Markmið

  • Að börnin átti sig á því að ef við erum tilbúin að gefa Guði það sem við eigum getur hann margfaldað það, hann getur gert svo mikið úr því sem við eigum.
  • Jesús á nóg handa okkur öllum og hann þráir að við nýtum það sem hann gaf okkar, alla þá hæfileika og dýrmætu gjafir.

Biblíuvers

Ég er brauð lífsins. Þann mun ekki hungra sem til mín kemur og þann aldrei þyrsta sem á mig trúir. (Jóh. 6:35)

Jesús mettar

– Jóh. 6:1-15

Jesús ferðaðist víða til að kenna fólki. Eitt sinn var hann á ferð með lærisveinum sínum. Þeir sigldu yfir Galíleuvatn eða Tíberíasvatn. Hann fór með þeim upp á fjall. Líklega vildi hann fá næði með lærisveinum sínum en mikill fjöldi fólks elti þá samt. Fólkið hafði séð Jesú gera tákn og vildi því fylgjast með honum. Það vildi ekki missa af því sem gerðist næst. En nú var farið að kvölda og allir voru orðnir svangir. Vinir Jesú sögðu honum að senda fólkið í burtu svo það gæti keypt sér mat en hann neitaði því. Hann sagði: „Við verðum að gefa fólkinu að borða, hvað hafið þið mikið brauð?“ Andrés bróðir Péturs svaraði: ,,Hér er drengur með fimm brauð og tvo smáfiska, en það dugar ekki til“. Segið fólkinu að setjast í grasið svaraði Jesús. Þetta voru að minnsta kosti 5000 manns. Þá tók Jesús brauð og fiska drengsins og þakkaði Guði og braut það niður í smá mola og vinir hans báru þetta út til fólksins. Þeim til mikillar furðu varð nógur matur fyrir alla. Það sem var afgangs fyllti 12 körfur. Þegar fólkið varð vitni að þessu ótrúlega kraftaverki þá var það sannfært um að hér væri kominn frelsarinn sem beðið væri eftir.

Samantekt og umræður

Jesús á nóg handa öllum. Jesús gefur öllum ríkulega sem leita til hans. Í sögunni var ungur piltur með fimm brauð og tvo fiska. Jesús tók nestið hans, litla gjöf sem var þó allt sem hann átti, og gerði eitthvað stórfenglegt úr því.

Daginn eftir talaði Jesús um annars konar brauð: Ég er brauð lífsins, sagði hann. Komið til mín og ég mun gefa ykkur allt sem þið þurfið til nýja lífsins í Guðs ríki.
Hér væri einnig hægt að ræða um hæfileika, fá krakkana til að tala um hvað eru hæfileikar. Það er ekki bara hæfileiki að vera bestur í íþróttum eða að vera fyrstur í einhverju.

Bæn

Vertu Guð faðir

 

Aukaefni

Við Guð erum vinir – Fyrir yngri börnin

Hægt er að segja söguna eins og mamma Júlíu gerði í bókinni Við Guð erum vinir eftir Kari Vinje og nota til þess baunir eins og gert er í sögunni. Oft þarf ekki mikið til að fanga athygli barnanna, nóg gæti verið að vera með eitthvað aðeins öðruvísi en venjulega. Einnig gætuð þið lesið söguna og endursagt með ykkar eigin orðum, það er yfirleitt áhrifaríkari leið en beinn upplestur.

(Bókina og baunirnar er hægt að nálgast á Holtavegi 28.)

 

Hvaða eiginleika er best að hafa? – Fyrir eldri

Fyrir nokkru síðan kom ég í einn 6. bekk. Kennarinn hafði beðið mig um að segja eitthvað um sjálfstraust. Þetta voru krakkar sem voru á mörkum þess að vera unglingar og kennarinn vildi að við töluðum um hvaða augum maður á að líta sjálfan sig og hvaða eiginleikar eru manneskjunni mikilvægir.

Ég byrjaði á því að biðja tvo af nemendunum að koma upp að töflunni. Þeir áttu að vera ritarar og skrifa upp allt sem bekkjarfélagar þeirra sögðu. Þar á eftir fengu nemendurnir færi á að koma á framfæri þeim eiginleikum sem þeir vildu gjarnan hafa og þeir teldu að myndu gefa þeim aukið sjálfstraust. Næstum samstundis hrópaði drengur: Vera góður í fótbolta. Annar sagði íshokkí og þannig byrjaði það: hestar, hokkí, mótorcross, spretthlaup. Eftir smá stund höfðu þau nefnt flestar þær íþróttagreinar sem fyrirfinnast í veröldinni.

