Markmið

  • Að börnin átti sig á því að Guð er alltaf til staðar og elskar þau.
  • Við höfum frjálsan vilja og þurfum að koma til Guðs, hann er alltaf tilbúinn að taka á móti okkur og bíður eftir okkur þar til við erum tilbúin að koma til hans.

Biblíuvers

Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld. (Matt. 11:28)

Rakarinn

– höfundur óþekktur, þýðing: Hjördís Rós

Maður nokkur fór til rakara til að láta klippa á sér hárið og snyrta skeggið sitt. Á meðan rakarinn klippti hárið á manninum töluðu þeir um allt milli himins og jarðar. Allt í einu fóru þeir að tala um Guð. Þá sagði rakarinn: „Ég trúi ekki að Guð sé til.“

„Af hverju segir þú það?“ spurði maðurinn.

„Sko, þú þarft ekki annað en að ganga út á götu til að sjá það að Guð sé ekki til. Þú hefur greinilega misst af öllum stríðunum, fátæktinni og öðrum hörmungum sem hafa geisað um heiminn. Ef Guð væri til þá myndi enginn kveljast og þjást. Ég get ekki ímyndað mér að til sé kærleiksríkur Guð sem leyfir svona hlutum að gerast.“

Maðurinn hugsaði sig um, hann svaraði ekki rakaranum því hann vildi ekki stofna til rifrildis. Hann yfirgaf stofuna þegar rakarinn hafði lokið við að snyrta hann. Um leið og hann steig út sá hann mann á gangi út á götu. Hann var með slitið, skítugt hár og ósnyrt skegg. Hann var skítugur og illa til fara. Maðurinn sneri við og fór aftur inn á rakarastofuna og sagði við rakarann: „Veistu, það eru ekki til neinir rakarar!“

„Hvernig getur þú sagt það?“ spurði rakarinn hissa. „Ég er hér og ég er rakari. Ég var að enda við að klippa þig!“

„Nei“ sagði maðurinn. „Rakarar eru ekki til, ef þeir væru til væri enginn með sítt, skítugt hár og ósnyrt skegg eins og maðurinn þarna úti.“

„Aha, en rakarar ERU til, þetta er bara það sem gerist þegar fólk kemur ekki til mín“ sagði rakarinn.

„Nákvæmlega!“ sagði maðurinn. Það er einmitt málið! Guð er líka til! Við þurfum bara að leita til hans og biðja hann um hjálp. Guð gaf okkur frjálsan vilja. Við getum ekki ætlast til þess að Guðs vilji nái fram að ganga ef við gerum allt eftir eigin höfði.

Samantekt og umræða

Það getur verið erfitt að sanna að Guð sé til, það eina sem þarf er trú. Þegar við höfum tekið á móti Guði í líf okkar finnum við fyrir honum, stundum mikið en stundum virðist hann vera fjarlægur. En við getum treyst því að hann er alltaf til staðar fyrir okkur. Hann fer ekki frí, fýlu, né er of upptekinn við eitthvað annað. Það er þó eðlilegt að efast um tilvist Guðs og flestir upplifa það einhvern tímann á lífsleiðinni. En eitt getum við verið viss um að Guð þráir ekkert heitar en að eiga samfélag við okkur og hann er og mun alltaf vera til staðar þegar við kjósum það. Nálægð við hann og samfélag er dýrmætt samband og við getum treyst því að ást Guðs til okkar er algjörlega skilyrðislaus.

Bæn

Bænin má aldrei bresta þig