, svæðisfulltrúa KFUM og KFUK á Norðurlandi um starfsemina á Hólavatni. Af mörgu er að taka enda framkvæmdir í fullum gangi og aðeins nokkrar vikur í fyrsta flokk sumarsins. Skráning hefur verið mjög góð og eru tveir flokkar af sjö fullbókaðir og góð þátttaka í hinum flokkunum þótt en sé hægt að bæta fleirum við.
Rétt er að vekja athygli á fyrsta flokk sumarsins sem ber nafnið Frumkvöðlaflokkur því hann er fyrir 7-8 ára börn sem vilja prófa sumarbúðir í fyrsta sinn og gista í tvær nætur. Þessi flokkur er ekki bara styttri en aðrir flokkar heldur verða jafnframt tveir leikskólakennarar sem bætast í hóp starfsmanna fyrir þennan flokk sérstaklega svo hægt sé að sinna þessum yngri börnum en betur en ella.
Þá hefur tekist að fá frábæra viðbót inn í ævintýraflokk sumarsins sem er dagana 20.-26. júlí og er fyrir 11-13 ára stráka og stelpur. Í þann flokk mun Jónsi úr hljómsveitinni Í Svörtum fötum koma í heimsókn og leiðbeina þátttakendum í söngvakeppni og sitja í dómnefnd um kvöldið, auk þess sem hann mun án efa taka lagið með krökkunum. Í ævintýraflokk fara krakkarnir líka í sólarhringsútilegu og taka þátt í æsispennandi dagskrá allan tímann.