Það eru margir búnir að bíða eftir ferðasögu frá okkur sem fórum til Úkraínu í byrjun árs. Úr því að biðin varð svona löng ákvað ég að setja eina almennilega ferðasögu hérna inn og hér kemur hún…
Eftir að hafa dvalið í Kiev í tvo daga í þeim tilgangi að fagna áramótunum og skoða borgina héldum við af stað til föður Yevheniy. Faðir Yevheniy er formaður KFUM í heimaborg sinni Kirovograd en þar búa um 300.000 manns og hefur hann verið okkar helsta hjálp í því að dreifa skókössunum. Yevheniy er prestur í litlu þorpi fyrir utan borgina sem heitir Supersee og þar er prestbústaðurinn hans en þar gistum við á meðan á dreifingu skókassanna stóð.
Strax morguninn eftir að við komum hófumst við handa við að dreifa skókössunum. Fyrsti áfangastaður var munaðarleysingjaheimili sem flest okkar höfðu heimsótt áður. Börnin á þessu munaðarleysingjaheimili eru mörg hver tekin af götunni eða frá heimilum sínum þar sem ástandið er það slæmt að foreldrarnir geta ekki séð um þau. Á þessu heimili dvelja þau aðeins í þrjá mánuði í senn, að dvölinni lokinni fara þau aftur heim til sín ef aðstæður leyfa, sum fara á önnur munaðarleysingjaheimili til frambúðar en önnur lenda aftur á götunni. Þegar við komum voru börnin klædd í búninga enda búin að setja á svið sýningu fyrir gestina frá Íslandi. Að sýningunni lokinni fengum við að gefa þeim gjafirnar í skókössunum. Það var gaman að heimsækja þetta heimili aftur þar sem við sáum miklar breytingar á aðstæðum barnanna. Það var búið að mála, kaupa fleiri húsgögn og meira að segja leikföng og því greinilegt að forstöðumaður heimilisins rekur það vel. Ég var ekki ein um að sjá að forstöðumaðurinn var í sömu fötunum í ár og síðasta ár þegar við komum í heimsókn. Það þótti mér athyglisvert og hugsaði með mér hvort hann ætti ekki fleiri föt til skiptanna eða hvort þetta væru sparifötin hans sem hann klæddist aðeins við hátíðleg tækifæri líkt og þetta. Heimsóknin var líka ánægjuleg að öðru leyti því síðasta ár höfðum við styrkt heimilið með því að gefa nýjar dýnur í nokkur rúm og sýndi forstöðumaðurinn okkur þær mjög ánægður á svip. Í þetta skiptið var ákveðið að styrkja heimilið með því að kaupa inniskó á börnin og ný rúmföt.
Eftir að hafa heimsótt munaðarleysingjaheimilið fórum við í stórmarkað og keyptum ársbirgðir af þvottaefni og hinum ýmsustu hreinsiefnum. Eftir að hafa fyllt margar kerrur af sápu, klósetthreinsi, gólfsápu og fleiru áhugaverðu héldum við af stað á spítala nánar tiltekið á deild fyrir börn með tauga- og geðsjúkdóma. Við heimsóttum þessa deild líka í fyrra og þá gáfum við þeim þvottavélar og annað eins af hreinsiefnum. Við fórum sérstaklega og athuguðum hvort þvottavélarnar væru ekki á sínum stað og vorum ánægð með að sjá að þær voru það. Starfsfólk spítalans sagði þvottavélarnar virka mjög vel og að þær væru mikið notaðar. Við gáfum börnunum á deildinni ekki skókassa þar sem reglur spítalans leyfðu okkur það ekki. Hins vegar fengum við leyfi til þess að gefa þeim ávexti en þá höfðum við einmitt líka keypt í stórmarkaðnum.
Seinna sama dag hittum við skátahóp en faðir Yevheniy sér einnig um skátastarf í Kirovograd. Hópurinn samanstóð af um 20 unglingum og einn þeirra spilaði fyrir okkur á saxófón og var mjög flinkur að spila. Við gáfum þeim einnig skókassa og var ánægja unglinganna ekkert minni en yngri barnanna.
Daginn eftir fórum við á heimili fyrir börn sem eru andlega fötluð. Þau héldu sýningu fyrir okkur og hlustuðum við á þau syngja, dansa og flytja ljóð. Krakkarnir þar voru mjög spenntir yfir heimsókninni og áttu mörg hver erfitt með að einbeita sér að því að syngja eða dansa því athygli þeirra var að mestu leyti á okkur gestunum. En eftir að við fengum að dreifa skókössum til þeirra var hugurinn fljótur að hverfa frá okkur. Það sem var ánægjulegast við að sjá þessa krakka opna gjafirnar sínar var gleðin sem skein frá þeim yfir hverjum einasta hlut í skókassanum. Einn strákanna ætlaði varla að hætta að sýna okkur tannburstann sem hann fékk og annar þeirra opnaði strax tannkremið sitt, setti tannkrem á fingurinn og stakk honum svo upp í sig. Það er greinilegt að tannkrem og tannbursti eru algjör munaðarvara í Úkraínu. Forstöðukona þessa heimilis sagði okkur að þrátt fyrir fötlun barnanna þá ættu þau auðvelt með að læra að syngja og spila. Því sagði hún að ef við gætum hjálpað þeim eitthvað myndi vera gaman að fá hljóðfæri fyrir krakkana. Við ákváðum að verða við þeirri bón og fórum eftir heimsóknina og keyptum blokkflautur, stafi, hristur, munnhörpur og fleiri hljóðfæri handa þeim.
