Texti

Textarnir sem lagðir eru til grundvallar að þessu sinni eru valdir með tilliti til innihaldsins í Postullegu trúarjátningunni og í þeim tilgangi að varpa skýrara ljósi á merkingu hennar. Mikilvægt er að sá sem hefur hugleiðingu leyfi textanum fyrst að tala til sín og lesi hann það vel að hann geti endursagt það sem mestu máli skiptir. Gagnlegt getur verið að lesa til hliðsjónar „Lifandi orð“, Barnabiblíuna eða aðrar bækur sem leitast við að umorða texta Biblíunnar á mál sem krakkar skilja betur.

Starfsgögn

Það skiptir ekki einungis máli hvað við ætlum að tala um. Hvernig við komum boðskapnum til skila skiptir einnig miklu máli. Hugleiðing sem höfðar bæði til heyrnar og sjónar getur á stundum útskýrt efnið betur. Það stafar meðal annars af þeirri alkunnu staðreynd hve orð geta verið snögg að þjóta inn um annað eyrað og út um hitt, án þess að mikið virðist sitja eftir í heilabúi áheyrandans. Hjálpargögn af ýmsu tagi geta því verið af hinu góða og við nokkur fundarefni má finna ábendingar um efni sem gæti nýst einhverjum.

Þó skal aldrei ofmeta notkun myndefnis, vel sögð saga skilur eftir sig margt og ef hugur barnanna teiknar sjálfur upp sögusviðið sem sagt er frá og er virkjaður í hlustun, þá skilur það eftir sterkari áhrif en nokkur glæra eða mynd.

Hægt er að fá að láni hjálpargögn í þjónustumiðstöð KFUM og KFUK að Holtavegi 28 í Reykjavík. Í þjónustumiðstöðinni er til starfsgagnalisti sem sýnir flestöll þau hjálpargögn sem til eru í vörslu KFUM og KFUK og eru til útláns. Með því að skoða þann lista geta menn fundið enn frekara hjálparefni ef þeir kæra sig um.

Verkefni

Það getur hjálpað til við að koma efni hugleiðingarinnar til skila ef annað efni á fundinum skýrskotar með einhverjum hætti til þess sama og hugleiðingin fjallar um. Í efninu eru nefndar hugmyndir að verkefnum, sögum o.þ.h. sem hugsanlega mætti nota á fundinum eða jafnvel flétta inn í hugleiðinguna.

Framhaldssaga og/eða styttri frásögur

Í sumum deildum er föst venja að segja framhaldssögu. Fyrir þá sem kynnu að hafa áhuga á slíku efni má benda á bókina: „Við Guð erum vinir“. Hægt er að fá eintak af bókinni lánað hjá æskulýðsfulltrúum KFUM og KFUK á Holtavegi. Líklega hentar bókin best fyrir YD KFUK deildir þar eð aðalsögupersónan er ung stelpa. Flestar deildir ættu þó að geta nýtt sér bókina að einhverju leyti því margir kaflarnir eru þess eðlis að þeir henta til upplesturs eða endursagnar einir og sér. Við hverja viku eru valdir kaflar sem í mörgum tilfellum má tengja beint eða óbeint við efni hugleiðingarinnar. Af þessum sökum er lagt til að einstaka köflum sé sleppt eða röð þeirra ruglað lítillega.

Söngvar – Misserissöngur

Söngvar eru ekki til þess að fylla upp í eyður á fundunum. Þegar glatt er á hjalla er gaman að syngja, það hristir hópinn saman og gefur eðlilegu æskufjöri nokkra útrás ef vel er á spöðum haldið. Þegar mikið glens er á fundi fer oftast betur á því að syngja söngva án trúarlegs innihalds á milli atriða, t.d. „Já, gríðar er gaman að syngja“, „Meistari Jakob“ eða eitthvað þess háttar sem allir kunna og geta sungið af krafti.

Þegar við syngjum trúarlega söngva skiptir innihaldið mestu máli, þannig að mikilvægt er að við lærum að nota slíka söngva í réttu samhengi. Stundum er t.d. hægur vandi að finna söngva sem fjalla um svipað efni og hugleiðingin og getur söngurinn þá orðið mikilvægur liður í því að koma þeim boðskap til skila sem við viljum. Undir þessum lið er bent á söngva sem tengja mætti efni fundarins.

Í vor er trúarjátningin til umfjöllunar og því fer vel á því að „Stjörnur og sól“ verði notaður sem misserissöngur í deildunum og að hann sunginn á öllum fundum deildanna. Söngurinn hefur trúarjátninguna sem þema.

Hugleiðing

Eins og nafnið bendir til, er hugleiðingu ætlað að leiða hugann að orði Guðs. Sá sem flytur hugleiðingu verður því fyrst að gefa sér tóm til að íhuga vel það Guðs orð sem hann ætlar að tala um og undirbúa sig í bæn, biðja anda Guðs að uppljúka orðinu fyrir sér. Það er góður vani að lesa textann í Biblíunni nokkrum sinnum yfir og skrifa hjá sér hugsanir og hugmyndir sem vakna við lesturinn áður en boðunarefnið er lesið. Við það verður blær hugleiðingarinnar gjarnan persónulegri.

