Texti: Lk 15.11-32

Áhersluatriði

Fjölskyldan er staður þar sem við tökum á okkur sameiginlegar skyldur og eigum alltaf að geta fengið fyrirgefningu og skjól frá áföllum lífsins. Jafnvel ef áföllin eru sjálfsköpuð.

Um textann

Það er hægt að nálgast sögur Biblíunnar frá fjölmörgum hliðum. Sagan um týnda soninn er ein þeirra. Fyrir um 15-20 árum færðist áherslan í fræðslu KFUM og KFUK af óábyrga yngri syninum og yfir á viðbrögð eldri sonarins. Þegar flett er í gegnum eldra fræðsluefni, þar sem sagan er til umfjöllunar má sjá þessa þróun fremur glöggt. Hver ástæða þessarar áherslubreytingar var, er kannski ekki auðvelt að segja. Það er ekkert rangt eða slæmt við svona breytingar. Mismunandi persónur tala til okkar á mismunandi vegu á mismunandi tímum.

Að þessu sinni er áherslan í fræðsluefninu ekki á yngri syninum eða þeim eldri, heldur á fjölskyldunni. Sagan minnir okkur á hvað felst í að vera fjölskylda, þó báðir bræðurnir í sögunni gleymi því reyndar um tíma. Orðið fjölskylda er skemmtilega gagnsætt orð, fjöl- annars vegar, -skylda hins vegar. Fjölskyldan er vettvangur þar sem við höfum skyldur gagnvart hvort öðru, berum ábyrgð á líðan hvors annars, leitumst við að virða og vernda hvort annað. Fjölskylda er staður fyrir kærleika og fyrirgefningu.

Sagan um týnda soninn segir frá því að yngri sonurinn gleymdi hvað fólst í að vera fjölskylda. Hann ákvað að yfirgefa skyldur sínar gagnvart föður sínum og bróður. Hann hélt af stað til að fara einn, sér og sjálfur, ábyrgðarlaus og „frjáls.“ Hann fann hins vegar fljótlega að líf án fjölskyldu, án ábyrgðar, var ekki gott líf. Vissulega bar hann enga ábyrgð á neinu, en á sama tíma bar enginn ábyrgð á honum. Hann var einn. Þegar hann uppgötvaði þetta, ákvað hann að freista þess að koma heim aftur og vonaði e.t.v. að pabbi sinn gæti borið ábyrgð á sér á ný, þó sagan gefi til kynna að yngri sonurinn hafi ekki endilega viljað taka á sig aftur skyldur fjölskyldunnar.

Á sama hátt gleymdi eldri sonurinn að ein af fjölmörgum skyldum fjölskyldna er að fyrirgefa, virða og reisa við að nýju. Hann gleymdi að jafnvel þó litla bróður hafi orðið á, þá dró það ekki úr eða felldi úr gildi fjölskylduna. Til að fjölskylda standi undir nafni þá þurfum við að muna að skyldur okkar gagnvart hvort öðru hverfa aldrei.

Þegar við tölum um fjölskyldur í kristnu samhengi er mikilvægt að muna kennslu Jesú um að skyldur okkar gagnvart fjölskyldunni eru víðtækari en bara gagnvart þeim sem eru líffræðilega tengd okkur. Jesús útvíkkar skyldur fjölskyldunnar til alls mannkyns, allra sem sköpuð eru í Guðs mynd, allra barna Guðs.

Verkefni

Það er skemmtilegt verkefni að fá börnin/unglingana til að skrifa þakkarbréf eða teikna mynd sem hægt er að senda til foreldris/foreldra. Það gefur verkefninu aukið gildi ef leiðtogar taka við bréfunum og setja í póst, í stað þess að senda börnin/unglingana með það heim eftir fundinn. Hægt er að fá skrifstofu KFUM og KFUK á Íslandi til að póstleggja bréfin.

