Ritningartexti: P. 6.1-7

Á þessum dögum, er lærisveinum fjölgaði, fóru grískumælandi menn að kvarta yfir því að hebreskir settu ekkjur þeirra hjá við daglega úthlutun. Hinir tólf kölluðu þá lærisveinahópinn saman og sögðu: „Ekki hæfir að við hverfum frá boðun Guðs orðs til að þjóna fyrir borðum. Finnið því, systkin, sjö vel kynnta menn úr ykkar hópi sem fullir eru anda og visku. Munum við setja þá yfir þetta starf. En við munum helga okkur bæninni og þjónustu orðsins.“ Öll samkoman gerði góðan róm að máli þeirra og kaus hún Stefán, sem var gagntekinn af trú og heilögum anda, Filippus, Prókorus, Níkanor, Tímon, Parmenas og Nikolás frá Antíokkíu sem tekið hafði gyðingatrú. Söfnuðurinn lét leiða þá fram fyrir postulana sem báðust fyrir og lögðu hendur yfir þá.

Orð Guðs breiddist út og tala lærisveinanna í Jerúsalem fór stórum vaxandi. Einnig snerist mikill fjöldi presta til hlýðni við trúna.

Markmið

Getum við ákveðið í sameiningu að eitthvað sé gott eða vont? Er hægt að kjósa um mannréttindi? Getur meirihlutinn ákveðið að minnihlutahópar eigi ekki að hafa mannréttindi?

Um textann

Það er ekki nýtt að kristnir menn skipi sér í lið eða fylkingar. Strax í 6. kafla Postulasögunnar lesum við um að grískumælandi kristnir í Jerúsalem veita því eftirtekt að ekkjur sem töluðu grísku voru skyldar útundan þegar kristnir í Jerúsalem skiptu á milli sín daglegum kosti.

Það tók sem sé ekki nema „6. kafla“ fyrir kirkju Krists að verða vettvangur ójafnréttis. Reglurnar sem giltu fyrir hebreskar ekkjur, voru ekki í gildi fyrir grískumælandi ekkur.

Við höfum öll tilhneigingu til að skipa öðrum í hópa og oft finnst okkur að aðrar reglur eigi að gilda um okkur og okkar hóp en aðra.

Þegar við erum í meirihluta finnst okkur jafnvel í lagi að kjósa um hvaða réttindi eiga að gilda fyrir aðra. Þannig hafa verið settar reglur um hegðun minnihlutahópa, sem oft byggja á því að þeir hafi ekki sama rétt og meirihlutinn. Meðan einstaklingar tilheyra meirihlutanum þá finnst mörgum engin ástæða til að skipta sér af eða gera athugasemdir. Orð sem eignuð eru prestinum Martin Niemöller, útskýra þetta ágætlega.

…fyrst komu þeir og sóttu kommúnistana;

ég sagði ekkert því að ég var ekki kommúnisti.

Síðan sóttu þeir gyðingana;

ég sagði ekkert því að ég var ekki gyðingur.

Þá komu þeir til þess að sækja verkamennina,

félaga í stéttarfélögum;

ég var ekki í stéttarfélagi.

Þar á eftir sóttu þeir kaþólikkana;

ég sagði ekkert því að ég var mótmælandi.

Loks komu þeir til þess að sækja mig og

enginn varð eftir sem gat sagt neitt.“

(Þýðingin á orðum Martin Niemöller er fengin úr Kompás – Handbók um mannréttindafræðslu fyrir ungt fólk, bls. 32)

Niemöller var upphaflega íhaldssamur þjóðernissinni sem studdi við stefnu Hitlers um endurreisn þýska ríkisins. Þegar hann síðan sá hvert stefndi í Þýskalandi, breytti hann um kúrs og tók virkan þátt í Játningakirkjunni svokölluðu sem barðist gegn nasisma. Svo fór að 1937 var hann handtekinn og dvaldi meðal annars í útrýmingarbúðunum í Dachau fram að stríðslokum.

Það er vissulega mikilvægt að standa upp fyrir eigin réttindi líkt og grískumælandi kristnir gerðu í Jerúsalem fyrir hartnær 2000 árum, en það er ekki síður mikilvægt að standa upp fyrir aðra, jafnvel þegar það hentar okkur ekki. Ekki einvörðungu vegna þess að það getur komið sér vel síðar, heldur einfaldlega vegna þess að það er rétt. Allt mannkyn er dýrmæt sköpun Guðs. Hér er mikilvægt að við gleymum aldrei að ALLT merkir ALLT. Ekki bara þau sem eru eins og við.