Mikilvægt er að átta sig á því, að boðunarefnið er ekki tilbúin hugleiðing sem hægt er að grípa til á hlaupum. Boðunarefninu er ætlað að vera leiðtogum KFUM og KFUK hvatning og hjálp við gerð hugleiðingar, hjálp í þeirri glímu að klæða boðskapinn í þau orð og þann búning sem krakkarnir skilja. Auk þess er boðunarefninu ætlað að stuðla að því að boðun í félögunum verði markvissari og fjölbreyttari en ella.

Annað mikilvægt atriði við gerð hugleiðingar, er að leitast við að þekkja þau börn sem við störfum á meðal. Eftir því sem við skiljum börnin betur, vitum hvað þau hugsa og glíma við, höfum við meiri forsendur til að tala við þau þannig að þau skilji hvað við höfum að segja.

Boðskapur

Áður en hugleiðing er samin er mikilvægt að gera sér grein fyrir kjarna þess boðskapar sem við viljum koma til skila. Í þeim tilgangi setjum við okkur markmið, útskýrum fyrir sjálfum okkur merkingu þess sem við erum að fást við. Undir þessum lið verður því reynt að draga fram það sem við viljum að börnin hafi lært að hugleiðingu lokinni.

Marteinn Lúther íhugaði m.a. Postullegu trúarjátninguna og setti fram stuttar útskýringar á hverri grein fyrir sig í „Fræðunum minni“ sem eru ein af játningarritum íslensku þjóðkirkjunnar. Hægt er að lesa útskýringar Lúthers í „Fræðunum minni“ á vefslóðinni http://www2.kirkjan.is/node/91.

Aðkoma

Undir þessum lið verða gefnar hugmyndir um hvernig nálgast megi efnið í upphafi þannig að það nái athygli hlustendanna og hvernig tengja megi atvik eða atriði úr daglegu lífi okkar við það sem fjalla á um.

Þrátt fyrir að gott og þægilegt sé að notast við margskonar hjálpargögn í framsetningu á Biblíusögum, eru ýmsir sem telja að með því að flytja Biblíutextann óbreyttan og leitast við að virkja ímyndunarafl þátttakenda til að hlusta og setja sig inn í það sem er flutt, ásamt því að bjóða upp á samtal og spurningastund að lestri loknum sé hentugasta leiðin til að koma boðskapnum til skila, sér í lagi til unglinga og eldri þátttakenda í starfinu.

Meginmál

Hér er reynt að draga fram það sem ætti að vera meginefni hugleiðingarinnar. Endursögn textans í Biblíunni skipar hér oft stóran sess, spurningum er varpað fram og bent á atriði sem vekja má sérstaka athygli á og undirstrika þann boðskap sem við viljum að komist til skila.

Samantekt

Í lok hugleiðingar getur verið gott að árétta í mjög stuttu máli það sem við vildum að krakkarnir lærðu í hugleiðingunni.

Minnisvers

Það sem maður lærir utan að sem barn, býr oft með manni alla ævi. Þess vegna getur það haft mikla þýðingu að kenna börnum mikilvæg biblíuvers utan að, auk þess sem þau geta verið góð árétting þess boðskapar sem fram kom í hugleiðingunni. Í þessu boðunarefni er því lagt til að kennd séu ákveðin minnisvers. Þau fylgja einnig með á sérstökum miðum sem hægt er að láta krakkana hafa með sér heim.

Til að krakkarnir geymi frekar minnisversamiðana mætti láta þá teikna hjarta með umslagi aftan á og lita það, þar sem hægt er að setja miðana í.

Bæn/bænarefni

Bænin þarf að skipa miðlægan sess í okkar starfi. Við getum kennt krökkunum ákveðnar bænir og það er góð venja að enda hvern fund á FAÐIR VOR. En við þurfum einnig að hjálpa krökkunum að móta bænir með eigin orðum. Einn liður í þeirri viðleitni felst í því að láta krakkana hafa okkar bæn eftir upphátt. Þátttaka þeirra í bæninni verður þá áþreifanlegri en ef þau taka aðeins undir hana í hljóði. Þegar við látum krakka endurtaka okkar bæn, er mikilvægt að bænin sé stutt og hnitmiðuð. Fyrir sumum getur jafnvel verið best að fara með bæn sem aðrir hafa orðað. Undir þessum lið verður bent á bænarefni eða bænir sem tengjast efni hugleiðingarinnar.

Árið 1988 kom út hjá Almenna bókafélaginu bókin: „Börn og bænir“ eftir sr. Sigurð Pálsson, fyrrum formann KFUM. Í bókinni eru margar góðar bænir eftir börn og fullorðna sem akkur er í að kynna sér.

Popptenging

Við nokkra fundi er bent á möguleg myndbrot eða söngva sem geta nýst sem tenging við fræðslu viðkomandi fundar.

Útskýring tákna í starfsgagnasafni

  • FL Filmræma með ljósmyndum í lit
  • FT Filmræma með teiknuðum myndum (í lit)
  • G Glærur
  • L Loðmyndir,
  • MV Myndbandsefni (VHS)
  • S Slidesmyndir
  • Forsk Efni fyrir börn á forskólaaldri
  • Barn 1 Efni fyrir börn 6-9 ára
  • Barn 2 Efni fyrir börn 10-12 ára
  • Ungl Efni fyrir unglinga 13 ára og eldri.