Fundarefni – Jól í skókassa

Verkefnið „Jól í skókassa“ þarf ekki að kynna. Auðvelt er að tengja verkefnið við áhersluna á að Jesús talaði um öll börn Guðs sem hluta af fjölskyldu okkar.

Frásögn – Vitlaust mark

Frásögnin er úr bókinni A Little Phrase for Losers eftir Haddon Robinson og birtist í Christianity Today, 26. október, 1992. Hún kom út í íslenskri þýðingu á vef kirkjunnar: http://www.kirkjan.is/kirkjustarf/?unglingastarf/sogur/vitlaust_mark.

1. janúar 1929 léku háskólaliðin Georgia Tech og UCLA úrslitaleik um Rósabikarinn í ameríska fótboltanum. Einn leikmanna UCLA, Roy Riegels, ruglaðist eitthvað í ríminu eftir að hafa lent í tæklingu og tók að hlaupa með boltann í átt að eigin marki. Hann hljóp heila sextíu og fimm metra áður en samherji hans, Benny Lom, náði að kasta sér á hann og fella hann við marklínuna. Að öðrum kosti hefði Roy skorað sjálfsmark. Leikmönnum UCLA tókst ekki að koma boltanum framar á völlinn í fyrri hálfleik. Þess í stað náðu leikmenn Georgia Tech boltanum og skoruðu.

Í hálfleik spurðu áhorfendur sig, „Hvað mun þjálfari UCLA, Nibbs Price, gera við Roy Riegels í síðari hálfleik?“ Allir leikmennirnir gengu til búningsherbergja og settust á bekkina, nema Roy. Hann vafði teppi utan um sig, settist niður í einu horninu, faldi andlitið í lófum sér og grét eins og barn.

Venjulega láta þjálfarar dæluna ganga og láta leikmenn heyra það í hálfleik ef illa gengur. En nú var Nibbs þjálfari orðlaus. Hann var sennilega að hugleiða hvað hann ætti að gera við Roy. Þá kom tímavörður og tilkynnti að síðari hálfleikur ætti að hefjast eftir þrjár mínútur. Þjálfarinn leit á leikmennina og sagði, „Við byrjum síðari hálfleik með óbreytt lið.“

Leikmennirnir stóðu á fætur og hlupu út, allir nema Roy. Hann sat grafkyrr. Þjálfarinn kallaði á hann og sagði honum að koma, en hann hreyfði sig ekki. Nibbs gekk þá að Roy og sagði, „Heyrðirðu ekki hvað ég sagði? Við ætlum að byrja síðari hálfleik með óbreytt lið.“ Roy Riegels leit nú upp og Nibbs sá að þessi sterkbyggði maður var útgrátinn.

„Þjálfari, ég get ekki spilað síðari hálfleik,“ sagði Roy. „Ég hef eyðilagt allt fyrir þér og Kaliforníuháskóla. Ég hef líka eyðilagt allt fyrir sjálfum mér. Ég get ekki horfst í augu við áhorfendur til að bjarga eigin skinni.“
Þjálfarinn klappaði Roy á öxlina og sagði, „Drífðu þig nú á fætur. Leikurinn er bara rétt hálfnaður. “ Og Roy Riegels lék síðari hálfleikinn. Þú getur spurt leikmenn Georgia Tech ef þú trúir mér ekki, en þeir hafa aldrei séð leikmann leika eins vel og Roy gerði í síðari hálfleik.

Nálgun:

Náð Guðs er eins og þjálfari Roys. Stundum finnst okkur við hafa klúðrað hlutunum svo illa að okkur langar mest til að hætta og fara heim. Guð gefur okkur þó ekki upp á bátinn. Hann segir, „Drífðu þig nú á fætur. Leikurinn er bara hálfnaður.“ Fagnaðarerindið um náð Guðs er fagnaðarerindi nýrra tækifæra. Við ruglumst stöðugt í ríminu en Guð tekur okkur aldrei útaf. Þess í stað hvetur hann okkur til dáða.