Ritningartexti: Lk 15.11-32

Enn sagði Jesús: „Maður nokkur átti tvo sonu. Sá yngri þeirra sagði við föður sinn: Faðir, lát mig fá þann hluta eignanna sem mér ber. Og faðirinn skipti með þeim eigum sínum. Fáum dögum síðar kom yngri sonurinn eigum sínum í verð og fór burt í fjarlægt land. Þar sóaði hann fé sínu í óhófsömum lifnaði. En er hann hafði öllu eytt varð mikið hungur í því landi og hann tók að líða skort. Fór hann þá og settist upp hjá manni einum í því landi. Sá sendi hann út á lendur sínar að gæta svína og hefði hann feginn viljað seðja sig á drafinu er svínin átu en enginn gaf honum.

En nú kom hann til sjálfs sín og sagði: Hve margir eru daglaunamenn föður míns og hafa gnægð matar en ég ferst hér úr hungri! Nú tek ég mig upp, fer til föður míns og segi við hann: Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn. Lát mig vera sem einn af daglaunamönnum þínum.

Og hann tók sig upp og fór til föður síns. En er hann var enn langt í burtu sá faðir hans hann og kenndi í brjósti um hann, hljóp og féll um háls honum og kyssti hann. En sonurinn sagði við hann: Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn. Þá sagði faðir hans við þjóna sína: Komið fljótt með hina bestu skikkju og færið hann í, dragið hring á hönd hans og skó á fætur honum. Sækið og alikálfinn og slátrið, við skulum eta og gera okkur glaðan dag. Því að þessi sonur minn var dauður og er lifnaður aftur. Hann var týndur og er fundinn. Tóku menn nú að gera sér glaðan dag.
En eldri sonur hans var á akri. Þegar hann kom og nálgaðist húsið heyrði hann hljóðfæraslátt og dans. Hann kallaði á einn piltanna og spurði hvað um væri að vera. Hann svaraði: Bróðir þinn er kominn og faðir þinn hefur slátrað alikálfinum af því að hann heimti hann heilan heim.

Þá reiddist eldri bróðirinn og vildi ekki fara inn. En faðir hans fór út og bað hann koma. En hann svaraði föður sínum: Nú er ég búinn að þjóna þér öll þessi ár og hef aldrei breytt út af boðum þínum og mér hefur þú aldrei gefið kiðling að ég gæti glatt mig með vinum mínum. En þegar hann kemur, þessi sonur þinn sem hefur sóað eigum þínum með skækjum, þá slátrar þú alikálfinum fyrir hann. Faðirinn sagði þá við hann: Barnið mitt, þú ert alltaf hjá mér og allt mitt er þitt. En nú varð að halda hátíð og fagna því að hann bróðir þinn, sem var dauður, er lifnaður aftur, hann var týndur og er fundinn.“

Markmið

Markmið þessarar samveru er að fá þátttakendur til að hugsa um elsku Guðs og hvernig við sjáum okkur sjálf í ljósi þess að Guð elskar okkur.

Um textann

Dæmisögur Jesú eru magnaðar. Við erum samtímis enginn og allir í sögunni. Við höfum e.t.v. staðið í sporum vinanna í borginni. Tekið þátt í góðu partýi en látið okkur snarlega hverfa áður en kom að tiltekt. Það er auðvelt að setja sig í spor eldri bróðurins, sem reiðist vegna þess að öðrum er fyrirgefið án þess að þeir hafi unnið sér fyrir því. Við höfum öll upplifað okkur fjarlæg frá Guði einhvern tímann og getum séð okkur í augum yngri sonarins. Við getum líka velt fyrir okkur hvernig við myndum bregðast við í sporum föðurins.

Samtal milli mismunandi persóna í sögunni er erfitt og næstum ómögulegt. Í dæmisögunni festast sögupersónurnar í eigin hugmyndum um hvernig hlutirnir eru eða eiga að vera. Yngri syninum finnst að faðir sinn eigi að taka á móti sér á ákveðinn hátt. Sömuleiðis hefur eldri sonurinn sínar eigin hugmyndir um framvindu mála. Það er aðeins með því að ræða saman sem við getum færst á nýjan stað, haldið lífinu áfram við nýjar aðstæður.

