Ritningartexti: Mt 4.1-11

Áhersluatriði

Jesús þekkir það að vera freistað og vill hjálpa okkur þegar við stöndum frammi fyrir erfiðum ákvörðunum.

Um textann

Jesús var um þrítugt þegar hann var skírður hjá Jóhannesi í ánni Jórdan. Eftir skírnina fór hann einn út í eyðimörkina, fastaði og hugleiddi vilja Guðs.

Fastan er tími bæna og fórna. Fasta gefur fólki tækifæri til að hugleiða vilja Guðs á sérstakan hátt, um leið og hefðbundið daglegt líf er sett á ís. Þegar Jesús hafði fastað í 40 daga kom djöfullinn og freistaði hans. Hann bauð Jesú að leysa allar hans áhyggjur og vandamál, ef Jesús skoraðist undan því að gera það sem rétt er.

Djöfullinn bauð Jesú brauð til að seðja hungrið, höfðaði til sjálfsmyndarinnar með því að mana Jesú til að sýna mátt sinn og djöfullinn bauð Jesú völd gegn því að hann gæfi upp köllun sína.

Jesús var ekki bara Guð, heldur líka maður og baráttan var því raunveruleg. Baráttan um einfalt líf þar sem eigin lúxus og þægindi voru í forgrunni, eða það að gera það sem rétt var, fylgja köllun sinni og vilja Guðs.

Við stöndum öll frammi fyrir spurningum um rétt og rangt. Stundum eru það spurningar um hvað hentar okkur hér og nú, eða hvort við viljum gera það sem er rétt. Að vera heiðarleg(ur) felst m.a. í því að gera það sem er rétt jafnvel þó að engin(n) viti ef við gerum rangt.

Popptenging

Return of the Jedi
Í 6. Stjörnustríðsmyndinni, „Endurkomu Jedans“ (e. Return of the Jedi) er freistingafrásagan endurtekin seint í myndinni, þegar Keisarinn býður Loga geimgengli (e. Luke Skywalker) að ganga til liðs við sig. Atriðið er seint í myndinni og er brotið upp með skotum af átökum frelsishersins við stormsveitir og flugmenn keisaraveldisins. Atriðið hefst eftir 1 klst 30 mínútur og 6 sekúndur og hægt er að enda eftir ræðu Keisarans á 1:37:04 eða horfa fram á 1:50:00.

Ef styttri hlutinn er notaður, þá er hægt að ræða við ungmennin um hvernig sé best fyrir Loga geimgengil að bregðast við aðstæðum. Ef lengri hlutinn er notaður, þar sem viðbrögð Loga eru ljós, þá má beina umræðunni í farveg um hvað hefði gerst ef Logi hefði ákveðið að velja auðveldu og illu leiðina.

Leikir

Hvað er ég með margar baunir?
Í upphafi leiks fá allir þátttakendur fimm maísbaunir í hendina. Allir standa upp og ganga um salinn, þegar tveir þátttakendur hittast réttir annar fram lokaðan hnefa og segir hversu margar baunir hann hefur í hendinni. Hinn á þá að segja „satt“ eða „lygi“ og þá er höndin opnuð og í ljós kemur hvort viðkomandi var að plata eða ekki. Ef sá sem giskar hafði rétt fyrir sér fær hann eina baun frá hinum, annars þarf hann að gefa eina baun. Eftir ákveðinn tíma, 5-10 mínútur, er leikurinn stöðvaður og athugað hver hefur flestar baunir. Í lokin er áhugavert að spyrja hvort öllum hafi reynst það auðvelt að ljúga/plata um fjölda bauna í hendinni. Var einhver sem sagði alltaf satt? Má vera óheiðarlegur í leik?

Hnefi og lófi
Í Kompásefninu á bls. 58 er leikur sem reynir á heiðarleika og traust. Leikinn má einnig nota í tengslum við fræðslustundina um traust. Það er samt ekki hægt að nota hann tvívegis fyrir sama hóp. Ekki er nauðsynlegt að gefa leiknum jafn langan tíma og tekinn er fram í efninu. Kompás bókina má finna á vefslóðinni http://nams.is/kompas.

Verkefni

Hægt er að fá börnin og unglingana til að teikna upp á maskínupappír manneskju í fullri stærð og skrifa inn og/eða teikna inn á manneskjuna þætti sem einkenna góða manneskju.