Bænin er afar mikilvægt og gagnlegt verkfæri sem við höfum. Bænin er trúnaðarsamtal við Guð. Við fáum tækifæri til að deila áhyggjum okkar og orða hugsanir. Við getum sagt Guði hvað sem er, ekkert er of stórt eða lítið í hans augum.

Kennum börnunum að biðja, sýnum þeim að hægt sé að biðja á marga mismunandi vegu, hægt er að notast við bænavers sem eru til, hægt er að nýta poppkornsbæn (þar sem hvert og eitt barn segir eina setningu), þakkarbænir, Faðir vorið og venjulegt samtal. Biðja má upphátt og í hljóði, með opin og lokuð augun, hvar sem er og hvenær sem er.
Okkur langar til að biðja ykkur um, kæru leiðtogar, að enda hverja hugleiðingu á bæn. Hægt er að notast við þessi tvö bænavers sem hér eru eða biðja með eigin orðum. Aðalatriðið er bara að börnin kynnist bæninni og mætti hennar.

Vertu Guð faðir
Vertu, Guð faðir, faðir minn
í frelsarans Jesú nafni,
hönd þín leiði mig út og inn
svo allri synd ég hafni.
Hallgrímur Pétursson

Bænin má aldrei bresta þig
Bænin má aldrei bresta þig,
búin er freisting ýmisleg.
Þá líf og sál er lúð og þjáð
lykill er hún að drottins náð.
Hallgrímur Pétursson