Upphafsbæn
Vertu Guð, faðir, faðir minn,
í frelsarans Jesú nafni,
hönd þín leiði mig út og inn,
svo allri synd ég hafni.

Minnisvers
„Með hverju getur ungur maður haldið vegi sínum hreinum? Með því að gefa gaum að orði þínu.“ Sálm. 119:9

Aðalatriði
Sá sem heyrir orð Guðs og breytir eftir því, byggir líf sitt á traustum grundvelli.

Hugleiðing – Matt. 7:24-27
Sagan í dag segir okkur frá tveimur mönnum sem ætluðu að byggja sér hús. Annar vandaði vel til verksins. Hann gaf sér góðan tíma til að finna traustan grunn til að byggja húsið sitt á. Eftir góða leit fann hann traustan klett. Hann hugsaði með sér, Þessi staður er fullkominn og hófst handa. Eftir mikla erfiðisvinnu lauk hann loks byggingu hússins. Hann var þreyttur en glaður með verkið og kom sér vel fyrir í nýja húsinu sínu. En svo byrjaði að rigna. Og það rigndi og rigndi og rigndi. Það rigndi eins og hellt væri úr fötu. Stórir pollar mynduðust allt í kring um húsið en hvað haldið þið? Maðurinn sat bara inni í hlýjunni, í skjóli frá öllu.

En nú víkur sögunni að hinum manninum. Honum var nú alveg sama hvar eða hvernig húsið skildi vera, svo lengi sem hann væri bara nógu fljótur að byggja það. Hann staðnæmdist því bara á ströndinni og ákvað að skella upp nokkrum veggjum. Þetta tók nú ekki langan tíma og áður en hann vissi var hann sestur inn í nýja húsið sitt. Fljótlega eftir að hann settist inn byrjaði að rigna. Og það rigndi og rigndi og rigndi. Það rigndi eins og hellt væri úr fötu. Stórir pollar mynduðust um allt og hvað haldið þið? Grunnurinn undir húsinu breyttist í leðju og byrjaði að renna til. Smátt og smátt hallaði hver veggurinn á fætur öðrum þar til allt húsið var hrunið.

Umræðupunktar
Þessa dæmisögu sagði Jesú.

  • Hvaða merkir þessi saga fyrir okkur?
  • Hvað getum við gert til þess að byggja líf okkar á traustum grunni?
  • Kletturinn í sögunni er Guð og orð hans. Ef við byggjum líf okkar á honum og hans orði þá byggjum við líf okkar á traustum grunni. Og jafnvel þó að regnið og stormurinn (sem tákna erfiðleikana í lífi okkar) dynja yfir okkur, þá er Guð sá sami. Hann er alltaf traustur og við getum alltaf reitt okkur á hann.
  • En hvað haldið þið að sandurinn tákni? Á hverju byggjum við líf okkar ef við byggjum það á sandi?
  • Sandurinn getur táknað veraldleg gæði, t.d. peninga, frægð, hús, föt og dót. Allt þetta getur breyst. Allt þetta getur horfið á einu augnabliki og þá stöndum við eftir allslaus. En Guð varir að eilífu og við getum treyst á hann standi með okkur þegar erfiðleikarnir dynja yfir.

Leikur 1

Áhöld
Alls konar munir sem gott er að byggja úr, t.d. spil, bækur, eldspýtustokkar, geisladiskahulstur eða glasamottur. Notið ímyndunaraflið.

Framkvæmd
Þátttakendur sitja við borð sem er fullt af byggingarefni. Þeir skiptast á að leggja einn hlut ofan á annan og reyna að byggja háa byggingu. Þegar byggingin hrynur þá má byrja aftur en þá á annar þátttakandi að leggja fyrsta hlutinn í bygginguna.

Það skiptir öllu máli að undirstaðan sé góð ef byggingin á að standa. Þetta er einmitt boðskapur sögunnar um húsið á bjarginu.
(Leikur nr. 22 úr bókinni Theme Games 2 eftir Lesley Pinchbeck).

Leikur 2
Þessi leikur gæti hentað sem aðkoma að hugleiðingunni.

Áhöld
Gler- eða plastflaska með þröngum stút (gott að þyngja plastflöskuna með batni eða sandi), eldspýtur og klukka.

Framkvæmd
Fáið sjálfboðaliða. Setjið flöskuna á boð fyrir framan hópinn. Sjálfboðaliðinn fær 30 sekúndur til að raða sem flestum eldspýtum ofan á flöskustútinn, ef þær detta niður þarf að byrja upp á nýtt. Þegar tíminn er búinn eru eldspýturnar taldar og talan skráð og annar fær að spreyta sig. Hver getur raðað flestum?