Ritningartextar: 3. Mós 19.37 og Jós. 1.8-9

Áhersluatriði

Heimurinn er fullur af hvers kyns reglum. Guð hefur gefið sínar reglur, boðorðin til að hjálpa okkur að lifa lífinu eins og Skapari alls lífs vill að við lifum því.

Um textann

Við lifum í heimi sem er fullur af reglum sem við þurfum að fara eftir. Dæmi um reglur eru boðorðin 10, umferðareglur, reglur í íþróttum, samskiptareglur og jafnvel reglur um klæðaburð. Hvaðan koma þessar reglur og af hverju eru þær settar? Hvað gerist þegar reglur eru brotnar? Hvernig væri reglulaus fótbolti, nú eða Ólsen, Ólsen?

Í textunum í dag er talað um lög og lögmálsbók. Þar kemur fram að Guð setur reglur og leiðbeinir um hvað felst í farsælu lífi. Ef ekki væru neinar reglur um hvað má og hvað ekki, myndum við lifa við stöðugt óöryggi. Biblían hefur að geyma ýmsar leiðbeiningar og reglur um hvað felst í góðu lífi. Þekktustu reglur Biblíunnar eru kallaðar Boðorðin 10 og Gullna reglan í Nýja Testamentinu.

Texti dagsins hvetur okkur til að hugleiða reglur Guðs dag og nótt. Við erum hvött til að kynna okkur hvernig Guð vilji að maðurinn lifi lífi sínu. Þessari hvatningu fylgir fyrirheit um að ef við fylgjum vilja Guðs, þá munum við njóta gæfu á vegum okkar. Þessu fyrirheiti fylgir síðan loforð um að Guð sé með í öllu.

Þegar við ræðum saman um vilja Guðs vakna ýmsar spurningar. Hvað afleiðingar hefur það að hafa vilja skaparans að engu? Liggur vilji Guðs alltaf ljós fyrir? Hvernig getum við verið viss um vilja Guðs? Eru kristnir menn og konur alltaf sammála um hver vilji Guðs sé?

Hér getur verið tækifæri til að leyfa börnunum að varpa fram sínum eigin hugsunum.

Popptenging

„Lagið um það sem er bannað“

Notast má við Lagið um það sem er bannað og texta Sveinbjörns I. Baldvinssonar. Hægt er að setja textann upp á glæru á meðan lagið er spilað. Að því loknu má notast við neðangreindar spurningar.

  • Hafa foreldrar rétt á að setja börnum sínum reglur? Af hverju/af hverju ekki?
  • Nefnið dæmi um reglur sem foreldrar setja. Eru þær alltaf réttlátar?
  • Hvaða tilgangi þjóna lög á Íslandi (t.d. Hegningarlög, umferðarlög o.s.frv.)?
  • Hvaðan koma lög á Íslandi? Hver setur þau og af hverju?

Leikur

Klappkonungurinn

Í þessum leik geta verið þrír eða fleiri þátttakendur. Allir sitja í kringum borð og krækja handleggjunum saman. Síðan eru allir lófar lagðir á borðið. Einn byrjar á því að klappa á borðið með einni hönd og segir í hvaða átt klappið á að fara. Næsta hönd á að klappa einu sinni o.s.frv. Ef klappað er tvisvar sinnum með sömu hönd snýr hringurinn við. Ef einhver klappar vitlaust er hann úr leik með þá hönd sem klappaði vitlaust. Höndin sem er eftir verður klappkonungurinn.