Upphafsbæn
Vertu Guð, faðir, faðir minn,
í frelsarans Jesú nafni,
hönd þín leiði mig út og inn,
svo allri synd ég hafni.

Minnisvers
Ég er góði hirðirinn. Góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina. Jóh. 10:11.

Aðalatriði
Guð ber umhyggju fyrir öllum mönnum, við erum hvert og eitt okkar dýrmæt sköpun.

Hugleiðing 
Hér er hægt að velja um tvenns konar útfærslu, annað hvort að flytja hugleiðinguna hér að neðan um Týnda sauðinn eða nota myndasögu.

Týndi sauðurinn
Þegar Jesús gekk hér um á jörðinni og boðaði fagnaðarerindið um Guðs ríki notaði hann oft dæmisögur. Dæmisögur áttu að kenna fólki eitthvað. Jesús reyndi að segja sögur sem fólkið skildi og notaði því raunveruleg dæmi eins og í þessari sögu. Á tímum Jesú voru margir sem höfðu starf af því að gæta kinda.

Maður nokkur átti hundrað kindur. Kvöld eitt komst hann að því að ein þeirra skilaði sér ekki í fjárhópinn. Þó þreyttur og lúinn væri fór hann til að leita þeirrar sem týnd var. Hann leitaði alls staðar, í runnum og kjarri, í klettum og við vötn. Hann leitaði þar til hann heyrði einmanalegt jarm kindarinnar og fann hana. Hann gladdist innilega, lagði hana á herðar sér og fór heim með hana til hinna kindanna. Þegar heim var komið bauð hann nágrönnum sínum og vinum til veislu. Saman fögnuðu þeir því að kindin sem týndist var fundin og aftur komin í fjárhópinn. Eins fagnar Guð meira yfir einum manni sem hefur villst af leið og snýr aftur en yfir hinum níutíu og níu sem ekki villtust frá honum.

Hvað gerði fjárhirðirinn þegar ein kindin týndist? Hann átti nú 99 eftir, var það ekki nóg? Nei, hann skilur 99 eftir og fer og leitar að þessari einu sem er týnd. Hann hættir ekki fyrr en hann finnur hana og kemur fagnandi til baka með kindina á herðum sér.

Guð er góði hirðirinn og ber umhyggju fyrir okkur. Honum þykir hvert og eitt okkar dýrmætt og mikilvægt. Hann gleymir okkur aldrei og vill eiga samfélag við okkur. Við eigum samfélag við Guð með því að tala við hann í bæninni og leyfa honum að vera með okkur í lífinu.

Týndi sauðurinn – myndasaga (hentar betur í yngri deildum)

Myndasagan á pdf-glærum.

Guð er eins og þessi fjárhirðir. Honum þykir jafn vænt um alla menn og finnst við öll jafn dýrmæt. Hann vill alltaf vera nálægur okkur og hann mun aldrei gefast upp á okkur. Hann gleymir okkur aldrei.

  1. Hér sjáið þið fjárhirði. Hann á 100 kindur. Á hverjum degi telur hann þær.
  2. Einn daginn áttar hann sig á því að það vantar eina kind. Ó, nei hvert hefur hún farið, hvar er hún?
  3. Hann fór að leita og leita. Var hún í hænsnahúsinu? Nei hún var ekki þar.
  4. Því næst leitaði hann bak við heysátuna, var hún þar? Nei hún var ekki þar.
  5. Skyldi hún vera bak við runnann, nei hún var ekki þar. Nú varð hann enn áhyggjufyllri, hvar var kindin?
  6. Allan daginn leitar hann að kindinni sinni áhyggjufullur og hræddur. Hann fór um fjöll og firnindi.
  7. Hann lagði mikið á sig til að finna kindina sína, því hún var honum svo dýrmæt. Hann lagði sig allan fram og ákvað að gefast ekki upp. Hann meira að segja meiddist, rífur fötin sín og er orðinn örmagna.
  8. Hann er þreyttur, hann er svangur, hann finnur til, hann er hræddur, en hann gefst ekki upp. Hann ætlar sér að finna kindina.
  9. Allt í einu heyri hann lágt og veiklulegt jarm í fjarska, hann hlustar vel og gengur á hljóðið. Nei, þarna sá hann kindina sína, hún er föst í ánni.
  10. Hann hugsar sig ekki tvisvar um, hann gleðst þegar hann sér kindina týndu og stekkur beint út í ánna í öllum fötunum til að bjarga dýrmætu kindinni sinni.
  11. Húrra. Hann ber kindina sína alla leið heim, því hún var þreytt. Heima taka allir fagnandi á móti þeim og blása til glæsilegrar veislu.

Umræðupunktar

  • Sagan um týnda sauðinn segir okkur hve Guði þykir vænt um okkur en hefur það einhver áhrif á það hvernig við komum fram hvert við annað?
  • Við getum í sameiningu búið til samfélag þar sem enginn þarf að vera einn og yfirgefinn. Guð hvetur okkur til að passa hvert annað.
  • Hafið þið hugmyndir um hvað þið getið gert til þess að hjálpa þeim sem eru einmana eða útundan?

Jarm leikurinn
Hópurinn (kindurnar) sest niður og allir snúa í sömu átt. Sá sem er hann (fjárhirðirinn) kemur fremst og snýr baki í kindurnar. Leiðtogi gengur síðan á milli kindanna og klappar einhverri á höfuðið til að gefa til kynna hver það er sem á að jarma. Að því loknu gengur hann út úr hópnum og þá á kindin að jarma. Um leið og fjárhirðirinn heyrir hljóðið má hann snúa sér við og reyna að giska á hver jarmaði og ef hann giskar ekki rétt snýr hann sér við aftur og kindin jarmar á ný. Ef giskað er rétt skiptast þeir á hlutverkum. Ef það reynist erfitt að finna þann sem jarmaði má hafa tvær eða þrjár kindur sem jarma í einu og þá aukast líkurnar á að giskað sé rétt. Skiptið um fjárhirði eftir þrjár umferðir.