Texti: Matt. 16:13-20

Þegar Jesús kom í byggðir Sesareu Filippí spurði hann lærisveina sína: „Hvern segja menn Mannssoninn vera?“
Þeir svöruðu: „Sumir Jóhannes skírara, aðrir Elía og enn aðrir Jeremía eða einn af spámönnunum.“
Hann spyr: „En þið, hvern segið þið mig vera?“
Símon Pétur svarar: „Þú ert Kristur, sonur hins lifanda Guðs.“
Þá segir Jesús við hann: „Sæll ert þú, Símon Jónasson! Enginn maður hefur opinberað þér þetta heldur faðir minn í himninum. Og ég segi þér: Þú ert Pétur, kletturinn, og á þessum kletti mun ég byggja kirkju mína og máttur heljar mun ekki á henni sigrast. Ég mun fá þér lykla himnaríkis og hvað sem þú bindur á jörðu mun bundið á himnum og hvað sem þú leysir á jörðu mun leyst á himnum.“
Þá lagði hann ríkt á við lærisveinana að segja engum að hann væri Kristur.

Verkefni

Spurningakeppni: „Krossar og núll“.

Keppnin fellst í því að skipt er í tvö lið sem svara eiga spurningum er tengjast efni Biblíunnar á einn eða annan hátt. Liðin fá að velja sér til skiptis spurningu úr þeim 9 flokkum (reitum) sem nefndir eru hér að neðan. Ef öðru liðinu tekst að svara spurningu rétt, má það merkja með krossi (x) í viðkomandi reit þá er ekki lengur hægt að velja spurningu úr þeim reit. Hitt liðið merkir með núlli (o) ef það svarar rétt. Það lið vinnur sem nær að mynda þrennu með krossum (xxx) eða núllum (ooo), þrennan má vera lárétt, lóðrétt og á ská. Spurningar fyrir keppnina má fá hjá æskulýðsfulltrúum KFUM og KFUK.

Framhaldssaga

Við Guð erum vinir“ – kaflinn: „Fíll í bílskúr“ bls. 45-50 (bls. 29-44 sleppt).

Tenging: Nafnið Jesús og það að Jesús þurfti að líða og þjást.

Söngvar

  • Misserissöngurinn: Stjörnur og sól
  • Áfram, Kristsmenn, krossmenn
  • Ég er heimsins ljós
  • Fel Drottni vegu þína
  • Fús ég, Jesús, fylgi þér
  • Jesús, hvað get ég þér gefið?
  • Jesús, Jesús

Hugleiðing

Boðskapur

Spurningin um hver Jesús er, er spurning sem hver og einn verður að taka afstöðu til. Getum við tekið undir játningu Péturs, að Jesús sé Kristur, hinn fyrirheitni frelsari (messías)? Er hann frelsari minn sem ég hef ákveðið að fylgja?

Aðkoma

Vekja mætti athygli á því í upphafi hversu vinsælt er að geraskoðanakannanir og taka viðtöl við fólk með ákveðnar skoðanir. Í útvarpi og sjónvarpi er sí og æ verið að spyrja menn hvað þeim finnist um þetta og hitt.. En spurningar geta verið mjög mismikilvægar. Er það t.d. mikilvæg spurning hvort við drekkum frekar kók, pepsí eða RC Cola? Eða hvort hvítir bílar flottari en svartir?

Sumar spurningar í lífinu eru mikilvægari en aðrar. Það má bjóða þátttakendum á fundinum að koma með uppástungur um mikilvægar spurningar. Nefna má:

  • Hvað er mikilvægast í lífinu?
  • Hvernig getum við þjónað náunga okkar?
  • Á hvað trúi ég?
  • Á hvað set ég traust mitt?
  • Er Jesús sá sem hann sagðist vera?

Meginmál

Gott er að rifja upp söguna af því þegar Jesús spurði lærisveina sína að því hvern fólk sagði Mannssoninn vera. Mannssonur er hugtak sem var notað um messías (Dan. 7:13-14). Eftir hverju var Jesús að fiska? Var hann bara að spyrja af forvitni? Hafði hann beðið lærisveina sína að gera skoðanakönnun?

Nei! Jesús var að undirbúa aðra og mikilvægari spurningu. „En þér, hvern segið þér mig vera?“ Pétur svaraði spurningunni: „Þú ert Kristur, sonur hins lifanda Guðs“. Hann hafði fengið að kynnast Jesú, tala við hann, sjá hann starfa, líkna og gera kraftaverk. Hann var viss um að Jesús væri Kristur.

Jesús sagði að Pétur væri búinn að komast að þessari niðurstöðu af því að Guð hefði sannfært hann um það.Trúin er ætíð gjöf Guðs og þar sem Pétur hafði játað að Jesús væri Kristur (hinn fyrirheitni frelsari, messías) þá hafði hann einnig játað að hann vildi vera í þjónustu hans. Pétur átti eftir að fá mikilvægt hlutverki í kirkjunni og þrátt fyrir veikleika sína gat Kristur notað hann (sbr. Vers 18-19).

Leggja má áherslu á að Jesús vill ekki fyrst og fremst fá að vita hvað öðrum finnst um sig heldur hvað okkur finnst. Höfum við komið auga á að Jesús er Kristur, sonur hins lifanda Guðs. Það er ekki nóg að við höfum bara einhverja skoðun á Jesú. Jesús spyr okkur hvort við viljum fylgja sér og gera sig að leiðtoga lífs okkar? Og hann vill nota okkur í ríki sínu þótt við séum ekki fullkomin frekar en Pétur.

Ástæða þess að Jesús vildi ekki að lærisveinarnir héldu því á lofti að hann væri Kristur (sbr. Vers 20), má rekja til þess að margir höfðu annars konar væntingar um messías, töldu að hann hlyti að vera voldugur herkonungur. Meira að segja lærisveinarnir höfðu ekki gert sér grein fyrir því til fulls, til hvers Jesús var kominn, að hann ætti eftir að líða og þjást á krossi, sbr. v. 21-28.

Samantekt

Í trúarjátningunni tökum við undir með Pétri postula að Jesús sé Kristur. „Ég trúi á Jesú Krist“ segjum við. Biðjum Guð um hjálp til að fylgja honum heilshugar.

Minnisvers

Þú ert Kristur, sonur hins lifanda Guðs. (Matt: 16:16)

Bæn

Við skulum þakka Guði fyrir að hann hefur sent okkur Jesú til að vera frelsari okkar og vinur. Í bæninni er við hæfi að biðja um hjálp til að játa trúna á hann í orði og verki.