Hugmynd að hugleiðingu

Hér gæti verið spennandi fyrir þátttakendur að nefna réttindi sem allir ættu að hafa í ljósi þess að við erum öll dýrmæt sköpun Guðs. Einnig er hér spennandi tækifæri til að ræða um Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og hvað í honum felst. Á vefsíðunni http://www.nams.is/kompas er verkefni sem ber heitið „Réttindi barna“. Í því verkefni þurfa þátttakendur að raða greinum barnasáttmálans í tígul, mikilvægasta greinin efst og sísta greinin neðst.

Najac – Von

Najac fór í skólann í dag, hann mætti snemma og vonaði að hann mætti aftur sitja inni á helgistundinni hjá starfsfólkinu. Þegar hann kom inn mætti hann kennaranum. Kennarinn spurði hvernig hefði gengið hjá tannlækninum og bauð honum svo á stundina.

Það var engin söngur að þessu sinni. Einn starfsmannanna var að deila með hinum frásögn af ferð sem hann hafði farið í til fyrirheitna landsins. Najac var brugðið að sjá hann og langaði að spyrja af hverju hann hefði komið til baka. Er ekki allt betra í fyrirheitna landinu? En Najac þagði og hlustaði.

Ferðalangurinn talaði við starfsfólkið um hvernig alsnægtirnar hefðu áhrif á vonina. Hann sagði frá foreldrum sem ynnu allan daginn, frá börnum sem sáu foreldra sína í minna en 1 klst á dag, jafnvel þó þau byggju í sama húsi. Allt virtist snúast um að eignast, en það að njóta og lifa hefði gleymst. Najac skyldi þetta ekki. Er hægt að eiga allt, skorta ekkert, en vilja samt meira og meira og meira. Najac átti ekkert nema fötin sem hann var í. Hann gat grátið og hlegið, vonað og beðið. Hann langaði samt oft í meira.

Ferðalangurinn bætti við að stundum væri eins og í fyrirheitna landinu væri engin von. Þeir sem vonuðust eftir réttlæti, þyrftu að byrja á að gefa af alsnægtum sínum og það vildi enginn gera. Ferðalangurinn talaði um að hafa ekkert að hlakka til, að þurfa aldrei að vera þolinmóður, að bíða væri talið veikleikamerki. Fyrirheitna landið hefði glatað voninni og framtíðinni í eftirsókn sinni eftir að eignast allt NÚNA. Margir hefðu meira að segja hafnað Guði, þau hefðu allt og þyrftu ekki á Guði að halda.

Najac varð ringlaðri og ringlaðri. Var fyrirheitna landið ekki fullkomið? Eiga þeir sem eiga allt, líka í erfiðleikum? Líður einhverjum illa sem er aldrei hungraður? Hvernig var hægt að segja að Guð skipti ekki máli? Hafði Guð ekki gefið allt?

Ferðalangurinn talaði um einmanaleikann í fyrirheitna landinu. Hvernig fólk væri upptekið af að vinna og eignast að það hefði gleymt því að lifa. Hann talaði um að þau gætu kennt fólkinu í fyrirheitna landinu sitthvað um nægjusemi og samfélag.

Najac varð hugsi. Hafði hann eitthvað upp á að bjóða sem fólkið í fyrirheitna landinu hafði ekki. Hann átti drauma og vonir. Hann hlakkaði til að hitta mömmu sína, bara ef hann kæmist heim á sléttuna.

Popptenging

Queen – I Want it All

http://www.youtube.com/watch?v=gfLD-7bCtME

Hér er það að sjálfsögðu viðlagið sem er viðfang samverunnar. Þörfin fyrir að fá allt NÚNA. Í bandarísku skólakerfi er mikið talað við börnin um muninn á forréttindum og réttindum. Á vefsíðu Barnasáttmálans er ágætur leikur sem tekur á þessu (http://www.barnasattmali.is/nam/verkefniyngrinemendur/125-rettindiogforrettindi.html). Einnig má ræða þennan mun almennt við þátttakendur.

Ítarefni

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna (SÞ) hefur verið samþykktur af öllum aðildarþjóðum SÞ nema Sómalíu og Bandaríkjunum. Í honum er tíunduð réttindi sem öll börn eiga að hafa. Í tengslum við þessa samveru gæti verið spennandi að ræða efni sáttmálans við þátttakendur í starfinu. Fá þá til að velta fyrir sér hvaða réttindi eru mikilvægust og hvers vegna. Verkefni og nánari upplýsingar um sáttmálann má fá á http://www.barnasattmali.is/nam/index.html.