Um samveruna

Hvað er það? Svar: Vér biðjum í þessari bæn, að faðirinn á himnum vilji eigi á synd vora líta né hennar vegna oss bænheyrslu synja – því að vér erum einskis þess makleg, sem vér biðjum um, og höfum ekki verðskuldað það – heldur að hann vilji gefa oss það allt af náð, því að daglega syndgum vér mikið og verðskuldum einbera hegningu. Svo viljum vér þá og aftur á móti af hjarta fyrirgefa og gera gott þeim er við oss misgera.

Markmið samverunnar

Fyrirgefning Guðs og náðargjöf hans, eru viðfangsefni þessarar samveru. Guð vill að börnin sem við ræðum við lifi í trausti til fyrirgefningar og náðargjafar hans. Þessari samveru er ætlað að hjálpa þeim að skilja hvað felst í fyrirgefningu Guðs.

Biblíutextar

Þá gekk Pétur til hans og spurði: „Drottinn, hve oft á ég að fyrirgefa bróður mínum ef hann misgerir við mig? Svo sem sjö sinnum?“  Jesús svaraði: „Ekki segi ég þér sjö sinnum heldur sjötíu sinnum sjö.

Því að líkt er um himnaríki og konung sem vildi láta þjóna sína gera skil. Hann hóf reikningsskilin og var færður til hans maður er skuldaði tíu þúsund talentur. Sá gat ekkert borgað og bauð konungur þá að hann skyldi seldur ásamt konu og börnum og öllu sem hann átti til lúkningar skuldinni. Þá féll þjónninn til fóta honum og sagði: Haf biðlund við mig og ég mun borga þér allt. Og herra þjónsins kenndi í brjósti um hann, lét hann lausan og gaf honum upp skuldina.

Þegar þjónn þessi kom út hitti hann einn samþjón sinn sem skuldaði honum hundrað denara. Hann greip hann, tók fyrir kverkar honum og sagði: Borga það sem þú skuldar! Samþjónn hans féll þá til fóta honum og bað hann: Haf biðlund við mig og ég mun borga þér. En hann vildi það ekki, heldur fór og lét varpa honum í fangelsi uns hann hefði borgað skuldina. Þegar samþjónar hans sáu hvað orðið var urðu þeir mjög hryggir og sögðu herra sínum allt sem gerst hafði. Konungurinn kallar þá þjóninn fyrir sig og segir við hann: Illi þjónn, alla þessa skuld gaf ég þér upp af því að þú baðst mig. Bar þér þá ekki einnig að miskunna samþjóni þínum eins og ég miskunnaði þér? Og konungur varð reiður og afhenti hann böðlunum uns hann hefði goldið allt sem hann skuldaði honum.

Þannig mun og faðir minn himneskur gera við yður nema þér fyrirgefið af hjarta hvert öðru.“ Mt 18.21-35

Jesús sagði líka dæmisögu þessa við nokkra þá er treystu því að sjálfir væru þeir réttlátir en fyrirlitu aðra: „Tveir menn fóru upp í helgidóminn að biðjast fyrir. Annar var farísei, hinn tollheimtumaður. Faríseinn sté fram og baðst þannig fyrir: Guð, ég þakka þér að ég er ekki eins og aðrir menn, ræningjar, ranglátir, hórkarlar eða þá eins og þessi tollheimtumaður. Ég fasta tvisvar í viku og geld tíund af öllu sem ég eignast.

En tollheimtumaðurinn stóð langt frá og vildi ekki einu sinni hefja augu sín til himins heldur barði sér á brjóst og sagði: Guð, vertu mér syndugum líknsamur! Ég segi yður: Tollheimtumaðurinn fór heim til sín sáttur við Guð, hinn ekki, því að hver sem upp hefur sjálfan sig mun auðmýktur verða en sá sem lítillækkar sjálfan sig mun upp hafinn verða.“ Lk 18.9-14

Að nálgast efni dagsins

  • Hægt er að fá ungmennin til að svara því hver sé besta gjöfin sem þau hafi fengið.
  • Eins má fá börnin til að ræða um hversu erfitt það sé að viðurkenna mistök (fyrri hluti bænarinnar kallar okkur til að viðurkenna misgjörðir).
  • Löngunin til að gera það sem rangt er, heimsækir okkur ekki öðru hvoru heldur býr með okkur. (Rm 3.23-24,28)

Hugleiðing

Hér fer best á því að segja dæmisöguna hér að neðan líkt og Jesús sagði hana og hún stendur skrifuð í Mt 18.23-35. Best fer á því að hún sé lesin beint upp úr Biblíunni en ekki úr boðunarheftinu.

Því að líkt er um himnaríki og konung, sem vildi láta þjóna sína gjöra skil. Hann hóf reikningsskilin, og var færður til hans maður, er skuldaði tíu þúsund talentur.

Sá gat ekkert borgað, og bauð konungur þá, að hann skyldi seldur ásamt konu og börnum og öllu, sem hann átti, til lúkningar skuldinni. Þá féll þjónninn til fóta honum og sagði: ,,Haf biðlund við mig, og ég mun borga þér allt. Og herra þjónsins kenndi í brjósti um hann, lét hann lausan og gaf honum upp skuldina.”

Þegar þjónn þessi kom út, hitti hann einn samþjón sinn, sem skuldaði honum hundrað denara. Hann greip hann, tók fyrir kverkar honum og sagði: ,,Borga það, sem þú skuldar!”Samþjónn hans féll þá til fóta honum og bað hann: ,,Haf biðlund við mig, og ég mun borga þér. En hann vildi ekki, heldur fór og lét varpa honum í fangelsi, uns hann hefði borgað skuldina.”

Þegar samþjónar hans sáu, hvað orðið var, urðu þeir mjög hryggir og sögðu herra sínum allt, sem gjörst hafði. Konungurinn kallar þá þjóninn fyrir sig og segir við hann: ,,Illi þjónn, alla þessa skuld gaf ég þér upp, af því að þú baðst mig. Bar þér þá ekki einnig að miskunna samþjóni þínum, eins og ég miskunnaði þér?” Og konungur varð reiður og afhenti hann böðlunum, uns hann hefði goldið allt, sem hann skuldaði honum.

Þannig mun og faðir minn himneskur gjöra við yður, nema hver og einn yðar fyrirgefi af hjarta bróður sínum.

Framhaldssaga – Við Guð erum vinir

  • Fíll í bílskúrnum bls. 45-50

Söngvar

  • Ef ég í dag…
  • Frelsarinn góði