Næst á dagskrá var heimsókn á heimili fyrir andlega og líkamlega fötluð börn. Forstöðukona heimilisins þar sýndi okkur allt heimilið og var sú skoðunarferð mjög átakanleg. Heimilið er mjög stórt og mörg barnanna mikið fötluð og veikindi margra þeirra talin vera vegna Tjernobylslyssins. Sem dæmi um aðstæður barnanna þá er engin lyfta í húsinu þrátt fyrir að það sé á tveimur hæðum og margir í hjólastól. Það er þó engin hindrun fyrir starfsfólkið og ber það börnin í hjólastólunum á milli hæða. Forstöðukonan sagði okkur að bandarísk góðagerðarsamtök myndu styrkja þetta heimili meðal annars með kaupum á bleium og ýmsum öðrum hjúkrunarvörum. Hún sagði líka að án þessa styrks væri ekki hægt sinna börnunum eins vel og gert er í dag. Það var erfitt að ganga frá einu herbergis til annars og sjá börnin liggja í rúmunum sínum. Mörg þeirra skorti getu til þess að tala og því horfðu þau á okkur spurnaraugum. Á þessu heimili fengum við að vera viðstödd jólaskemmtun og komu margar skrítnar persónur fram á þeirri skemmtun svo sem jólasveinn, snjókarl, refur og fleiri. Við skyldum ekkert sem fór fram en skemmtum okkur hins vegar mjög vel sérstaklega í lokin þegar okkur var boðið að dansa með krökkunum en þá var að sjálfsögðu dansaður fugladansinn. Eftir skemmtunina fengum við að gefa krökkunum skókassa og sú upplifun var alveg mögnuð. Eins og ég sagði áðan gátu ekki allir krakkarnir talað vegna fötlunar sinnar en eftirvæntingin eftir gjöfunum leyndi sér ekki. Börnin klöppuðu saman höndunum, skríktu og hlógu alveg þangað til að hvert og eitt þeirra hafði fengið gjöf í sínar hendur. Á þessari stundu var mér hugsað til allrar vinnunnar við verkefnið og tímann sem við eyddum í það um haustið og ég gerði mér grein fyrir því að ég sá svo sannarlega ekki eftir því að hafa staðið í þessu öllu saman. Þessi heimsókn var hverrar mínútu virði.
Síðasta daginn hittum við börn einstæðra foreldra. Þau hittu okkur í safnaðarheimili kirkjunnar hans Yevheniy og til að komast þangað þurftu þau að fara í stutta rútuferð. Okkur var sagt að þau hefðu verið mjög spennt í rútunni og ekki vitað hvernig þau áttu að haga sér. Þessi börn héldu sýningu fyrir okkur líkt og á hinum stöðunum. Þau sungu, dönsuðu, fóru með ljóð og að lokum gáfu þau okkur gjafir sem þau höfðu útbúið í skólanum. Eftir dagskrána fengum við að gefa þeim skókassa. Stemningin þarna var öðruvísi en á hinum stöðunum þar sem foreldrar barnanna voru með þeim en ég sá að þeir glöddust ekkert minna en börnin yfir gjöfunum. Eftir að börnin höfðu skoðað gjafirnar sínar fram og aftur lánaði ég þeim myndavélina mína og varð fyrir vikið vinsælasta manneskjan á staðnum.
Eftir hádegi þennan sama dag fórum við á jólaskemmtun í grunnskóla í Kirovograd. Það fyrsta sem blasti við okkur var veggspjald sem krakkarnir höfðu útbúið en á því stóð KFUM – KFUK Iceland. Það var margt um að vera á jólaskemmtuninni en skemmtilegast þótti okkur þegar ein stelpa las ljóð sem hún hafði samið um Ísland. Ljóðið var að sjálfsögðu á úkraínsku svo við skyldum ekki neitt en við fengum ljóðið með okkur heim og faðir Yevheniy þýddi það yfir á ensku fyrir okkur eftir bestu getu. Þegar skemmtuninni lauk fengum við að dreifa skókössum til barnanna. Það sem mér fannst skemmtilegast var að börnin voru að reyna að vera mjög stillt en þau áttu í miklum erfiðleikum með það vegna þess hve spennt þau voru vegna gjafanna.
Það var erfitt að lýsa þessu ævintýri í orðum. Þegar ég skoða myndirnar og rifja upp ferðina slær hjartað aðeins hraðar og ég finn fyrir mikilli gleði og þakklæti. Þakklæti vegna þess að ég fékk að taka þátt í þessu ævintýri, fékk að vera þátttakandi í því að gleðja börnin og það sem meira er…fá að sjá gleðina í augunum þeirra. Guð blessi börnin í Úkraínu og Guð blessi ykkur sem tókuð þátt í verkefninu! Án ykkar hefði þetta ævintýri aldrei orðið að veruleika.