Ritningartexti: 1M 1.27-31a

Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd. Hann skapaði hann eftir Guðs mynd. Hann skapaði þau karl og konu. Guð blessaði þau.

Og Guð sagði við þau: „Verið frjósöm, fjölgið ykkur og fyllið jörðina, gerið ykkur hana undirgefna og ríkið yfir fiskum sjávarins og fuglum himinsins og öllum dýrum sem hrærast á jörðinni.“

Og Guð sagði: „Nú gef ég ykkur allar sáðjurtir jarðarinnar og öll aldintré sem bera ávöxt með fræi. Þau skulu vera ykkur til fæðu. Og öllum dýrum jarðarinnar, öllum fuglum himinsins, öllum skriðdýrum jarðarinnar, öllu sem hefur lífsanda í sér, gef ég öll grös og jurtir til fæðu.“ Og það varð svo.
Og Guð leit allt sem hann hafði gert, og sjá, það var harla gott.

Markmið

Hvað felst í því að fara vel með gjafir Guðs? Hvað þýðir að hafa ráðsmennskuhlutverk hér á jörðu?

Um textann

Ráðsmennskan er hlutskipti mannsins. Líf hvers einstaklings er dýrmætt, Guðs gjöf. Og hver einstakur ber ábyrgð í lífi sínu, bæði gagnvart sjálfum sér og öðrum. Við erum sköpuð til samfélags og í því erum við ráðsmenn Guðs og höfum afar mikilvægu hlutverki að gegna sem fulltrúar hans. En ráðsmennskan er okkur dýr. Líklega af því, að í ráðsmennskunni, kunnum við ekki alltaf fótum okkar forráð. Þó er hún forsendan fyrir því að eitthvað gangi. Okkur hefur verið trúað fyrir miklu og þar er enginn undanskilinn. Þú og ég eigum í heimi hér ráðsmennskuhlutverkið víst, til þess að annast og hlú að, – af öllum mætti, huga, hjarta og sál. Og verkefnin eru ærin. Óendanleg. Spennandi. Ávaxtarík. Í sköpunarsögu Biblíunnar er þessu svo lýst að manneskjan hafi ekki haft frið í sálu sinni, þegar henni varð ljóst að hún bjó yfir hyggindum og forvitni og hæfileikum til þess að láta eitthvað gerast eftir eigin höfði. Snákurinn í paradís er táknið um þær dularfullu hugrenningar, sem leiða manneskjuna í ógöngur. Fær hana til að bregðast ráðsmennskuhlutverki sínu og gleyma því, hvaðan allt er. Gleyma því hver léði manneskjunni lífsins hlutverk, -foreldrahlutverkið, kennarastarfið, forstjórastöðuna, ráherraembættið, já eða það hlutverk að vera öðrum náungi. Upptalningin er auðvitað takmarkalaus. “Hver sem mikið er gefið verður mikils krafinn” hefur Lúkas guðspjallamaður svo eftir frelsaranum á öðrum stað. (Lúk. 12.48).
(Birgir Ásgeirsson, 2006, Ráðmennskan mín, http://tru.is/postilla/2006/08/radsmennskan-min)

Hugmynd að hugleiðingu

Hér getur farið vel á því að lesa fyrri sköpunarsögu 1. Mósebókar og segja þátttakendum að þessi texti sé fyrst og fremst ákall til okkar að fara vel með sköpun Guðs. Guð hafi útvalið okkur til að passa upp á sköpun sína og við þurfum að taka það hlutverk alvarlega. Í smærri hópum má opna umræðu um hvernig við getum gert það.

Najac – Að eiga eitthvað

Það var kalt í dag. Najac hafði lítið til að skýla sér fyrir hafgolunni þegar hann vaknaði. Þetta yrði ekki auðveldur dagur. Najac hafði kvöldið áður náð að finna sér stað niður við ströndina, þar sem hann gat lagst til svefns í skjóli nokkurra báta sem lágu á hvolfi í fjörunni. Sandurinn var mjúkur og þægilegur og Najac hafði búið sér til lítinn kodda með því að hrúga upp sandi undir höfuðið. Hann hélt sig vera svo sniðugan að finna þennan stað en undraðist pínulítið hvers vegna engir aðrir heimilislausir væru þarna.

Nú skyldi hann það betur. Hárið var fullt af sandi, sandkorn voru föst í fötunum hans og honum var skítkalt. Najac ætlaði aldrei aftur að sofa á ströndinni, eins og þetta virtist góð hugmynd í gær.

Það var erfitt að búa einn á götunni, eiga ekkert skjól. Hann átti samt stað sem hann gat kallað „heima“, heima í litla þorpinu þar sem mamma hans bjó. Najac hugsaði oft heim, það var ekki alltaf auðvelt að vera þar og oft fóru þau svöng í háttinn, en það var samt „heima“, staðurinn hans.

Najac flýtti sér á fætur, hann vissi að ef hann myndi liggja áfram, yrði hann ennþá kaldari. Hann hristi af sér mesta sandinn, renndi höndunum í gegnum hárið og reyndi að snyrta sig til. Hann gekk niður að sjónum og notaði volgt saltvatnið til að skola sig í framan og ná sandinum af höndunum. Mamma hans hafði kennt honum að leitast alltaf við að vera hreinn og snyrtilegur, „sá sem ekki getur hirt vel um sjálfan sig hefur glatað sjálfum sér“ sagði hún oft. Jafnvel þegar ekkert var til að borða, þau réðu ekki við lekann af þakinu á bárujárnskofanum og þeim var kalt og skulfu inn að beini, lét mamma hann alltaf þrífa sig í framan, slétta fötin sín og standa uppréttur.

Hann vissi sem var að það dýrmætasta sem Guð hafði gefið honum var sjálfsvirðing. Sá eini sem gæti stolið henni frá honum var hann sjálfur.

Popptenging

Earth – Official Movie Trailer

Þegar við tölum um ráðsmennskuhlutverk okkar og sköpun Guðs, þá er þetta kynningarmyndband fyrir kvikmyndina „Earth“ alveg stórkostlegt. Eins má að sjálfsögðu horfa á myndina sjálfa að hluta til eða í heild.