Markmið

  • Að börnin átti sig á því að við erum öll jöfn fyrir Guði. Við erum sköpuð nákvæmlega eins og Guð vill hafa okkur og sköpun hans er fullkomin.
  • Að börnin átti sig á því því að það er ekki okkar að dæma náunga okkar, við getum aldrei sett okkur fyllilega í spor annarra. Guð einn getur vitað hvað við erum að ganga í gegnum og hvers vegna við hegðum okkur eins og við gerum. Jesús vill að við breytum rétt í lífi okkar og það gerum við þegar við höfum kynnst honum.

Biblíuvers

Því að Mannssonurinn er kominn að leita að hinu týnda og frelsa það. (Lúk. 19:10)

Sakkeus

– Lúk. 19:1-10

Þegar Jesús fór um voru margir sem eltu hann og voru forvitnir um hvað hann var að gera. Sumir voru vinir hans og hjálpuðu honum. Aðrir voru bara forvitnir og vildu fá lækningu og hjálp Jesú af því að þeir vissu að hann hefði gert mörg kraftaverk. Enn aðrir voru óvinir Jesú, farísearnir, sem voru að fylgjast með öllu sem hann gerði til að geta kært hann.

Dag einn fór Jesús til Jeríkó (sem er gömul borg í eyðimörk). Þar var margt fólk sem fylgdi Jesú. Þar bjó einnig maður að nafni Sakkeus. Sakkeus var ekki vinsæll maður – eiginlega var hann mjög óvinsæll. Hann var tollheimtumaður og allir sem komu inn í borgina þurftu að greiða honum toll. Sakkeus var ekki heiðarlegur. Hann tók meiri pening af fólki en það átti að borga og varð þannig mjög ríkur sjálfur. Hann var gráðugur maður og átti ekki marga vini.

Sakkeus hafði heyrt um Jesú og var forvitinn að sjá hann og vita hvort eitthvað merkilegt gerðist þar sem Jesús var. En Sakkeus var lágvaxinn og sá því ekki almennilega fyrir öllu fólkinu sem var þar að fylgjast með Jesú. Og ekki var fólkið viljugt að aðstoða hann við að sjá. Hann brá þá á það ráð að klifra upp í tré til að hafa betra útsýni og geta fylgst með. Jesús sá Sakkeus uppi í trénu og öllum að óvörum gekk Jesús að trénu og fór að tala við Sakkeus og sagðist vilja koma heim til hans. Jesús var ekkert að hugsa um að Sakkeus væri óvinsæll og óheiðarlegur. Jesús vissi að Sakkeus var góð og falleg sköpun Guðs og þótti vænt um hann eins og hann var.

Samantekt og umræður

Við skulum ímynda okkur hvernig Sakkeusi hefur orðið við þegar Jesús talaði við hann í trénu og sagðist vilja koma heim til hans. Hvernig hefði okkur liðið ef við hefðum svikið fólk, stolið, logið og vissum upp á okkur sökina – og allt í einu stæði Jesús fyrir framan okkur og horfði í augu okkar? Sakkeus varð glaður að Jesús vildi heimsækja hann.

Þegar hann hafði kynnst Jesú fann hann að hann hafði gert margt rangt og hann iðraðist þess. Hann langaði líka til að bæta fyrir það. Hann ákvað að borga til baka allt sem hann hafði stolið – ferfalt, og helming alls sem hann átti vildi hann gefa fátækum. Jesús varð mjög glaður og blessaði Sakkeus.

Góðu fréttirnar fyrir okkur eru þær að Jesús þekkir okkur líka með nafni og hann vill koma til okkar. Þegar Jesús kemur lýsir hann upp líf okkar og þá sést kannski eitthvað óhreint sem við viljum ekki að hann sjái. Kannski höfum við verið ósanngjörn við systkini okkar, tekið eitthvað sem við máttum ekki eða verið gráðug og frek. Gerum þá eins og Sakkeus, bjóðum Jesú inn.

Þegar við finnum kærleika Jesú og kynnumst honum, langar okkur ekki að gera þá hluti sem særa hann. Þá viljum við ekki vera frek, gráðug og ósanngjörn og viljum bæta fyrir það slæma sem við höfum gert. Það er stundum erfitt, en það veitir okkur mikla blessun og gleði. Jesús hafði líka kennt Sakkeusi að allar manneskjur eru dýrmætar og við eigum að koma fram við þær af virðingu og kærleika.

Bæn

Vertu Guð faðir