Um samveruna

Hvað er það? […] það þýðir: Já, já, svo skal verða.

Markmið samverunnar

Markmið þessarar samveru er að spyrja um vilja Guðs og velta því fyrir okkur hvort við viljum í raun sjá vilja Guðs verða.

Biblíutexti

Sannlega, sannlega segi ég yður: Hvað sem þér biðjið föðurinn um í mínu nafni mun hann veita yður. Hingað til hafið þér einskis beðið í mínu nafni. Biðjið og þér munuð öðlast svo að fögnuður yðar verði fullkominn. Jóhannesarguðspjall 16.23b – 24

Hugleiðing

Orðið amen er stórmerkilegt orð. Upphaflega kemur það úr hebresku ( אָמֵן) það var síðan umritað yfir á forngrísku (ἀμήν) í Nýja testamentinu, síðan á latínu og þaðan hefur það borist inn í flest tungumál heimsins. Amen er því alþjóðlegt orð sem hefur djúpa merkingu í trúarlífi allra kristinna manna og einnig gyðinga. Orðið „amen“ er dregið af hebreska orðinu „aman“ (אָמַן), sem þýðir trúfesti eða trú. „Amen“ getur þess vegna merkt örugga vissu um að eitthvað verði. Það er eins konar yfirlýsing okkur um algjört traust. Þess vegna segjum við amen þegar við felum Guði bænir okkar. Þannig lýsum við því yfir að við treystum Guði og loforðum hans. Við lýsum því yfir að við viljum að vilji Guðs verði hér í heimi. En viljum við það alltaf? Erum við tilbúin að sætta okkur við bænasvar Guðs og jafnvel fá ekki það sem við þráum mest af öllu?

Oft er sagt að Guð svari bænum á þrjá vegu já, nei eða bíddu. Það er flestum auðvelt að sætta sig við já – ið, en nei og bíddu eru erfiðari viðfangs. Einu sinni var ungur strákur sem þráði ekkert annað en að eignast blátt 12 gíra fjallahjól. Hann bað Guð um að gefa sér hjólið, en ekkert bólaði á hjólinu. Strákurinn sagði frænda sínum frá bæn sinni. Frændinn hló af barnaskap stráksins og sagði: „Guð svarar ekki bænum.“ Strákurinn lét ekki segjast og hélt áfram að biðja fyrir hjólinu. Nokkrum vikum síðar spurði frændinn hvort Guð væri ekki búinn að gefa honum hjólið. Strákurinn svaraði: „Nei“ Þá sagði frændinn: „Ég sagði þér það! Guð svarar ekki bænum.“ „Jú víst!“ Svaraði strákurinn. „Hann sagði bara nei.“

Jesús sagði: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Hvað sem þér biðjið föðurinn um í mínu nafni mun hann veita yður. Hingað til hafið þér einskis beðið í mínu nafni. Biðjið og þér munuð öðlast svo að fögnuður yðar verði fullkominn.“ (Jóhannesarguðspjall 16.23 – 24)

Þegar við biðjum í Jesú nafni merkir það að við biðjum eftir vilja hans. Vilji hans er ekki alltaf sá sami og vilji okkar. Guð gerir nefnilega ekki bara eins og við viljum. Hann er ekki sjálfsali sem við stjórnum eða jólasveinn á himnum sem gefur okkur allt sem við girnumst. En vilji Guðs er hið góða, fagra og fullkomna (saman ber Rómverjabréfið 12.2). Amen okkar er staðfesting á því að við treystum vilja Guðs og viljum sjá hann verða í lífum okkar! Yfirlýsing okkar um að við þráum að sjá hið góða, fagra og fullkomna verða.

Hjálparefni

Sagan um Bjargfasta bóndann

Söguna má nálgast á efnisveitu Þjóðkirkjunnar á slóðinni http://kirkjan.is/efnisveita/node/1028.