Ritningartexti: Fil. 3.10-14

Ég vil þekkja Krist og kraft upprisu hans, ég vil þjást með honum og líkjast honum í dauða hans. Mætti mér auðnast að ná til upprisunnar frá dauðum. Ekki er svo að ég hafi þegar náð því eða sé þegar fullkominn. En ég keppi eftir því ef ég skyldi geta höndlað það, með því að ég er höndlaður af Kristi Jesú. Systkin, ekki tel ég sjálfan mig enn hafa höndlað það. En eitt geri ég. Ég gleymi því sem að baki er en seilist eftir því sem fram undan er og keppi þannig að markinu, til verðlaunanna á himnum, sem Guð hefur í Kristi kallað okkur til.

Markmið

Guð kallar okkur til að leggja okkur fram, gera okkar besta. Guð hefur gefið okkur hæfileika sem við eigum að nýta til fullnustu.

Um textann

Páll stofnaði kirkjuna í Filippí. Hann hafði verið fangelsaður vegna trúar sinnar á Krist. Hann hafði skrifað ótal bréf og ferðast um heiminn til að boða Guð. En hann vissi sem var að það sem hann hafði gert kæmi honum ekki til himna. Hann vissi líka að það sem hann átti eftir að afreka í lífinu kæmi honum ekki til himna. Himnaríki stendur okkur opið vegna elsku Guðs til okkar, ekkert annað opnar leiðina til Guðs.

Páll þráði að skilja eða öllu heldur þekkja elsku Guðs. Hann vissi vel að hann mundi aldrei elska heiminn eins og Guð elskar sköpun sína, en Páll vildi reyna. Hann vildi leitast við að líkjast Jesú Kristi. Þessi þrá hans eftir að elska eins og Guð var ekki vegna þess að hann langaði til himna, heldur vegna þess að hann vissi að hann ætti eilíft líf á himnum.

Í þrá okkar eftir að elska eins og Guð einn getur elskað, þá þýðir ekkert að festast í misgjörðum fortíðar. Við þurfum að horfa fram á veginn, en megum ekki hafa sífelldar áhyggjur af því sem bregður fyrir í baksýnisspeglinum.

Páll vissi að áhyggjur fortíðar geta komið í veg fyrir að við elskum aðra. Áhyggjur af höfnun eða því að valda vonbrigðum geta komið í veg fyrir að elskan fljóti óáreitt. Þess vegna er mikilvægt að stefna áfram að markinu, en festast ekki í fortíðinni.

Najac – Að gera það sem rétt er

Najac vaknaði og leit í kringum sig. Hann hafði sofnað á stórum grasfleti umkringdur af fólki. Eftir að hafa ekki fundið neinn við skólann kvöldið áður ákvað hann að fylgja mannfjöldanum inn á opið svæði rétt ofan við höfuðborgina. Hann svaf vel þessa nótt, honum fannst öryggi í að vita af fólkinu allt í kringum hann. Hann skynjaði samkennd og langt fram eftir nóttu hafði hann heyrt fólkið syngja saman í litlum hópum.

Najac átti hálft brauð í vasanum og ákvað að byrja daginn á að fá sér góðan bita. Það var líka ekki ljóst hvernig eða hvenær hann finndi mat næst. Þegar hann hafði fengið sér af brauðinu gekk Najac af stað. Það var alls konar fólk samankomið á þessum stað. Eftir skamma stund rakst hann á nokkra stráka sem hann kannaðist við. Þeir höfðu notað peysurnar sínar til að búa til tvö mörk og spiluðu fótbolta mitt í mannfjöldanum. Najac ákvað að skella sér með í leikinn.
Þegar þeir höfðu spilað nokkra stund tóku þeir eftir manni sem stóð álengdar og fylgdist með þeim. Hann virtist vera frá fyrirheitna landinu. Það sást á fötunum sem hann var í, og kannski ekki síst á því hvernig hann leit út. Maðurinn virtist aldrei hafa þurft að neita sér um mat.

Það var samt útgangurinn á honum sem Najac tók helst eftir. Hann var skítugur, illa hirtur, skyrtan hans var óhreinn og honum leið illa, var hræddur. Najac rifjaði upp samtal kennarana. Kannski var þetta einn af þeim sem hélt sig eiga allt og átti enga von, enga drauma um eitthvað betra, eitthvað meira. Kannski átti hann enga þrá eftir réttlæti, kannski hafði hann týnt sjálfum sér og tók ekki eftir eigin útliti.

Najac ákvað að bjóða manninum með í leikinn og sparkaði boltanum til hans. Maðurinn tók boltann og hélt honum á lofti um stund, sparkaði boltanum til baka og gekk yfir til þeirra. Najac kunni ekki tungumál fyrirheitna landsins og maðurinn talaði ekki málið þeirra. En skyndilega skipti það ekki máli. Maðurinn brosti og hló yfir að fá að vera með, þeir bentu honum á í hvoru liðinu hann ætti að spila og leikurinn hélt áfram. Hann var vissulega feitur og mikill en hann hélt boltanum vel og strákarnir leyfðu honum að sóla sig fram hjá þeim, enda var hann svo hægur að þeir náðu honum alltaf aftur. Najac sá hvernig dró úr spennunni og hræðslunni í andlitsdráttum mannsins og þegar leið á leikinn sá Najac hvernig augu mannsins lifnuðu við.

Najac gladdist yfir því að geta glatt mann sem virtist án vonar, án framtíðar og þegar maðurinn þakkaði fyrir sig og gekk á braut ákvað Najac að gefa honum afganginn af brauðinu sínu. Najac vissi sem var að hann gæti bjargað sér, en maðurinn frá fyrirheitna landinu þyrfti alla þá hjálp sem hann gæti fengið.

Popptenging

VW auglýsingin Mátturinn: Stjörnustríð

http://www.youtube.com/watch?v=R55e-uHQna0

Í Stjörnustríðsmyndunum snýst allt um að ná valdi á mættinum, kraftinum sem stýrir alheiminum. Þó ópersónulegur máttur Stjörnustríðsmyndanna sé ekki samrýmanlegur við þann persónulega Guð sem skapar og frelsar, þá minnir myndbandið á mikilvægi þess að einbeita sér og gefast ekki upp þrátt fyrir að ekkert virðist virka í fyrstu.