Texti: Post. 1:1-14

Fyrri sögu mína, Þeófílus, samdi ég um allt sem Jesús gerði og kenndi frá upphafi, allt til þess dags er hann varð upp numinn. Áður hafði hann gefið postulunum, sem hann hafði valið með heilögum anda, fyrirmæli sín. Hann birtist þeim eftir dauða sinn og sýndi þeim með órækum sönnunum að hann lifði. Hann lét þá sjá sig í fjörutíu daga og talaði um Guðs ríki. Er Jesús neytti matar með þeim bauð hann þeim að fara ekki burt úr Jerúsalem heldur bíða eftir því sem faðirinn gaf fyrirheit um „og þér hafið heyrt mig tala um. Því að Jóhannes skírði með vatni en þér skuluð skírðir verða með heilögum anda, nú innan fárra daga.“

Meðan þeir voru saman spurðu þeir hann: „Drottinn, ætlar þú á þessum tíma að endurreisa ríkið handa Ísrael?“

Hann svaraði: „Ekki er það yðar að vita tíma eða tíðir sem faðirinn hefur sjálfur ákveðið. En þér munuð öðlast kraft er heilagur andi kemur yfir yður og þér munuð verða vottar mínir í Jerúsalem og allri Júdeu, í Samaríu og allt til endimarka jarðarinnar.“ Þegar hann hafði mælt þetta varð hann upp numinn að þeim ásjáandi og ský huldi hann sjónum þeirra.

Er þeir störðu til himins á eftir honum þegar hann hvarf, þá stóðu hjá þeim allt í einu tveir menn í hvítum klæðum og sögðu: „Galíleumenn, hví standið þér og horfið til himins? Þessi Jesús, sem varð upp numinn frá yður til himins, mun koma á sama hátt og þér sáuð hann fara til himins.“

Þá sneru þeir aftur til Jerúsalem frá Olíufjallinu, sem svo er nefnt og er í nánd við Jerúsalem, hvíldardagsleið þaðan. Er þeir komu þangað fóru þeir upp í loftstofuna þar sem þeir dvöldust: Það voru þeir Pétur og Jóhannes, Jakob og Andrés, Filippus, Tómas, Bartólómeus, Matteus, Jakob Alfeusson, Símon vandlætari og Júdas Jakobsson. Konurnar voru einnig með þeim og María móðir Jesú og bræður hans. Öll voru þau með einum huga stöðug í bæninni.

Verkefni

Sögur af kristniboðsakrinum

Á heimasíðu SÍK er hægt að nálgast sögur af kristniboðsakrinum sem henta mismunandi aldurshópum. Sögur fyrir unglinga eru á slóðinni http://www.sik.is/sogusafn/919-soegur-fyrir-unglinga og sögur fyrir börn má nálgast á http://www.sik.is/sogusafn/918-sogur-fyrir-born.

Heimsókn frá Sambandi íslenskra kristniboðsfélaga

Starfsfólk SÍK (Sambands íslenskra kristniboðsfélaga) er tilbúið og viljugt að koma í heimsókn í deildarstarf KFUM og KFUK. Hægt er að hafa samband við skrifstofu SÍK í síma 533 4900. Eins er hægt að fá þar upplýsingar um ungt fólk sem hefur kynnst starfi kristniboðanna í KRUNGferðum og er tilbúið að koma og segja frá upplifun sinni.

Framhaldssaga

Við Guð erum vinir“ – kaflinn: „Óvænt undrunarefni“ bls. 90-94.

Tenging: Himinn Guðs líf með Guði.

Söngvar

  • Misserissöngurinn: Stjörnur og sól
  • Ég er með yður alla daga
  • Ég lofa Drottin
  • Guð sem skapað hefur heiminn
  • Himnanna ríki er hjá oss
  • Kæri faðir
  • Látum hjartans lindir streyma
  • Leitið hans ríkis
  • Við setjumst hér í hringinn

 Hugleiðing

Boðskapur

Þriðja grein trúarjátningarinnar fjallar um heilagan anda og starf hans. Erfitt er að gera því efni skil á einum fundi en við getum m.a. lagt áherslu á að Jesús gefur lærisveinum sínum heilagan anda svo að þeir geti betur þjónað honum. Heilagur andi er hið lífgefandi afl Guðs í kirkjunni. Hans hlutverk er að uppljúka augum okkar fyrir Jesú Kristi. Hann starfar í gegnum Orð Guðs í samfélagi heilagra.

Aðkoma

Ræða mætti í upphafi um skiptingu Postullegu trúarjátningarinnar.

Meginmál

Eftir upprisuna birtist Jesús lærisveinum sínum. Þeir fengu að sjá það og reyna að hann var sannarlega upprisinn. Og hann gaf þeim einnig fyrirheit um að þeir myndu fá kraft heilags anda og ættu að bera vitni um sig „í Jerúsalem og allri Júdeu, í Samaríu og allt til endimarka jarðarinnar“. (vers 8).

Ræða mætti um það hvernig trúin á Jesú hefur breiðst út um heiminn og hingað til Íslands. En lærisveinar Jesú hafa ekki getað þagað um fagnaðarerindið og jafnvel lagt líf sitt í sölurnar fyrir trú sína. Kristniboðar hafa farið víða um lönd. Þannig starfa starfa íslenskir kristniboðar, víða um heim meðal annars í Eþíópíu, Kenýu og Japan. Ástæða kristniboðsins er sú að Jesús sendi lærisveina sína út um allan heiminn og gaf þeim heilagan anda svo að þeir gætu borið honum vitni með djörfung.

Jesús var ekki nema tímabundið á jörðinni. Hann var uppnuminn til himins að lærisveinunum ásjáandi. En hann er nálægur hverjum þeim sem leitar til hans og hann er nálægur í kirkju sinni. Hinir fyrstu lærisveinar gerðu sér glögga grein fyrir því hve mikilvægt var að koma saman og eiga samfélag um Krist. Lærisveinarnir hittust til að biðja og lesa Guðs orð saman og neyta heilagrar kvöldmáltíðar.

Bænin og Biblían eru þau tæki sem Guð hefur gefið okkur til þess að samfélag okkar við Guð endurnýist dag frá degi.

Samantekt

Jesús er nálægur lærisveinum sínum. Hann vill eiga samfélag við okkur í orði og bæn og hann vill að lærisveinar sínir komi saman um hann m.a. í kirkjunni og KFUM og KFUK. Hann vill gefa okkur kraft heilags anda svo að við getum þjónað honum með gleði og bent öðrum á hann.

Minnisvers

Því að hvar sem tveir eða þrír eru saman komnir í mínu nafni, þar er ég mitt á meðal þeirra. (Matt. 18:20)

Bæn

Þökkum Guði fyrir heilagan anda sem bendir okkur á Krist. Biðjum um kraft heilags anda svo að við getum einnig bent öðrum á Jesú Krist með orðum okkar og lífi.