Markmið

Að börnin viti að þau séu öll mikilvæg og hafi mismunandi hæfileika. Öll skiptum við jafn miklu máli í augum Guðs.

Biblíuvers

Við erum smíð Guðs, sköpuð í Kristi Jesú til góðra verka sem hann hefur áður fyrirbúið til þess að við skyldum leggja stund á þau. (Efesus 2:10)

Belti smiðsins

– höfundur óþekktur, þýðing: Hjördís Rós

Herra Hamar var formaður verkfærabeltisins. Hinir meðlimir beltisins tilkynntu honum að hann yrði að yfirgefa beltið því hann væri of hávær. En herra Hamar sagði: „Ef ég þarf að fara héðan, þá ætti nú herra Blýantur að fara líka. Hann er ekki merkilegur og gerir lítið gagn, skilur eftir sig strik hvert sem hann fer.“

Ungi herra Blýantur stóð upp og sagði: „Allt í lagi, en herra Skrúfjárn þarf þá líka að fara. Það þarf að snúa honum hring eftir hring til að komast eitthvað áfram með hann.“

Herra Skrúfjárn sneri sér að hinum verkfærum beltisins og sagði: „Ef þið óskið þess þá skal ég fara en þá verður herra Hefill að fara líka. Hann vinnur bara á yfirborðinu; það er engin dýpt í því sem hann gerir.“

Þessu svaraði herra Hefill með eftirfarandi orðum: „Sko, þá þarf herra Sög líka að fara því hann endar alltaf á því að saga of mikið.“

Herra Sög svaraði með kvörtunartóni: „Herra Málband þarf að draga sig í hlé ef ég fer. Hann er alltaf að mæla út annað fólk eins og hann sé sá eini sem hefur rétt fyrir sér.“

Herra Málband ávarpaði hópinn: „En herra Sandpappír á ekki heima hérna. Hann er allt of grófur og skilur alla eftir í sárum sem koma nálægt honum.“

Meðan þessar umræður áttu sér stað gekk ungur smiður frá Nasaret inn. Hann var kominn til að sinna verkefni dagsins. Hann setti verkfærabeltið á sig og gekk að vinnubekknum sínum til að búa til predikunarstól. Hann notaði málbandið, sögina, hefilinn, hamarinn, blýantinn, skrúfjárnið, sandpappírinn og öll hin verkfærin. Í lok vinnudagsins var predikunarstóllinn tilbúinn og smiðurinn hélt heimleiðis. Allar ásakanirnar sem verkfærin höfðu á hendur hvers annars voru réttar en samt sem áður tókst smiðnum að nota öll verkfærin. Sama hvaða verkfæri hann notaði þá hefði ekkert annað þeirra geta skilað betra verki.

Bæn

Bænin má aldrei bresta þig

Samantekt og umræður

Við erum öll verkfæri Guðs hér á jörðu. Öll höfum við fengið hæfileika, ekki endilega sömu hæfileika og náungi okkar en það væri nú heldur ekki gaman ef við værum öll eins. Þá gætum við heldur ekki framkvæmt allt það sem þyrfti að koma í verk. Guð vill að við lifum og störfum í sameiningu og ræktum þá hæfileika sem okkur voru gefnir. Einnig eigum við að vera þakklát fyrir þá hæfileika sem aðrir hafa, því í sameiningu getum við áorkað svo miklu.

Einnig er hægt að tala um einelti/stríðni út frá þessari sögu. Við eigum ekki að dæma aðra.

 

Aukaefni

Stund í snatri – nr. 66: Þvílíkt úrval

Biblíutilvitnun: 1. Kor 12:5-6, 27-30; 1. Pét 4:10
Markmið: Hver hefur sitt hlutverk innan kirkjunnar
Það sem þarf: Úrval eldhúsáhalda (nokkur óvenjuleg)

Farðu í gegnum eldhúsáhöldin þín og athugaðu hvort börnin þekki hlutverk hvers og eins. Öll áhöldin eru fyrir mismunandi verkefni, en samt eru þetta allt áhöld til að nota í eldhúsi. Við mennirnir viljum hafa réttu áhöldin fyrir hvert verk. Guð vill það líka. Hann skapaði hvert og eitt okkar með mismunandi hlutverk í huga, en með eitt að meginmarkmiði, að þjóna honum. Leggið áherslu á þetta með því að gefa dæmi úr ritningartextanum að ofan eða með því að lýsa fólki með mismunandi hlutverk. (Kristniboðum, læknum, prestum o.s.frv.)