Upphafsbæn
Vertu Guð, faðir, faðir minn,
í frelsarans Jesú nafni,
hönd þín leiði mig út og inn,
svo allri synd ég hafni.

Minnisvers
Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra. Matt. 7:12.

Hugleiðing
Til leiðtoga
Sagan um Jósef og bræður hans er löng en hér á eftir er hún mikið stytt. Það er mikilvægt að sá sem segir söguna átti sig vel á sögunni í heild sinni . Sagan um Jósef er einmitt ein af þeim sögum í Biblíunni þar sem finna má einelti. Það eru mun fleiri sögur í Biblíunni sem fjalla um einelti. Sagan er ótrúlega mögnuð en aðalatriðið er að Guð yfirgefur aldrei Jósef og hann fyrirgefur bræðrum sínum.

Í Biblíunni er sagt frá tólf bræðrum. Jakob, pabba þeirra þótti vænt um þá alla, en vænst þótti honum þó um Jósef og Benjamín, en þeir voru yngstir. Jósef var eldri en Benjamín og þegar þessi saga hefst er Benjamín bara lítill strákur, en Jósef orðinn unglingur eða jafnvel ungur maður. Bræðurnir voru mjög afbrýðisamir út í Jósef vegna þess að pabbi þeirra hafði gefið honum flottari föt en hinum og þeim fannst pabbinn halda mikið upp á hann og voru afbrýðisamir.

Þeir létu það bitna á honum daginn út og daginn inn. Jósef hefur eflaust tekið þetta nærri sér og ekki vitað hvað hann ætti að gera. Dag nokkurn þegar bræðurnir voru úti í haga ákváðu þeir að drepa Jósef og kasta honum ofan í stóra gryfju. Þeir tóku fallegu fötin hans og rifu þau og helltu blóði yfir þau til þess að sanna fyrir föður þeirra að Jósef væri dáinn. Á sama tíma áttu kaupmenn þar leið hjá og þeir seldu þá bróður sinn sem þræl til kaupmannanna fyrir 20 silfurpeninga. Bræðurnir fóru heim með fötin og sýndu föður sínum. Þegar faðir þeirra sá fötin varð hann mjög hryggur og sorgmæddur og trúði því sem bræður hans sögðu og hélt að Jósef væri dáinn.

Guð sleppti hendi sinni ekki af Jósef en kaupmennirnir fóru með Jósef til Egyptalands þar sem hann var seldur sem þræll. Jósef var mjög duglegur og áður en langur tími var liðinn var hann orðinn að ráðsmanni. En Jósef gerði ekki allt sem að kona húsbónda hans sagði honum að gera og hún varð honum mjög reið og endaði það með því að Jósef lenti í fangelsi. Í fangelsinu komust fangaverðirnir að því að Jósef gat ráðið drauma og varð hann mjög frægur fyrir það. Hann réð meira að segja drauma konungsins og það bjargaði Egyptalandi frá hungursneyð.

Jósef var þá leystur úr haldi og fékk vinnu við hirð Faraós konungs. Nokkrum árum síðar hafði Jósef staðið sig svo vel að hann fékk vinnu sem landsstjóri.

Þá víkur sögunni aftur að bræðrum Jósefs. Í landinu þeirra var hungursneyð og bræðurnir voru sendir til Egyptalands til þess að biðja um korn. Þeir höfðu ekki hugmynd um að landsstjórinn sem þeir voru að biðja um korn hjá væri í raun Jósef bróðir þeirra. En Jósef þekkti bræður sínar strax og ákvað að athuga hvort þeir væru eins grimmir og þeir höfðu verið þegar þeir seldu hann í þrældóm. Hann lét þá fara aftur heim og sækja yngsta bróðurinn Benjamín sem var ekki með þeim. Þegar allir bræður hans voru þarna komnir hélt hann þeim stóra veislu. Eftir veisluna héldu þeir heim á leið með korn í sekkjum en Jósef setti silfurbikar í poka Benjamíns og varðmenn Faraós handtóku bræðurna og færðu þá til Jósefs. Jósef hótaði að taka Benjamín sem þræl en sleppa hinum bræðrunum. Bræðurnir sögðu að þeir gætu ekki fært föður sínum þær sorgarfréttir því hann hefði misst annan son og hann myndi ekki lifa af aðra slíka sorg. Þá sá Jósef að þeir iðruðust og hann fyrirgaf þeim og sagði þeim hver hann var í raun og veru.

Spurningar

  • Hvers vegna seldu eldri bræður Jósefs hann í þrældóm?
    • Svar: Þeir voru öfundsjúkir – lögðu hann í einelti
  • Hvað finnst ykkur um viðbrögð Jósefs?

Lokaorð fyrir bæði yngri og eldri deildir 
Við höfum öll verið öfundsjúk einhvern tímann. Jósef var lagður í einelti af bræðrum sínum og gekk í gegnum mjög erfiða hluti. Sagan segir okkur að Guð var með Jósef, en hann reddaði ekki bara öllu fyrir hann, Jósef þurfti líka að hafa fyrir hlutunum. Jósef var heppinn hann gat gert upp fortíðina við bræður sína og hann ákvað í hjarta sínu að fyrirgefa þeim. Einelti er aldrei í lagi. Biblían kennir okkur að koma fram við hvert annað eins og við viljum að komið sé fram við okkur.