Ritningartextar: Lk 7.18-23 og Jh 3.16

Lærisveinar Jóhannesar sögðu honum frá öllu þessu. Jóhannes kallaði þá til sín tvo lærisveina sína, sendi þá til Drottins og lét spyrja: „Ert þú sá sem koma skal eða eigum við að vænta annars?“

Mennirnir fóru til hans og sögðu: „Jóhannes skírari sendi okkur til þín og spyr: Ert þú sá sem koma skal eða eigum við að vænta annars?“

Á þeirri stundu læknaði hann marga af sjúkdómum, meinum og illum öndum og gaf mörgum blindum sýn. Og hann svaraði þeim: „Farið og kunngjörið Jóhannesi það sem þið hafið séð og heyrt: Blindir fá sýn, haltir ganga, líkþráir hreinsast og daufir heyra, dauðir rísa upp og fátækum er flutt fagnaðarerindi. Og sæll er sá sem hafnar ekki því sem ég geri.“ (Lk 7.18-23)

 

Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf. (Jh 3.16)

Áhersluatriði

Guð elskar okkur alltaf. Hann sendi son sinn í heiminn.

Um textann

Vestræn siðmenning á upphaf sitt í Frjósama hálfmánanum, svæði fyrir botni Miðjarðarhafs sem teygir sig út að Persaflóanum í austri, inn að Rauðahafinu og Níl í suðri, Kaspíahafi í norðri og Svartahafi í vestur. Á þessu svæði urðu til mörg stórveldi og þar urðu til borgarsamfélög mörg þúsund árum fyrr en í Evrópu.

Á þessu svæði hafa alltaf búið fjölmargir ættflokkar með margs konar siði og venjur og með borgarsamfélaginu varð sjálfsmynd einstakra hópa mikilvægara en nokkru sinni. Átrúnaður var afl sem hægt var að sameina ættflokkinn um.

Enn í dag er þetta svæði miðpunktur í vestrænni siðmenningu, enn berjast ættflokkar um völd og land. Ennþá er átrúnaður notaður til að sameina einn hóp gegn öðrum.

Textinn í Lúkasarguðspjalli minnir okkur á að Jesús kom ekki til okkar úr tómarúmi, hann kom inn í tilteknar aðstæður og koma hans hafði verið boðuð um aldir. Jóhannes skírari hafði gengið um bakka Jórdanárinnar og boðað að „…sá kemur, sem mér er máttugri, og er ég ekki verður að leysa skóþveng hans. Hann mun skíra yður með heilögum anda og eldi.“ (Lúk. 3.16) Á undan Jóhannesi höfðu þeir komið; Móse, Elía, Jesaja, Hósea, Esekíel og Daníel svo einhverjir séu nefndir. Allir höfðu þeir komið og sameinað þjóð sína í trú á það að sonur Guðs kæmi og leysti þá undan synd og dauða.

Eftirvænting gyðingaþjóðarinnar var því mikil. Hún var enn á ný undir erlendu hervaldi, að þessu sinni Rómverjum, og réð ekki landi sínu sjálf. Fjölmargir sjálfskipaðir frelsarar höfðu komið fram, en verið teknir af lífi eða endað í fangelsi. Það er inn í þessar aðstæður sem Jesús Kristur kemur. Jóhannes heyrir af honum og veltir eðlilega fyrir sér: „Ert þú sá sem koma skal, eða eigum vér að vænta annars? “

Viðbrögð Jesú eru eftirtektarverð, hann notar ekki orð heldur verk. Hann segir lærisveinum Jóhannesar að fara og vitna um verk sín og vísar með verkum sínum til spádómsorða Jesaja:

„Hann hefir sent mig til að flytja nauðstöddum gleðilegan boðskap og til að græða þá sem hafa sundurmarið hjarta, til að boða herteknum frelsi og fjötruðum lausn.“ (Jes. 61.1.).

Orð sem Kristur hafði áður lesið í samkunduhúsinu í Nasaret og þá verið hrakinn út (Lúk. 4.16-30).

Við sjáum líka þessa sömu eftirvæntingu gyðingþjóðarinnar í frásögninni af Nikódemusi . Nikódemus kemur til Jesú um nótt og veit að Jesús er mikill og merkur maður, en skyldi hann vera sá sem koma skal?

