Ritningartexti: Fil 2.3-11

Gerið ekkert af eigingirni eða hégómagirnd. Verið lítillát og metið hvert annað meira en ykkur sjálf. Lítið ekki aðeins á eigin hag heldur einnig annarra. Verið með sama hugarfari sem Kristur Jesús var. Hann var í Guðs mynd. En hann fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur.
Hann svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd og varð mönnum líkur. Hann kom fram sem maður, lægði sjálfan sig og varð hlýðinn allt til dauða, já, dauðans á krossi.

Fyrir því hefur og Guð hátt upp hafið hann og gefið honum nafnið, sem hverju nafni er æðra, til þess að fyrir nafni Jesú skuli hvert kné beygja sig á himni, jörðu og undir jörðu og sérhver tunga játa Guði föður til dýrðar:
Jesús Kristur er Drottinn.

Markmið

Samverunni er ætlað að fá þátttakendur til að hugsa um mikilvægi þess að meta annað fólk til jafns við þá sjálfa.

Um textann

Það er okkur eðlislægt að horfa fyrst og fremst til okkar sjálfra. Frægur guðfræðingur um miðja síðustu öld talaði um að erfðasyndin birtist hvað skýrast í orðinu „ég.“ Við metum aðra út frá okkar eigin þörfum og löngunum. Svör við spurningum um rétt og rangt hafa tilhneigingu til að breytast þegar „ég“ verð fyrir áhrifum af svörunum.

Líf og starf Jesús snéri þessari hugmynd og mörgum öðrum á hvolf. Eins og segir í textanum hér að ofan, þá lægði hann sjálfan sig. Hann lagði áherslu á að þjóna en ekki vera þjónað. Jesús lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir okkur.

„Ég“ er einmanalegt orð. Það beinir athyglinni frá samskiptum okkar hvort við annað, það leitast við að greina í sundur. Það á líka við um orðið „þú“. Í frumkirkjunni var áherslan ekki á orðin „ég“ og „þú“ heldur „við“. Samfélagið sem myndaðist fyrst eftir upprisuna leitaðist við að eiga allt saman, lifa saman og byggja sig upp saman. Það gekk ekki vel. Raddir sjálfhverfu og aðgreiningar urðu fljótt háværar. Ég skil þetta betur, ég er bænheitari, ég er reyndari, ég er gáfaðri, ég er í meirihlutanum. Strax meðal lærisveina Jesús sjáum við sjálfhverfuna, þar sem þeir rífast um hver þeirra sé mikilvægastur. Svar Jesú kallast á við skrif Páls hér að ofan:

En eigi sé yður svo farið heldur sé hinn mesti yðar á meðal sem væri hann yngstur og foringinn sem þjónn. Því hvort er sá meiri sem situr til borðs eða hinn sem þjónar? Er það ekki sá sem situr til borðs? Samt er ég meðal yðar eins og þjónninn. (Lk 22.26-27)

Það er mikið auðveldara að útskýra hvernig hógværð er ekki en að reyna að útskýra hvernig hógværð birtist í lífi okkar. Þó er mikilvægt að skilja að hluti af því að vera hógvær felst í að geta þegið hjálp og góðmennsku, en telja sig ekki hafin(n) yfir þörfina á hjálp.

Hugmynd að hugleiðingu

Hver er mikilvægastur?

Hægt er að setja fram myndir af mismunandi starfsfólki og fá þátttakendur til að raða þeim upp í mikilvægisröð. Þegar því er lokið má lesa frásöguna í Lk. 22.24-27 og spyrja hvort að það breyti einhverju í uppröðuninni.

Að lokum má spyrja þátttakendur hvort að raunin sé ekki sú að við séum öll jafn mikilvæg. Við séum öll Guðs sköpun. Það þýði auðvitað líka að við eigum að koma fram við ALLA aðra líkt og þeir séu einnig Guðssköpun. Hvorki betri né verri, merkilegri eða ómerkilegri, heldur öll elskuð eins af sama Guði.

Najac – Atburðurinn sem breytti öllu

Það var liðið á daginn. Najac gekk eftir breiðgötunni framan við forsetahöllina og bauðst til að þrífa rúðurnar á bílunum sem voru fastir í umferðinni. Hann gerði þetta stundum seinnipartinn og oftast náði hann að vinna sér inn smá aur sem hann gat notað til að kaupa sér mat.

