Ritningartexti: Lk 19.1-10

Áhersluatriði

Jesús kemur fram af virðingu við allar manneskjur. Öll höfum við rétt á að það sé komið fram við okkur af virðingu. Í þeim rétti felst sú skylda að koma fram við aðra af virðingu.

Um textann

Sagan af Sakkeusi er ein af fjölmörgum sögum guðspjallanna þar sem Jesús á í samskiptum við fólk sem fæstir komu fram við af virðingu. Í sögunni, eins og hún er sögð í Lúkasarguðspjalli er Jesús á leið til borgarinnar Jeríkó og mikill mannfjöldi safnast í kringum hann, til að heyra orð hans og verða vitni að kraftaverkum.

Tollheimtumaðurinn Sakkeus bjó í Jeríkó. Hann var fremur lítill vexti og átti erfitt með að sjá Jesús í gegnum mannfjöldann. Hann greip til þess ráðs að príla upp í tré til að geta litið Jesú augum. Starf Sakkeusar var ekki vinsælt eða virt starf, hann innheimti skatta fyrir erlent stórveldi og var sjálfsagt álitinn svikari í augum landa sinna. Í frásögu Lúkasar er einnig gefið í skin, en ekki sagt berum orðum, að Sakkeus hafi misnotað stöðu sína og innheimt meiri skatt en efni stóðu til. Mismuninum hafi hann stungið í eigin vasa.

Jesús veitti Sakkeusi athygli þar sem hann sat í trénu, gekk að honum og ávarpaði hann. Fólkinu í kring og kannski ekki síst Sakkeusi til mikillar furðu. Jesús sagðist vilja heimsækja Sakkeus. Því átti Sakkeus ekki von á. Hann var vanari svívirðingum og skömmum, en góðlegri beiðni og vinahótum.

Heimsókn Jesú til Sakkeusar breytti hegðun Sakkeusar. Hann lofaði því að virða þá sem í kringum sig væru, hætta að okra og stela og gefa hverjum þeim margfalt til baka það sem hann hafði svikið.

Popptenging

Susan Boyle

Saga Susan Boyle úr þættinum „Britians Got Talent“ er dæmi um manneskju sem nýtur ekki mikillar virðingar og er litið niður á. Það breytist þegar hún byrjar að syngja. Allt í einu er hún frábær. Er þetta falleg framkoma hjá þáttagerðamönnunum? Hægt er að nálgast atriðið á http://youtu.be/X9whxWNI7bE.

Leikur

Gegnum tollinn

Þegar rætt er um Sakkeus er leikurinn að komast í gegnum tollinn stórfínn.

Jákvæðar strokur

Það er skemmtilegt verkefni að hengja blað aftan á bak allra barnanna/unglingana og gefa hópnum það verkefni að skrifa eitthvað jákvætt og fallegt um manneskjuna sem hefur blaðið á bakinu. Í smærri hópum er hægt að láta alla skrifa eitthvað eitt hjá öllum hinum.

Mikilvægt er í stærri hópum að fylgjast með að eitthvað sé skrifað hjá öllum.