Jesús svarar honum með orðunum sem við köllum oft Litla Biblían. Hann vísar til sögunnar um höggorminn í eyðimörkinni sem frelsaði lýðinn undan eiturbitinu (Jóh 3:14; 4. Mós. 21.6-9).

Sá Kristur sem Nikódemus og Jóhannes væntu var líklega ekki sá Jesús sem kom. Margir innan gyðingþjóðarinnar væntu herkonungs, nýs Davíðs, sem myndi brjóta aftur vald Rómverja og gera Ísrael að stórveldi við botn Miðjarðarhafs. Stórveldi sem myndi stjórna viðskiptum alls heimsins og brjóta undir sig allar þjóðir heims með öflugum her sem myndi njóta náðar Guðs. Sá Kristur sem kom var allt annarskonar, hann gekk um og þjónaði, læknaði sjúka og huggaði sorgmædda.

Aðventan er tími eftirvæntingar, biðtími eftir þeim sem koma skal, þeim sem Ísraelsþjóðin beið eftir. Þessir tveir textar kenna okkur að Jesús var sá sem koma skyldi, hann var og er Kristur sonur hins lifanda Guðs. En jafnframt kenna þeir okkur að Kristur er ef til vill öðruvísi en við væntum.

Á aðventunni eigum við að undirbúa komu hans í líf okkar. Við eigum að undirbúa okkur undir að Kristur sem gaf sjálfan sig, þjónaði öðrum og kallar okkur vini sína er fæddur í heiminn og vill dvelja með okkur. Guð sem í stað þess að sýna völd og kraft, gefur sjálfan sig í kærleika fyrir okkur.

Möguleg útlegging fyrir börn og unglinga

  • Jesús fæddist í Ísrael við botni Miðjarðarhafsins.
  • Margir spámenn í Ísrael höfðu boðað að frelsari væri væntanlegur.
  • Þjóðin sem Jesú tilheyrði, Ísraelsþjóðin vænti komu frelsara.
  • Á tíma Jesús voru margir sem gengu um og sögðust vera frelsarar.
  • Jóhannes skírari sendi lærisveina sína til að spyrja Jesú hvort hann væri sá sem hann segðist vera?
  • Jesús svaraði ekki með orðum heldur verkum og vísað þannig til spádóma Gamla testamentisins.
  • Þannig sýndi hann að hann er sá sem hann sagðist vera. Koma hans var uppfylling spádómanna.

Nálgun að umræðum – Að vera eitthvað

Þegar Harry Potter kemur til London í kvikmyndinni „Harry Potter og viskusteinninn“, þá veit Harry ekki hver hann er, og þá síður hvert hlutverk hans er.

Frelsarinn er öðruvísi en við væntum. Í teiknimyndinni Mulan er söguhetjan kona sem dulbýr sig sem maður til að ganga í herinn. Mulan bjargar herdeild sinni frá bráðum bana, en þá uppgötvast að hún er ekki karl heldur kona. Þrátt fyrir að hafa bjargað þeim er skömmin af því að vera kona svo stór að til stendur að taka hana af lífi. Hægt er að sýna þetta skot, þ.e. þegar Mulan bjargar herdeildinni og félagar hennar komast að því að hún er kona.

Umræður

  • Hvers vegna vildi Jóhannes vita hver Jesús var?
  • Hvernig getum við vitað að einhver sé sá sem hann segist vera?
  • Hver er munurinn á Harry Potter og Jesú Kristi?
  • Hvað finnst okkur um viðbrögðin þegar upp kemst að Mulan er kona?
  • Gyðingarnir bjuggust við herkonungi en fengu friðarhöfðingja. Hvernig verður okkur við þegar hlutirnir eru allt öðruvísi en við héldum?
  • Hvernig heldur þú að gyðingum hafi liðið þegar Jesús sagðist vera Messías?

Verkefni

Hægt er að láta börnin teikna jólaundirbúninginn eins og hann er á þeirra heimili.

Fundarefni

Lokafundurinn á haustmisseri er í vikunni eftir fyrsta sunnudag í aðventu. Það er því vel við hæfi að fundurinn hafi jóla-/aðventuþema. Það er allt í lagi að notast við jólasöngva á þessum fundi þrátt fyrir að hann sé í upphafi aðventu. Nokkrar aðrar hugmyndir að fundarefni eru hér.

  • Horfa á jólamyndina um Skrögg og jólaandana
  • Jólaföndur
  • Aðventupakkafundur
  • Pálínuboð