Allt í einu byrjaði hávaðinn. Það var eins og eitthvað skylli saman í sífellu. Síðan fann Najac eins og jörðina hristast og titra. Najac fannst eins og risastór trukkur væri að keyra rétt hjá sér, nema hann sá engan trukk og umferðin var stopp. Hann skyldi þetta ekki. Honum varð litið í átt að forsetahöllinni, en það eina sem hann sá var grátt ryk í loftinu.

Titringurinn hélt áfram, hávaðinn var undarlegur, brothljóð í fjarska, hann sé tré við veginn detta yfir bíl. Najac stóð grafkyrr, hvenær hættir þetta hugsaði hann og þá, jafnskjótt og hávaðinn og titringurinn hófst varð algjör kyrrð í smá stund. Eins og það hefði verið slökkt á tímanum. Það stóð ekki lengi. Najac heyrði hróp og öskur í fjarlægð, fólk steig út úr bílunum sínum og allir virtust byrja að hlaupa. Najac skyldi ekki hvert. Hann ákvað að koma sér að skólanum og spyrja kennarann hvað hefði eiginlega gerst.

Najac gekk af stað, loftið var öðruvísi en venjulega, ryk út um allt. Hávaðinn í umhverfinu var líka öðruvísi. Hrópin frá götusölunum voru þögnuð, en það voru annars konar hróp sem heyrðust. Hlaupandi fólk um allt að kalla hvort á annað í rykinu.

Þegar Najac hafði gengið í átt að skólanum smá stund heyrði hann kallað til sín: „Hjálp, getur þú hjálpað mér?“

Najac leit í áttina að röddinni og sá konu liggja á jörðinni með annan fótinn grafinn undir grjóti. Najac hljóp til hennar og byrjaði að kasta grjótinu af fætinum. Hann fann til með konunni og var glaður að geta hjálpað, en fann til með henni um leið. Eftir að Najac hafði náð mesta grjótinu burt, tókst konunni að standa upp. Hún faðmaði Najac fyrir hjálpina en hljóp svo burt kallandi nafn sem Najac þekkti ekki.

Najac hélt ferðinni áfram að skólanum. Rétt áður en hann kom að skólahúsinu mætti hann dreng sem hann kannaðist við. Hann bjó hjá foreldrum sínum í stóru húsi rétt við skólann og Najac hafði oft séð hann standa með foreldrum sínum, benda á fátæku krakkana og hlæja. En hann hló ekki núna. Hræðslan og óttinn skein úr augunum og hann virtist allt að því stjarfur. Najac langaði að hjálpa honum en vissi ekki hvernig. Það á enginn skilið að vera stjarfur af hræðslu. Najac staldraði við, tók í hönd drengsins og setti í lófa hans alla aurana sem Najac hafði unnið sér inn fyrr um morguninn. Najac vissi sem var að hann gæti auðveldlega unnið sér inn þessa peninga aftur, en drengurinn virtist ekki hafa neitt.

Drengurinn leit í augu Najac, hræðslan og óttinn hafði breyst í þakklæti þessa örskotsstund, ekki vegna auranna endilega, heldur vegna þess að einhver hafði veitt honum athygli. Najac leið vel að sjá þakklætið í augum drengsins og þeir brostu hvor til annars áður en Najac gekk að skólahúsinu.

Skólahúsið hafði hrunið að hluta. Þar sem kennslustofan hafði verið áður, var steinahrúga. Najac horfði um allt í leit að starfsfólki skólans en þarna var enginn.

Popptenging

Christina Aguilera – Lift Me Up

Söngur Christina Aguilera á söfnunartónleikum í kjölfar jarðskjálftanna á Haiti vakti mikla athygli, enda er flutningurinn frábær og textinn viðeigandi. Christina syngur um að hún geti ekki höndlað aðstæðurnar sem hún er í, viðurkennir að hún þarfnist hjálpar. Auðmýktin í textanum minnir okkur á að ekkert okkar er óstöðvandi og við þörfnumst hvors annars.

[7.26] HOW TO: Be Humble

http://www.youtube.com/watch?v=4XJMqGOGi5E

Kaldhæðni og írónía eru líklega aldrei viðeigandi í starfi með börnum og unglingum. Þetta myndband inniheldur bæði í miklu mæli, þegar það varpar upp vangaveltum um hvort hægt sé að vera bestur í því að vera hógvær.

Notting Hill – Brownie Contest

Það er augljóst að auðvelt er að nálgast hógværð út frá kaldhæðninni. Í myndinni Notting Hill leikur Julia Roberts fræga leikkonu sem útskýrir fyrir nýjum vinum sínum hvernig lífið hennar er í raun og veru.

Ítarefni

http://tru.is/pistlar/2009/11/hogvaerdin