Daría Rudkova, Perla Magnúsdóttir og Pétur Ragnhildarson hafa útbúið sérstaklega fund um Stop Poverty verkefnið fyrir unglingadeildir sem fylgir hér á eftir.

Við byrjum á því að kynna Stop Poverty verkefnið

  • Markmið verkefnisins/herferðarinnar er að reyna að útrýma allri fátækt í heiminum fyrir árið 2030.
  • Verkefnið er nú þegar hafið í mörgum löndum, en það byrjaði fyrst í Noregi. Og það hefur komið í ljós að ótal margir vilja hjálpa og leggja sitt að mörkum.
  • Við viljum hafa áhrif á annað fólk í kringum okkur og vekja athygli á því að við getum öll haft áhrif.
  • Fátækt í heiminum er sameiginleg ábyrgð okkar allra og við viljum útrýma henni.
  • Við þurfum því að breyta hugarfari okkar og reyna að smita þessa hugsun út um allt í kringum okkur.
  • Við vitum öll hvernig þetta virkar…. Enginn getur gert allt, en allir geta gert eitthvað.
  • Og margar hendur vinna stórt verk!
  • Þetta er ekki létt verkefni, og það er einmitt þess vegna sem við þurfum á ykkar hjálp að halda.
  • Okkur langar til að mynda alþjóðlega fylkingu fólks sem er tilbúið til þess að berjast gegn fátækt á friðsælan hátt.

Verkefnið er með facebook Like síðu sem heitir: Stop Poverty – Iceland.

 https://www.facebook.com/StoppovertyIceland

Við viljum endilega hvetja ykkur til þess að læka síðuna okkar og fylgjast með hvað er í gangi. Þar getið þið líka komið með hugmyndir, fræðst um fátækt, séð hvort það séu einhverjir auglýstir viðburðir framundan og svo framvegis. Allt sem er í gangi hjá Stop Poverty á Íslandi verður sett þar inn.

Nokkrar staðreyndir um heiminn okkar í myndbandi frá Telmu Ýr Birgisdóttur.

Umræður út frá myndbandinu:

Kemur þetta ykkur á óvart?

  1. Hvernig líður ykkur með að vita af svona mörgu sem lifa við fátækt?
  2. Er það sanngjarnt?
  3. Skiptir þetta okkur máli?
  4. Finnst ykkur skrýtið að fáir eigi hluti sem okkur finnst sjálfsagðir, eins og rúm, fataskápur, rafmagn og ísskápur?
  5. Hvað getum við gert? – Allir unglingarnir skrifa niður 1 hugmynd á miða

Ef krakkarnir segja:

Ég er bara ein manneskja hvað get ég ert?

  • Við getum svarað: Rannsóknir hafa sýnt fram að barátta gegn fátækt er að skila miklum árangri nú þegar, þó að hann mætti vera meiri og ganga hraðar. Þess vegna viljum við hjálpa!

Því næst er gott að sýna þetta hérna myndband:

Þarna er hægt að tala út frá því hvað lítil upphæð í lífi okkar getur skipt sköpum í löndum í Afríku, Suður Ameríku og Asíu.

Þúsaldarmarkmiðin

Ef vilji er fyrir hendi er hægt að kynna Þúsaldarmarkmiðin, en það er í raun val og fer eftir því hversu stór hópurinn er.

Í september árið 2000, sameinuðust leiðtogar heims og samþykktu Þúsaldaryfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna. Þar var ákveðið að stuðla að bættum hag mannkyns um allan heim á sviði þróunar, fátæktar, öryggis, friðar, umhverfisverndar, mannréttinda og lýðræðis. Átta markmið voru því sett niður. Markmiðin eru tímasett og á mælanlegur árangur að nást fyrir árið 2015. En ef engin breyting verður lítur það út fyrir að markmiðin muni fyrst nást eftir rúm 100 ár.

