Texti: Matt. 28:18-20.

Og Jesús kom til þeirra, talaði við þá og sagði: „Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður og sonar og heilags anda og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“

Verkefni

Samhristingur – Nafnaleikur

Þar sem um fyrsta fund á vorönn er að ræða getur verið gott að leysa saman verkefni eða fara í leiki sem hrista hópinn vel saman. T.d. leik þar sem allir læra að þekkja nöfn hvers annars. Allir gætu t.d. útbúið nafnspjald fyrir einhvern sessunaut sinn (helst stórt sem síðan væri hengt um hálsinn með bandi, jafnvel myndskreytt í takt við eitthvað í fari hins). Nafnspjaldið hafa menn síðan það sem eftir lifir fundarins.

Hópleikur – Mólikúluleikurinn

Hópleikir á borð við Mólikúluleik gætu líka verið heppilegir. Þá standa allir saman á auðu svæði og leiðtogi nefnir einhverja tölu, t.d. 5. Síðan reyna allir að tengja sig við aðra fjóra. Þeim sem ekki tekst að mynda 5 manna mólikúl eru úr leik. Leikurinn er því næst endurtekinn 3-4 sinnum og breytt um tölur.

Framhaldssaga

„Við Guð erum vinir“: Formáli bls. 56

Tenging: Við ætlum í vor að reyna að kynnast Guði betur (eins og Júlía) með því að hugleiða innihald trúarjátningarinnar.

Söngvar

  • Misserissöngurinn: Stjörnur og sól
  • Áfram, Kristsmenn, krossmenn
  • Ég er með yður alla daga
  • Guð faðir skapar
  • Guð sem skapað hefur heiminn
  • Kæri faðir

Hugleiðing

Boðskapur

Í skírninni hefur Jesús Kristur tekið okkur að sér sem limi á líkama sínum. Trúarjátningin er andsvar okkar við kærleika Guðs, eins konar þökk til Guðs og yfirlýsing um það, að við setjum traust okkar á það sem Guð hefur gert fyrir okkur.

Aðkoma

Flestir krakkar hafa verið viðstaddir skírn. Að vísu er þess varla að vænta að margir muni eftir því þegar þeir sjálfir voru skírðir, en til að kveikja athyglina í upphafi mætti spyrja hvort einhver sé svo minnisgóður. Síðan er „upplagt“ að rifja upp með krökkunum hvernig skírn fer fram og vekja athygli á merkingu þess atferlis sem haft er um hönd, m.a því, að áður en barnið er skírt, fer söfnuðurinn með trúarjátninguna. Barnið er þannig skírt til þeirrar trúar sem söfnuðurinn játar. Við sjálfa skírnina gerir presturinn síðan krossmark á enni og brjóst barnsins, til vitnisburðar um, að hugur þess og hjarta eigi „að helgast fyrir trúna á hinn krossfesta og upprisna Drottin Jesú Krist.“

Leiðrétta má við þátttakendur þann misskilning að skírnin sé einungis nafngjöf.

Í skírninni erum við tekin inn í kirkju Krists hér á jörð. Í raun og veru er það Kristur sjálfur sem er að gróðursetja okkur á sig (vínviðinn), gera okkur að sínum lærisveinum. Við erum í skírninni merkt Kristi með krossmarki og þess vegna megum við kalla okkur kristin. Okkar er að játast Kristi og fylgja honum. Þegar við t.d. signum okkur eða förum með trúarjátninguna erum við að minna okkur sjálf á, að við viljum fylgja Jesú Kristi og lifa undir merki hans.

Meginmál

Eftir að Jesús reis upp frá dauðum birtist hann lærisveinum sínum og gaf þeim fyrirheit. Hann sagði að sér væri gefið allt vald á himni og jörðu og að hann ætlaði ætíð að vera nálægur lærisveinum sínum „allt til enda veraldar.“

En Jesús gaf lærisveinum sínum ekki aðeins fyrirheit. Hann gaf þeim einnig skipun. Hún er gjarnan nefnd kristniboðs- eða skírnarskipunin. Lærisveinarnir áttu að fara og gera allar þjóðir að lærisveinum, skíra menn í nafni föður, sonar og heilags anda og kenna þeim að fylgja Kristi og hlýðnast honum.

En hvað ætli það merki þegar við erum „skírð í nafni föður, sonar og heilags anda“, eins og Jesús bauð? Að vera skírður í nafni einhvers merkir nánast að vera eignaður einhverjum. Við tilheyrum þeim sem við erum skírð til. Í skírninni erum við eignuð Guði. Á einfaldan hátt getum við sagt að það merki að Guð geri okkur að sínum börnum í skírninni. Í skírninni er Guð að gefa okkur gjöf, fyrirgefningu syndanna og líf með sér.

Þegar við erum orðin Guðs börn, þá erum við um leið orðin hluti af kirkjunni sem er fjölskylda Guðs hér á jörð. Að tilheyra kirkjunni er stundum kallað að vera lærisveinn Jesú Krists. Jesús sagði að við ættum að gera allar þjóðir að sínum lærisveinum. Við á Íslandi erum ekki þau einu sem tilheyrum Guði. Um allan heim má finna lærisveina Jesú Krists. Þó eru margir sem enn hafa ekki heyrt um Jesú, fyrirgefningu syndanna og Guðsríkið þar sem alltaf ríkir friður og réttlæti. Þess vegna sendum við kristniboða út um heiminn, nú eða förum sjálf. Þá er gott að vita að Jesús hefur gefið okkur fyrirheit um að hann muni alltaf vera með okkur.

Það var ekki alltaf auðvelt fyrir fyrstu lærisveina Jesú að játa trú sína og segja öðrum frá Jesú. Margir þeirra voru teknir af lífi vegna þess eins að þeir þorðu að segja frá trú sinni á Jesú Krist. Þeir vissu að hann var alltaf nálægur þeim í anda sínum og þeir gátu ekki hugsað sér að lifa án þess að segja frá honum. Jesús var þeim meira virði en allt annað. Postullega trúarjátningin, sem við förum svo oft með, á m.a. að minna okkur á hvers virði Jesús er okkur og hvað hann hefur gert fyrir okkur. Kannski ætti hún einnig að minna okkur á fyrstu lærisveinana sem margir voru ofsóttir fyrir trú sína?

Samantekt

Í skírninni hefur Kristur játast okkur, gert okkur að sínum lærisveinum. Þorum við að játast honum, lifa undir merki hans og hlýða því sem hann býður okkur?

Minnisvers

Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður. (Matt 28:19-20a)

Bæn

Í bæninni í lokin má þakka fyrir þá gjöf sem Guð gefur okkur í skírninni, fyrirgefningu syndanna. Við getum beðið um hjálp Guðs til að játa trú á hann með orðum okkar og líferni. Eins má biðja sérstaklega fyrir þeim sem þurfa að líða og þjást fyrir að játa trú á Jesú Krist.

Notast má við athyglisverða bæn úr bók sr. Sigurðar Pálssonar: Börn og bænir.

Ég geri kross með fingrunum.
Ég geri kross á sjálfa mig.
Það merkir, að ég er Guðs barn.
Þegar ég var skírð
var gerður kross
á enni mitt og brjóst.
Ég geri skírnarkrossinn minn
svo hann máist aldrei út.
Guð, líttu á krossinn,
sjáðu að ég er þitt barn! (bls. 6).