Markmið

Að börnin átti sig á því að við upplifum Guð á mismunandi hátt. Til þess að skilja hvernig Guð er þurfum við að lesa Biblíuna vandlega og reyna að skilja samhengið. Það er líka gott að tala við Guð í gegnum bænina og kynnast honum þannig og um leið að gera hann að þátttakanda í lífi okkar.

Biblíuvers

Jesús segir: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins nema fyrir mig. (Jóh. 14:6)

Blindu mennirnir og fíllinn

– Þýðing: Auður Pálsdóttir

Nú fáum við að heyra dæmisögu sem segir frá fólki í fornu þorpi þar sem allir íbúarnir voru blindir.

Dag nokkurn þegar sex menn úr þorpinu voru á gangi á veginum mættu þeir manni sem kom ríðandi á fíl. Mennirnir sex höfðu heyrt um fíla en aldrei komið nálægt þeim og spurðu því reiðmanninn hvort þeir mættu nú ekki snerta þessa stóru skepnu. Þá langaði síðan að fara aftur heim til þorpsins og segja hinum þorpsbúunum hvernig fílar líta út.

Reiðmaður fílsins leyfði þeim það fúslega og leiddi þá hvern og einn að ólíkum hlutum fílsins. Blindu mennirnir snertu og struku fílinn þar til þeir voru vissir um hvernig dýrið liti út.

Mennirnir snéru svo heim til þorpsins með eftirvæntingu og sögðu frá reynslu sinni. Þorpsbúar söfnuðust saman til að heyra um fílinn.

Fyrsti maðurinn, sem hafði komið við hlið fílsins sagði ábúðarfullur: „Fíll er eins og stór og þykkur veggur.“

„Hvaða vitleysa er þetta“ sagði annar maðurinn sem hafði þreifað á tönn fílsins. „Hann er frekar stuttur, hringlaga og sléttur, en nokkuð beittur. Ég myndi ekki líkja fíl við vegg heldur spjót.“

Þriðji maðurinn sem hafði snert eyrað mótmælti með móðgunartón. „Fíll er ekkert líkur vegg eða spjóti“ sagði hann.

„Hann er eins og risastórt laufblað gert úr mjúku ullarteppi og hreyfist ef þú snertir það.“

„Ég er algerlega ósammála“ sagði fjórði maðurinn, en hann hafði snert ranann. „Ég get sagt ykkur það að fíll er eins og gríðarstór snákur.“

Fimmti maðurinn sem hafði snert einn af fótum fílsins hrópaði nú í mótmælaskini: „Fíll er hringlaga, nokkuð þykkur og sver eins tré.“

Sjötta manninum hafði verið leyft að sitja á fílnum og andmælti nú hinum. „Getur enginn ykkar lýst fíl almennilega? Það er alveg ljóst að hann eins og gríðarstórt fjall á hreyfingu!“

Allt fram á þennan dag hafa mennirnir haldið áfram að þrátta án þess að þorpsbúarnir séu nokkru nær um það hvernig fíll lítur út í raun og veru.

Samantekt og umræður

Það er margt hægt að læra af þessari dæmisögu og meðal annars það að ef við viljum læra að þekkja eitthvað, er mikilvægt að afla upplýsinga út frá fleiru en einu sjónarhorni. Eins er ef við viljum kynnast einhverjum þá skiptir öllu máli að eiga samskipti við hann, tala við hann og hlusta á hvað hann hefur að segja.

Biblían lýsir Guði á marga ólíka vegu því fólk upplifir Guð á svo margvíslegan hátt.

Til þess að skilja hvernig Guð er þurfum við að lesa Biblíuna vandlega og reyna að skilja samhengið.

Ef við skoðum bara eina hlið Guðs og kynnumst aðeins einum hluta hans, og þar með bara einni hlið sannleikans, þá eigum við erfiðara með að átta okkur á heildarmyndinni og sjáum þá Guð ekki í réttu samhengi.

Til þess að átta okkur á því hver Guð raunverulega er þurfum við að kynnast honum. Það getum við gert á þrennan hátt.

  • Í gegnum Biblíuna: Þar sjáum við hvað Guð segir um sjálfan sig.
  • Frá öðrum sem þekkja hann.
  • Kynnast honum sjálf í gegnum bænina.

Bæn

Bænin má aldrei bresta þig