Í þessu efni er Postullega trúarjátningin tekin sérstaklega fyrir, en rík hefð hefur verið fyrir því í starfi KFUM og KFUK að farið sé með trúarjátninguna á hverjum fundi í yngri deildum félaganna.

Postullega trúarjátningin er af mörgum talin elst hinna kirkjulegu játninga og sú játning sem allir kristnir menn um víða veröld hafa sameinast um. Hún er einnig sú játning sem flest íslensk börn eru skírð til. Það er því mikilvægt að börn fái tækifæri til að læra trúarjátninguna þegar þau hafa til þess vit og þroska.

Þá er vert að hafa í huga, að trúarjátningin má aldrei verða eintómur utanbókarlærdómur. Sönn trúarjátning er játning hjartans og sú játning sem fram kemur í öllu lífi okkar. Það er því m.a. hlutverk KFUM og KFUK að hjálpa börnum og unglingum að skilja og tileinka sér þá játningu sem þau voru skírð til.

Þannig getur trúarjátning aldrei snúist eingöngu um hvað það er sem við trúum heldur hlýtur trúarjátning að eiga að hafa áhrif á það hvernig við trúum. Áhrif játningar okkar hefur áhrif á það hvernig við lifum okkar daglega lífi.

Postullega trúarjátningin er meitluð framsetning á helstu grundvallaratriðum þess kristindóms sem Biblían boðar. Játningin varð snemma skírnarjátning í kirkjunni og var m.a. ætlað að vera andsvar við margvíslegum villukenningum sem þá voru uppi. Það er von KFUM og KFUK að boðunarefnið geti verið hjálp í að koma boðskap trúarjátningarinnar á framfæri.

Ekki er við því að búast að allt í boðunarefninu get nýst öllum. Því eru leiðtogar hvattir til að nota dómgreind sína til að velja og hafna í þeim efnum, jafnframt því sem leiðtogar eru hvattir til að lesa þær leiðbeiningar sem fylgja hverjum þætti hér á eftir.

Allar ábendingar um það sem betur mætti fara í efni þessu eru vel þegnar.

Þórarinn Björnsson (1990)
Halldór Elías Guðmundsson (2012)