Markmiðin eru þessi:

  1. Eyða fátækt og hungri
  2. Tryggja að öll börn njóti grunnskólamenntunar
  3. Vinna að jafnrétti kynjanna og styrkja frumkvæðisrétt kvenna
  4. Lækka dánartíðni barna
  5. Vinna að bættu heilsufari kvenna
  6. Berjast gegn alnæmi, malaríu og öðrum sjúkdómum sem ógna mannkyninu
  7. Vinna að sjálfbærri þróun
  8. Styrkja hnattræna samvinnu um þróun

Allir geta lagt sitt af mörkum til að skapa betri heim, við þurfum bara vita hvar á að byrja.

Nú er tími til kominn að við tökum höndum saman, því allir eiga rétt á lífi án fátæktar. Við viljum taka þátt í að gera jörðina að betri stað.

Hvað er hægt að gera?

  • Vera með maraþon þar sem safnað er pening fyrir sérstök málefni, t.d. Hjálparstarf Kirkjunnar, UNICEF , ÞSSÍ eða SOS Barnaþorp til að mynda. Hér er frábært að taka umræðu og sjá hverju unglingarnir sýna mestan áhuga:
  • Biblíulestrarmaraþon
  • Dansmaraþon
  • Þrifmaraþon
  • Hjólamaraþon
  • Íþróttamaraþon
  • Hægt er að taka samskot
  • Kynna Fairtrade fyrir þeim: http://www.fairtrade.net/

Stop Poverty Game

Leiðbeiningar

  • Allir þátttakendur fá miða sem þeir einir mega skoða.
  • Á miðanum er hlutverk. Leiðbeinandi byrjar á því að spyrja spurningar um hlutverkin til að fá krakkana til að átta sig hvert á sínu hlutverki. Krakkarnir svara ekki spurningunum, þær eru einungis ætlaðar sem punktar til umhugsunar.

Dæmi um spurningar

  • Hvernig var æska þín? Hvernig leit heimilið þitt út? Hvernig lékstu þér sem barn? Við hvað störfuðu foreldrarnir þínir?
  • Hver eru áhugamál þín? Hvaða fólk umgengst þú? Hvað gerirðu yfir daginn?
  • Hvernig ertu stödd fjárhagslega? Hvar býrðu? Hvað óttastu?

Eftir spurningarnar færðu krakkana til þess að stilla sér upp í beina línu, eins og þau séu að fara kapphlaup. Það er mikilvægt að krakkarnir tali ekki mikið á meðan, og segi alls ekki hvaða hlutverk þau eru.

Leiðbeinandi les staðreyndir. Ef staðreyndin á við um viðkomandi ungling (passar við hlutverk hans), skal sá hinn sami taka eitt skref fram (ef í litlu rými þá skal taka hænuskref).

Markmiðið er fyrir hvern og einn ungling að komast sem lengst áfram, án þess að svindla. Einungis er hægt að komast áfram ef staðreyndin á við viðkomandi – passar við hlutverk hans.

Í lokin verða allir á mismunandi stöðum. Sumum finnst ósanngjarnt að hafa varla hreyft sig á meðan aðrar hafa komist langt áfram. Því næst fá allir að segja hvert hlutverk þeirra er. Við það skýrist hve mislangt hver og einn unglingur komst í leiknum. Í kjölfarið geta hafist umræður um það hvort þetta sé sanngjarnt, og hvað sé hægt að gera til þess að minnka misskiptingu lífsgæða í heiminum í dag. Mjög gott að ræða um fátækt í kjölfarið.