Ástæða þess að sagan sem stundum er kölluð „Týndi sonurinn“ er aftur í efninu á þessum vetri, en hún var notuð í fræðsluefninu fyrir jól, er að spegla viðbrögð föðurins við möguleg viðbrögð móðurinnar í frásögunni um Najac hér á eftir. Sagan hér að neðan skilur eftir spurningu fyrir þátttakendur. Hvernig viðbrögð fær Najac þegar hann kemur á ný heim í þorpið sitt og hittir (eða hittir ekki) móður sína?

Hér er mjög mikilvægt að hjálpa þátttakendum að greina og sjá hvað er líkt og hvað ólíkt með sögunum tveimur. Þar má nefna sérstaklega ástæðu þess að Najac yfirgefur heimili sitt og ástæðu þess að yngri sonurinn ákvað að fara.

Mikilvægur hluti fræðslunnar á þessari samveru er að semja endi á söguna um Najac. Hvað gerist þegar hann loks kemur í þorpið sitt. Þegar þátttakendur hafa komið sér saman um endi má ræða um hvers vegna endirinn sé á þann veg sem þau komu sér saman um. Ef ástæða er til má jafnframt velta fyrir sér hvort að endirinn sem þau semja og velja geti kennt okkur eitthvað um Guð.

Najac – Heimkoman

Stundum gerist eitthvað óskiljanlegt. Í dag á markaðnum fékk Najac vinnu við að flytja kassa af pallbíl inn í sölutjald. Þegar verkefninu var rétt um það bil að ljúka, spurði bílstjórinn á bílnum hvort Najac væri ekki frá þorpi upp á sléttunni. Þegar Najac svaraði játandi, sagði bílstjórinn honum að þar væri næga vinnu að fá fyrir duglega stráka. Hjálparsamtök hefðu mætt á svæðið, með iðnkennslu og stutt marga af íbúunum við að koma sér upp smáfyrirtækjum og í tengslum við það væri margvíslega vinnu að fá, t.d. við að koma vörum á markaðina í höfuðborginni.

Það var fátt að gera fyrir Najac í höfuðborginni og hann hugsaði sem svo að hann gæti eins vel haldið heim. En hvað með mömmu. Var það kannski satt sem strákarnir höfðu sagt, vildi hún kannski ekkert af honum vita. En Najac varð að komast heim. Hann varð að treysta á vonina.

Þegar allir kassarnir voru komnir inn í tjaldið spurði bílstjórinn Najac hvort hann vildi fá að sitja í og fara heim í þorpið. Najac hikaði ekki þegar hann svaraði játandi, loksins kæmist hann heim til mömmu.

Eftir margra klukkutíma akstur sá Najac þorpið sitt framundan á veginum. Hann hafði hnút í maganum. Hafði mamma hans gleymt honum? Var hann kannski eftir allt eins og ruslið? Þegar þeir komu nær langaði Najac helst að hætta við allt saman, fara aftur til höfuðborgarinnar, þar gat hann alla vega lifað í voninni um að mömmu hans þætti vænt um hann. Nú myndi hann komast að því eftir nokkrar mínútur hvort að vonir sínar myndu rætast. Endir.

Popptenging

Coldplay – Paradise

Myndbandið við lagið Paradise með Coldplay, er einstaklega skemmtilegt og fjallar um þörfina fyrir að tilheyra. Fá að vera við sjálf með þeim sem okkur þykir vænt um. Lagið var notað með íslenskum texta á unglingalandsmóti í Vatnaskógi vorið 2012.

Valdimar – Yfirgefinn

Óvissan um framtíðina og hvað er framundan er nálgun þeirra snillinga í hljómsveitinni Valdimar í laginu Yfirgefinn. Samspil látanna, þagnarinnar, myrkursins og einmanaleikans, kallast á við enda sögunnar um Najac.

Safe and Sound – Taylor Swift

Það er sennilegt að á lokafundinum í mars hafi einhverjir unglingana séð kvikmyndina „Hungurleikarnir“ (e. Hunger Games) sem verður frumsýnd 23. mars. Lag Taylor Swift í myndinni „Safe and Sound“ getur sem best kallað fram hugrenningatengsl hjá þátttakendum við samband Katniss og Rue í myndinni. Hægt er að ræða við þátttakendur um hvað felst í að upplifa öryggi og hvað felst í því að vera hluti af einhverju stærra en við erum sjálf.