Ritningartexti: Jesaja 49.15-16a
Hvort fær kona gleymt brjóstbarni sínu að hún miskunni eigi lífsafkvæmi sínu?
Og þó að þær gætu gleymt þá gleymi ég þér samt ekki.
Ég hef rist þig í lófa mér,
múra þína hef ég sífellt fyrir augum.

Markmið

Guð elskar ALLA sköpun sína. Ekki bara aðra og ekki bara mig og/eða þig. Guð elskar ALLA sköpun sína og gleymir aldrei.

Um textann

Guð gleymir okkur aldrei. Guð elskar sköpun sína og ber líf okkar fyrir brjósti. Einhverjum gæti fundist að sjálfstraust og hógværð fari illa saman en hið gagnstæða á við. Ef við búum ekki yfir fullvissunni um ást Guðs til okkar, lifum við stöðuglega við þörfina til að sanna okkur, sýna sjálfstraust og yfirburði. Fullvissan um elsku Guðs hjálpar okkur til að losna undan þörfinni fyrir viðurkenningu og aðdáun annarra, gerir okkur mögulegt að koma fram af auðmýkt og hógværð, vitandi að mælikvarði annarra stjórnar ekki hver við erum.

Fræðimenn hafa sagt að lífið snúist um að fá þremur þörfum fullnægt eða öllu heldur þremur spurningum svarað.

  • Elskar mig einhver?
  • Vill einhver leika við mig?
  • Get ég gert gagn?

Svörin við öllum þessum spurningum eru grundvallandi í lífi og starfi kristinnar kirkju. Við erum elskuð af Guði. Við erum kölluð til að eiga í samfélagi hvort við annað. Við erum kölluð til að gefa innsýn í Guðs ríki á jörðu í samskiptum við aðra, endurspegla ást Guðs gagnvart allri sköpun sinni.

Þegar við tölum um valdeflingu (e. empowerment) þá hljótum við að horfa til þessara þátta fyrst og fremst. Þ.e. hjálpa öðrum að svara spurningunum þremur.

  • Já, Guð elskar mig.
  • Já, við erum hérna saman.
  • Já, við eigum að vera litlir „Jesúsar.“

Najac – Að skipta (ekki) máli

Það er búið að vera erfitt eftir „atburðinn sem breytti öllu“. Allir í kringum Najac eru hræddir, óvissan er mikil. Samkenndin og vináttan sem ríkti fyrst, virðist vera að hverfa. Félagar Najac eru orðnir pirraðri en áður og í gær þegar Najac lýsti fyrir þeim tilhlökkun sinni að komast brátt heim til mömmu sinnar, hreytti einn þeirra út úr sér: „Hættu þessu rugli. Mamma þín sendi þig hingað til höfuðborgarinnar að losna við þig. Þú varst byrði á henni og líkt og hún losar sig við ruslið út á hauga, henti hún þér hingað. Henni er alveg sama. Þú ferð aldrei aftur heim. Þú ert bara rusl.“

Najac hugsaði um fólkið í kringum sig. Hann hafði ekki séð litlu frænku sína síðan hann flúði á götuna. Ekki þótti ættingjunum mikið til hans koma. Verksmiðjustjórinn hafði ekki talið hann mikils virði. Kennarinn hafði sýnt honum væntumþykkju, en enginn virtist hafa séð kennarann eftir „atburðinn sem breytti öllu.“ Najac hugsaði um hver myndi eiginlega eftir sér, væri hann e.t.v. gleymdur öllum. Skyldi feiti fótboltamaðurinn frá fyrirheitna landinu muna eftir honum, varla. Tannlæknirinn væri líklega búin að gleyma honum. Ferðalangurinn og hitt starfsfólkið í skólanum, ef það var þá á lífi, hafði um mikilvægari hluti að hugsa en Najac. Það var óþægilegt að hugsa svona, kannski höfðu strákarnir rétt fyrir sér. Najac vissi ekki hvað hann átti að halda. Eftir að hann fór frá ættingjunum og flutti á götuna hafði hann ekkert heyrt frá mömmu sinni. Það voru eftir allt komnir rúmlega 6 mánuðir og svo margt hafði gerst.

Najac vissi að hann mátti ekki glata voninni, en það var bara svo erfitt. Hann varð að halda áfram. Hann varð að komast heim til mömmu.

Popptenging

Christina Aguilera – Beautiful

Fjölmörg popplög eru til sem geta hentað til að ræða um að við erum öll dýrmæt og elskuð sköpun Guðs. Ákall Christina Aguilera, þar sem hún biður viðmælanda sinn um að gera ekki litið úr sér, því hún sé falleg á allan hátt og segir slíkt hið sama við viðmælanda sinn, er gott innlegg. Myndbandið hér að ofan hefur sterka vísun til lystarstols og samkynhneigðar sem gæti virkað stuðandi á einhvern.

Maria Aragon – Born this way (cover á Lady Gaga lagi)

Born This Way með Lady Gaga gæti einnig hentað sérstaklega eldri þátttakendum. Útgáfa Maria Aragon er mjög hentug til að fjalla um textann sem er um margt góður til að minna á að við erum dýrmæt sköpun Guðs, sama hver húðlitur, kyn, kynhneigð eða uppruni er. Ástæða er til að benda á að opinbera myndbandið á Youtube með því lagi hentar ekki til flutnings í starfi KFUM og KFUK. Ef þú vilt notast við Lady Gaga sjálfa er flutningur lagsins á tónleikunum “A Very Gaga Thanksgiving” mun hentugri (sjá hér: http://www.youtube.com/watch?v=JLmMsQsp5ZM).

Rebecca Black – My Moment

Saga Rebecca Black ætti ekki að hafa farið fram hjá neinum á netinu. Rebecca gaf út á Youtube myndband með laginu „Friday“ í febrúar 2011 og í mars það sama ár vakti lagið gífurlega athygli og hefur í dag verið skoðað ríflega 200 milljónum sinnum. Athyglin sem lagið fékk byggði að hluta til á því að mjög vinsælt var að gera lítið úr hæfileikum söngkonunnar og virtir fjölmiðlar eins og BBC á Bretlandi, ABC í Ástralíu og Los Angeles Times töluðu um versta lag allra tíma, sem verða að teljast harkaleg viðbrögð gagnvart 14 ára stelpu, enda hefur Rebecca sjálf bent á að það hversu ömurlegt það er að upplifa niðurlægingu eða einelti (e. bullying) vegna þess að hún lét drauma sína rætast. Hún segist samt ekki ætla að láta það stoppa sig.

Lagið „My Moment“ er svar Rebeccu við árásunum. Enda er hún í dag orðin stórstjarna í Bandaríkjunum þrátt fyrir neikvæðnina í sinn garð.

Ítarefni

Vika gegn rasisma

Í flestum deildum fellur samvera 11 inn í Evrópuviku gegn kynþáttahatri eða rasisma. Við hvetjum leiðtoga til að skoða hvernig hægt er að hvetja þátttakendur í starfinu til að berjast gegn mismunun og kynþáttahatri hvar sem það birtist. Nánari upplýsingar um vikuna má fá á vefsíðunni: http://www.unitedagainstracism.org/pages/infoARW_12.htm.