Hlutverkin sem hægt er að fá – Smelltu hér fyrir hlutverkalýsingar á pdf-formi til útprentunar

  • Þú 15 ára, býrð með 7 systkinum í lítilli íbúð í bæ í Þýskalandi. Pabbi þinn er atvinnulaus og mamma þín er afgreiðslukona.
  • Þú ert 17 ára stelpa sem kemur frá Sómalíu (land í Afríku). Þú ert flóttamaður og hefur fengið hæli á Íslandi en þú getur varla skrifað né lesið.
  • Þú ert menntaður verkfræðingur sem kemur frá Írak en þurftir að flytjast á brott sem flóttamaður. Þú ert nú á Íslandi og skilur ekki tungumálið. Þú vinnur við að selja dagblöð.
  • Þú ert einstæð móðir með 3 börn. Þú vinnur í þvottahúsi.
  • Þú ert 24 ára flóttamaður frá Libýu (land í Afríku). Þú býrð nú í flóttamannabúðum á Tyrklandi.
  • Þú ert dóttir sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi.
  • Þú lifir á ellilífeyri. Þú vannst alla tíð í skóverkssmiðju.
  • Þú ert 83 ára og lifir á lágmarks ellilífeyri.
  • Þú ert 27 ára maður sem býrð á götunni þar sem þú ert heimilislaus.
  • Þú ert hreyfihamlaður ungur maður sem ert í hjólastól
  • Þú ert 16 ára bifvélavirki
  • Þú ert tvítugur nemandi. Þú borgar námsgjöldin þín með því að taka að þér ýmsa aukavinnu með skóla.
  • Þú ert sonur bankastjóra og þú stundar nám við dýran háskóla.
  • Þú ert ólöglegur innflytjandi frá Moldóvíu
  • Þú ert sonur kínversk innflytjenda sem á skyndibitakeðju sem gengur vel.
  • Þú ert 53 ára. Skósmiðsfyrirtækið þitt er nýfarið á hausinn.
  • Þú ert kærasta heróíns fíkils.
  • Þú varst að ljúka við nám í hótelstjórnun og ert að leita þér að vinnu.
  • Þú ert 19 ára sonur bónda sem býr í Cambódíu

Staðreyndirnar sem lesnar eru

  • Þú hefur aldrei lent í alvarlegum fjárhagslegum erfiðleikum.
  • Þú átt gott heimili sem er með síma, sjónvarp og internet.
  • Þér finnst tungumálið þitt, trúin og menning þín vera virt á Íslandi.
  • Þér finnst eins og hlustað sé á þig þegar kemur að skoðunum þínum um félagsleg og stjórnarfarsleg mál.
  • Fólk leitar ráða hjá þér varðandi ýmis málefni
  • Þú hefur ekki áhyggjur af því að lögreglan stoppi þig hér og þar.
  • Þú veist hvar þú getur sótt þér aðstoð og hjálp þegar þú þarft á því að halda.
  • Ef þú lendir í slysi eða veikindum þarftu ekki að hafa áhyggjur að hugsað sé um þig og þú hafir ekki efni á sjúkrakostnaðinum.
  • Þú hefur aldrei fundið fyrir fordómum vegna þess hvaðan þú ert
  • Þú hefur tök á því að fara í frí erlendis á hverju ári
  • Þú mátt alltaf bjóða vinum þínum heim í mat
  • Þú ert hamingjusamur með lífið þitt
  • Þú ert aldrei hræddur um að verða fyrir áreiti úti á götu
  • Þú getur farið í nám og síðan haft vinnu sem þú hefur áhuga á
  • Ef þig langar til þess áttu góða möguleika til þess að sitja í samfélagslegri valdastöðu einn daginn
  • Þú getur tekið þátt í alþjóðlegum ráðstefnum erlendis
  • Þú átt efni á að fara í bíó a.m.k. 1x í viku
  • Þú ert ekki hræddur um framtíð verðandi barna þinna
  • Þú átt efni á að kaupa þér ný föt á 3 mánaða fresti
  • Þér líður eins og þekking þín og hæfileikar séu metin mikils
  • Þú ert með kosningarétt í landinu sem þú býrð í
  • Þú getur komist á internetið þegar þú þarfnast þess
  • Þú ert jákvæður þegar þú hugsar um framtíð þína