Við héldum áfram. Einn vildi vera góður í tölvum, stærðfræði og tungumálum, öðrum fannst mikilvægt að hafa hreint í herberginu sínu eða að kunna að gera við vélar. Ein stúlka sagðist vilja vera dugleg að skrifa, einn strákur vildi hafa gott peningavit, annar að taka myndir. Lítill strákur vildi vera sterkur og annar vildi geta sagt sögur sem fengju alla til að hlæja. Að lokum var öll taflan útkrotuð. Þá leyfði ég riturunum að lesa þetta allt í gegn, sem hinir höfðu stungið upp á. Þeir tóku sér góðan tíma og á meðan þeir lásu fannst okkur sem við yrðum minni og minni. Hver í veröldinni gæti verið góður í öllu þessu sem nemendurnir höfðu sagt?

Þess vegna bað ég nemendurna að stilla sér upp í langa röð. Nú fáið þið að stroka út af töflunni. Þegar röðin kemur að þér, ferðu upp að töflunni og strikar yfir einn eiginleika, þann eiginleika sem þér finnst skipta minnstu máli að hafa. Sá fyrsti sem kom var stúlka. Hún hugsaði sig um í nokkrar sekúndur og strikaði svo yfir íshokkí. Allar stelpurnar klöppuðu. Næstur var strákur. Hann fór upp og strikaði yfir hesta. Þá var komið að strákunum að fagna. Svona hélt þetta áfram dágóða stund. Strákarnir strikuðu yfir áhugamál stúlknanna og stúlkurnar strikuðu yfir þeirra áhugamál. En svo róuðust krakkarnir niður og andrúmsloftið varð þrungið alvöru. Strikað var yfir peningavit, gott skipulag og góða frásagnarhæfileika. Myndataka hvarf og eins vélar og tölvur.

Eftir nokkra stund fór einn strákur upp að töflunni. Hann las hægt yfir það sem eftir var. Það var næstum ómögulegt að strika eitthvað út núna. Samt sem áður neyddist hann til að gera það. Að lokum strikaði hann yfir stóra vöðva. Þá var komið að lítilli stúlku. Hún stóð þarna einnig í nokkra stund og lagði höfuðið í bleyti áður en hún strikaði yfir orðið sæt.

Að lokum voru aðeins fjórir eiginleikar eftir á töflunni sem töldust greinilega til þeirra mikilvægustu í lífinu. Það voru greind, vinsemd, gleði og eiginleikinn til að gleðja aðra. Það var aðeins einn nemandi eftir í röðinni núna. Ég rétti henni þurrkuna. Hún stóð þarna í nokkrar sekúndur og hugsaði sig um. Svo strikaði hún ákveðið yfir það sem henni fannst skipta minnstu máli. Hún strikaði yfir greind, ekki vegna þess að hún væri ónauðsynleg, heldur vegna þess að hitt var mikilvægara.

Við stóðum og horfðum á þessa þrjá eiginleika sem eftir voru á töflunni. Á vissan hátt vorum við öll svolítið skelkuð. Það var ekki neitt merkilegt sem stóð þarna því það þarf nú enga sérstaka hæfileika til að vera vingjarnlegur eða glaður og góður við aðra. Samt sem áður var það einmitt þetta sem allur bekkurinn hafði beðið með að strika yfir. Að vissu leyti mátti skilja þetta sem svo að það að hafa gott sjálfstraust er ekki bara fyrir þá sem standa framarlega á einhverju ákveðnu sviðið, eins í íþróttum , heldur eitthvað sem allir gátu haft.

Tenging sögunnar við textann sem er til umfjöllunar:
Jesús segir að allt sem við gerum öðrum, séum við um leið að gera honum, (sbr. Matt. 25:40. Allt sem þið gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þið gert mér). Það sem ég get fært Jesú – gjöfin í körfunni minni, getur einmitt verið það sem krakkarnir komust að, að vera mikilvægur þáttur í fari þess sem hefði gott sjálfstraust – að vera vinsamlegur og koma vel fram við aðra.

Sagan er úr hugleiðingabók eftir sænska skólaprestinn Torgny Wirén, Under overfladen, gefin út í danskri þýðingu árið 2000. Í bókinni fléttar hann saman eigin reynslu sem starfandi prestur með ungu fólki og sögum sem sumar eru vel þekktar. Söguna þýddi Helga Kolbeinsdóttir.