Ritningartexti: Sálmur 8

Áhersluatriði

Guð kallar okkur til ábyrgðar gagnvart sköpunarverkinu.

Um textann

Guð hefur kallað okkur til að bera ábyrgð á sköpunarverkinu. Við erum kölluð til að viðhalda lífi og vernda sköpunarverk Guðs, en á sama tíma er okkur ætlað að nýta þær gjafir sem Guð hefur gefið okkur í sköpun sinni. Sumir telja að þessi tvö verkefni sem Guð hefur falið okkur séu á stundum í andstöðu hvort við annað. Svo er þó alls ekki. Við erum kölluð til að nýta jörðina á þann hátt að hún nái að endurnýjast. Það þýðir að við tökum ekki meira af sköpunarverkinu en svo að það nái að viðhalda sér.

En það að bera ábyrgð á sköpunarverkinu og leitast við að nýta sköpun Guðs á sjálfbæran og jákvæðan hátt snýst ekki einvörðungu um náttúruna. Það snýr líka að okkur sjálfum, hverju og einu. Við erum öll dýrmæt sköpun Guðs og við erum uppfull af hæfileikum og gáfum sem Guð hefur gefið okkur. Við þurfum líka að nýta þær gjafir Guðs á góðan hátt.

Popptenging

Kvikmyndin Konungur ljónanna

Kvikmyndin Konungur ljónanna er væntanleg í kvikmyndahús á ný, að þessu sinni í þrívídd. Glíma Simba við hlutverk sitt, köllun sína er frábært skot til að opna umræður um gjafir Guðs og hlutverk okkar. Atriðið þegar Simbi horfist í augu við köllun sína er á 53-100 mínútu. Myndina um „Konung ljónanna“ er einnig hægt að nota sem tengingu í fræðslustundinni um ábyrgð.

Verkefni

Partýhattar

Partýhattar úr dagblöðum er einfalt og skemmtilegt „endurvinnsluverkefni“. Þetta er mjög einfalt brot sem er auðlært. Hægt er að bjóða börnunum/unglingunum að skreyta hattinn með litum.

Hvað geri ég vel

Fá börnin/unglingana til að standa upp og segja hópnum eitthvað eitt sem þeim þykir skemmtilegt að gera. Þegar öll börnin/unglingarnir hafa sagt frá. Þá er farið í annan hring og börnin/unglingarnir eiga að segja frá einhverju sem þau gera vel. Það getur verið hvað sem er, s.s. að raða í uppþvottavél, spila fótbolta, leika í Lego, hjálpa foreldrum sínum, læra stærðfræði, lesa eða syngja.

Fundarefni

Á þessum fundi er gott tækifæri til að fá gest(i) í heimsókn til að tala um köllun sína í lífinu. Það getur verið einstaklingur sem talar um vinnuna sína sem læknir, lögfræðingur, sjúkraflutningamaður, lögregla, slökkviliðsmaður, hjúkrunarfræðingur, kennari eða verkfræðingur svo dæmi sé tekið.

Eins væri möguleiki á að fá í heimsókn einhvern sem getur sagt frá áhugamáli sínu eða félagsskap sem viðkomandi tilheyrir, s.s. Gídeonfélaginu eða öðrum góðgerðarsamtökum.